Daufir karlar með sölnaða ritvélarborða

 

Fyrir jólin 2012 komu út þrjár bækur sem eiga það sameiginlegt að fjalla um eldri menn sem yfirgefa lífið. En þeir hverfa ekki snögglega heldur dofnar hægt yfir þeim og þeir þvælast lengi um eins og lifandi dauðir þar til það slokknar loks alveg á þeim.

  

Íslendingablokk
Pétur Gunnarsson,
Íslendingablokk,
JPV, 2012.
 

Í Íslendingablokk eru raktar samhliða sögur nokkurra persóna, sem tengjast á ýmsa vegu. Margar þeirra eru eldri karlar sem eru utangátta í tækni nútímans, auk þess að ganga í gegnum þann „hreinsunareld“ að upplifa erfitt samband við spegilinn, sem birtir sífellt ókunnuglegra andlit (40), og finna „hvernig manni förlast með árunum, glompurnar sem koma í minnið […] Sálin á brott jafnvel áður en menn eru allir“ (62). Þar má helst nefna lýsingar á sambandi kunningjanna Indriða og Hreggviðar sem hafa eins og dagað uppi saman: „[...] lengst af höfðu konurnar staðið á milli þeirra og jafnað bilin, nú höfðu þær verið numdar brott og þá blöstu þeir hvor við öðrum líkt og tvö fjöll þegar vegagerðin er búin að moka burt millifjallinu“ (25). Önnur sögupersóna, Addi, á það sameiginlegt með þeim að hafa misst konuna sína, Rakel, og við hliðina á gröf hennar bíður hans líka tilbúið stæði, en í kjölfar andláts hennar sannreynir hann að „þegar þú slekkur á heiminum, slekkur heimurinn á þér“ (30). Þó kemur fram að slíkt „brotthvarf“ úr þessum heimi þarf ekki að vera endir alls: „Dauði Rakelar hafði með vissum hætti opnað sálarglugga Adda. Hann gekk í Sálarrannsóknarfélagið og hafði vakandi auga með öllu sem út kom á andlega sviðinu.“ (32)Í öllum bókunum þremur, Íslendingablokk eftir Pétur Gunnarsson, Suðurglugganum eftir Gyrði Elíasson og Fjarverunni eftir Braga Ólafsson, felur upphaf frásagnarinnar þegar endinn í sér. „Það kvöldar í lífi okkar allra“, segir í upphafskafla Fjarverunnar (10), og þótt Íslendingablokk hefjist á fyrsta degi ársins er sá dagur hluti af ævikvöldi sögupersónunnar Indriða og hefst á heimsókn hans að sínu eigin leiði í kirkjugarðinum. Þar hefur honum verið markaður staður við hlið látinnar eiginkonu og hann hefur þegar látið grafa nafn sitt á legsteininn. Við fáum líka strax að vita að Indriði hefur fengið hjartaáfall og blóðtappa í heila og gengur ekki heill til skógar lengur. Hann hafði „verið kominn með annan fótinn í gröfina þegar eitthvað togaði í hann“ en sá fótur er áfram „hálf eitthvað draugslegur“ (12).

 

Fagnaðarerindi

Pælingar um framhaldslíf, endurfæðingu og hreinsunareld eru fyrirferðarmiklar í Íslendingablokk. Séra Flóki er sögupersóna sem legið hefur í dái og rankað við sér trúlaus en leitandi. Svo er það Tommi, sem týndist í útlöndum og var talinn dauður en reynist lifandi. Enn ein persónan ætlar að fremja sjálfsmorð en er fyrir tilviljun trufluð og fær í kjölfarið þá köllun að hjálpa öðrum. Sögupersónurnar í Íslendingablokk upplifa því margar hverjar að vera staddar á mörkum lífs og dauða og/eða andlega leitandi - a.m.k. karlarnir. Konurnar virðast, eins og svo margar kvenpersónur bókmenntasögunnar, upp til hópa jarðbundnari, og þær leiða háleitar samræður oft í praktískan farveg. Karlarnir spá hins vegar í kosmólógíu eða búddisma, einn hlustar á miðilsfund í útvarpinu, annar mætir á andlega samkomu og gönguhópur á Esjunni fær fjallræðu hjá hinum leitandi séra Flóka. Það er því nokkuð viðeigandi að eina sögupersónan sem talar í fyrstu persónu eintölu kennir endurmenntunarnámskeið um Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante og að bókin endar á  hugleiðingu um för sögumannsins í því verki: „Í upphafi ljóðs var hann á barmi sjálfsmorðs, nú er hann endurhlaðinn fítoni við hið nýja upphaf og fagnaðarerindi um það sem bíður okkar handan heims“ (179). Íslendingablokk ber þannig ekki aðeins endinn í upphafi sér, heldur fela endalok hennar í sér loforð um nýtt upphaf – það er í henni bjartsýnn, vonglaður tónn og tilvitnanir fremst í verkinu sýna uppörvandi hlið breytinga og fallvaltleika.

 

Verönd sem var

Fallvaltleiki tilverunnar birtist ekki síst í nýrri tækni sem ryður sífellt þeirri gömlu til hliðar. Pétur Gunnarsson sagði frá því í viðtali sem Jórunn Sigurðardóttir tók við hann í „Orð um bækur“ á RÚV að hann hefði byrjað á bókinni árið 1992 en þurft að leggja hana til hliðar vegna annarra verkefna. Þegar hann byrjaði á henni aftur hefði honum orðið starsýnt á það sem breytist:

Og það eru ekki bara [...] veraldarsögulegir atburðir, hrunið og svo framvegis, heldur eru það smærri atriði, eins og til dæmis [...] tölvupósturinn [...], netið, vísakortið, farsíminn. Þetta hefur allt saman áhrif á persónurnar sem ég er að fjalla um. Þetta hreinlega breytir þeirra lífi.[1]

Pétur Gunnarsson leggur áherslu á skriftir sem varðveisluviðbragð, eins og fram kom í áðurnefndu viðtali, þar sem hann sagði það ástríðu hjá sér að halda umræðu um stórvirki á borð við Gleðileikinn guðdómlega lifandi. Bókmenntir og menning ættu að vera eins og „talnaband sem maður er alltaf að handfjatla og alltaf að fjalla um“ og það verði sífellt brýnna eftir því sem „holskeflumiðlunin“ verður meiri, því gleymskan verði sífellt áleitnari.[2]

Líkt og á fyrstu áratugum 20. aldar, þegar margir íslenskir höfundar voru uppteknir af því að miðla einkennum gamla bændasamfélagsins, er meðvitundin sterk um það sem er að hverfa, um arfinn sem virðist ætla að verða gleymskunni að bráð, í verkum þeirra þriggja höfunda sem hér eru til umfjöllunar. Í Suðurglugga Gyrðis Elíassonar er hins vegar dýpra á bjartsýninni. Bók hans hverfist öll um texta sem leysist upp, er ókláraður, ólesinn.

Suðurglugginn
Gyrðir Elíasson, 
Suðurglugginn,
Uppheimar, 2012.
 

Suðurglugginn minnir að forminu til á minnisbók þar sem hripaðar eru niður hugleiðingar um hversdagslega sem háfleyga hluti, þótt lesa megi söguþráð úr þeim. Sögumaðurinn er rithöfundur sem dvelur einn í lánshúsi í sumarhúsabyggð. Hans eiginlegu, skáldlegu skriftir eiga hins vegar að vera þær sem hann vélritar og hann situr í upphafi við ritvélina sína í afar hefðbundnum rithöfundarstellingum; „hamra á hana, en lít öðru hverju út á sjóinn“ (9). En hin dæmigerða ímynd 20. aldar höfundarins – miðaldra karlinn sem lokar sig af til að hamra innblásin orð á ritvélina sína og horfa hugleiðandi út um gluggann inn á milli – er eitt af því sem er nú smátt og smátt að hverfa. Sögumaðurinn talar kaldhæðinn um niðursagaða „verönd sem var“ (83) á nágrannahúsi, þar sem hann situr eftir í sumarhúsabyggðinni um haustið eins og draugur fortíðar og reynir að skrifa skáldsögu. Í endurminningabókinni Veröld sem var gerði Stefan Zweig nostalgíska tilraun til að varðveita og endurskapa í texta tíðaranda æsku sinnar og ungdómsára, tíðaranda sem honum fannst hafa horfið með fyrri heimsstyrjöldinni. Og í Suðurglugganum er einnig að finna nostalgískan óð til horfinna gilda; óð til hins sérstaka sambands höfundar og ritvélar sem tapast hefur á tölvuöld. Sögumaðurinn vísar meira að segja í hefð sem skapast hefur fyrir slíkum sögum um samband höfundar og ritvélar: „Ef ég man rétt var það Paul Auster sem skrifaði heila bók um ritvélina sína og dásamaði hvað það væri gott að slá á lyklaborðið á henni“ (35). En þegar sú hefð er skoðuð nánar verður ljóst að höfundar hafa eytt að minnsta kosti jafn miklum tíma í að úthúða ritvélum og að dásama þær. Og strax á fyrstu síðum Suðurgluggans verður líka ljóst að samband sögumannsins við gömlu Olivetti-ritvélina sína einkennist af kvíða, togstreitu og ofbeldisfullum hugsunum.  

 

Maður og vél

Sögumaðurinn í Suðurglugganum hefur lokað sig algjörlega af frá mannlegu samfélagi. Hann vísar stöðugt í önnur verk og höfunda þar sem sjálfsmorð og dauði koma við sögu og lætur sig jafnframt dreyma um að stúta ritvélinni sinni:

Það kemur fyrir að ég hugleiði að fara með ritvélina yfir á höfðann og henda henni í sjóinn, jafnvel fara sjálfur á eftir henni. Skáldsögur eru myllusteinn um háls höfundarins. (12)

Ofbeldishneigðin sem beinist gegn vélinni er vandlega samofin sjálfseyðingarhvöt, en rithöfundar lýsa ritvélunum sínum oft eins og nokkurs konar framlengingu á eigin persónuleika. John Updike á til dæmis að hafa sagt í viðtali að hann og Olivetti-vélin sem hann skrifaði allar bækur sínar á, og sem var framleidd sama ár og hann fæddist, væru að eldast og hrörna saman.[3] Og í Suðurglugganum verður ritvélin eins og framlenging á huga höfundarins:

Mér hefur verið sagt hvað eftir annað að það sé fáránlegt að ég skuli ekki nota tölvu við að skrifa. En ég er þrjóskur og vil ekki gefa eftir. Tölvan hefur svipuð áhrif á mig og ljósmyndavélar á frumbyggja Ástralíu: mér finnst hún taka sálina frá mér. Það gerir ritvélin ekki. Samt er það auðvitað svo, að ef hugurinn er ekki tilbúinn, þá er alveg sama hvort ég mundi nota ritvél, Plútóblýant, Parkerpenna eða tölvu, ekkert gerist. En ritvél, helst gömul ritvél án rafmagns, er það næsta sem ég kemst huganum. (32-33).

Það getur því ekki boðað neitt gott þegar hannsetur lokið á ritvélina og smellir „því aftur, með svipuðum hreyfingum og útfararstjóri skrúfar lok á kistu“ (15). Eða þegar: „[s]mellirnir í ritvélinni minna á byssuskot í hljóðu húsinu“, þótt það sé „bara loftriffill“ (11). Upp í hugann kemur sú saga að Hunter S. Thompson hafi átt það til að fara með ritvélina sína út í garð og skjóta á hana. Hann skaut svo á endanum sjálfan sig.[4]

 

Próflaus í blindflugi

Sögumaðurinn í Suðurglugganum lítur á sig sem fulltrúa eldri tíma og streitist á móti nýrri tækni. En aftenging hans við heiminn fyrir utan, við framrás tímans, breytingar og tækniþróun, verður síst til að efla sambandið við gömlu, traustu ritvélina:

Höfuðið á mér er algerlega tómt. Þegar ég horfi niður á svarta ritvélina finnst mér hún vera óvinveitt lífvera, einhverskonar eiturkuðungur (23).

Lýsingar sögumanns á hugarástandi sínu haldast gjarnan í hendur við lýsingar á ritvélinni, líkt og að með því að stara á hana eða snerta geti hann komist í snertingu við sjálfan sig. Það sem við blasir verður hins vegar æ ókunnuglegra og undir lokin er svo komið að ritvélin, það næsta sem kemst huga hans, er orðin tæki sem hann kann ekki að nota:

Ég reyndi í morgun, tók lokið af ritvélinni og settist við borðið, en snögglega leið mér einsog ritvélin væri stjórnborð í flugvél hátt á lofti, og ég ekki með neinskonar flugpróf. Maður fær ekki skírteini út á hugarflug, slíkir flugtímar fást ekki metnir. Ég hef lengi stundað blindflug á þessari vél próflaus, en það verður sífellt áhættusamara. (101)

 

Dauðafölir stafir

Eins og ráða má af tilvitnunum hér að framan ganga skáldskaparskrif sögumannsins í Suðurglugganum ekki sérlega vel. Sögupersónur neita að vakna til lífs og undir lokin er sögumaðurinn farinn að hamra jafnóðum x yfir hvern staf sem hann skrifar. Sem er reyndar óþarfi, því stafirnir sjást varla lengur á pappírnum.

Hinir dofnandi stafir eiga sér eðlilega skýringu. Þeir sem þrjóskast við að skipta gömlu ritvélunum út fyrir tölvu standa fyrr eða síðar frammi fyrir þeim vanda að blekið eyðist upp af ritvélarborðanum og að afar erfitt er að verða sér úti um nýjan. Indriði, sögupersónan í Íslendingablokk, lendir til dæmis í sama vanda er hann ákveður að semja minningargrein:

Ritvélin var á sínum stað inni í svenherbergisskáp, en letrið svo dauft að stafirnir voru nánast hvítir. Hann bað stúlkuna í upplýsingu að hafa uppi á ritvélabúð, en þær voru engar til lengur (155).

Indriði handskrifar að lokum minningargreinina og fer með hana í eigin persónu á Morgunblaðið, sem veldur nokkrum vandræðum í stafrænum heimi. Sú sena Péturs Gunnarssonar er nokkuð kómísk, þótt undirtónninn sé ef til vill harmrænn, og úr hinu handskrifaða skjali má jafnvel lesa einhvers konar ómeðvitaða uppreisn og hefnd í garð umheims sem breytist án tillits til einstaklinga. Á hinn bóginn er óljóst hvort minningargreinin ratar nokkurn tíma á síður Morgunblaðsins. Og í Suðurglugganum dugar ekki að hverfa til enn eldri tækni og taka upp penna þegar ritvélin klikkar. Hann reynist engu betra tæki til að ná sambandi við sjálfið og stafirnir hverfa þar líka:

Ég er alltaf að týna minnisbókunum sem ég krota í. Svo finn ég þær í vösum regnkápunnar, eða ofan í náttborðsskúffunni, en það einkennilega er að síður þeirra eru alltaf auðar þegar ég rekst á þær, þó mig minni endilega að ég hafi verið búinn að krota heilmikið í þær. Ég er með margar minnisbækur, eina í hanskahólfinu á bílnum, en ég gleymi oft pennanum þegar ég fer í bíltúr. Minnisbók án penna er einsog maður sem hefur verið hálshöggvinn, höfuðið oltið burt og sést hvergi (29).

Í meðförum Gyrðis Elíassonar verður hin daufa og dofnandi skrift mun merkingarmeiri og táknrænni en í Íslendingablokk og helst í hendur við annað ferli í Suðurglugganum; árstíðaskipti og hvarf sögupersónunnar úr þessum heimi. Í fyrstu má eygja von um að vorið, árstíð upphafsins, verði frjósamur tími. Það verður þó fljótt ljóst að þessi upphafsárstíð lífsins felur þegar dauðann í sér og sögumaðurinn veltir því fyrir sér snemma hvort haustið sé ef til vill eina árstíðin á þessu landi (35). Þegar haustþokurnar leggjast af alvöru yfir situr sögumaðurinn „gráfölur við Olivetti-vélina, gráum lit slær á A-4 blöðin og stafirnir eru þokugráir“ (85). Um veturinn eru svo sögumaðurinn og stafirnir sem hann hamrar nánast horfnir í alhvítum veruleika, en í Suðurglugganum og Fjarverunni er hvíti liturinn jafnt einkenni dauðans og pappírsarkanna sem skrifað er á. „Blaðið í ritvélinni er jafnhvítt og snjórinn fyrir utan. Stafirnir rétt marka slóð í pappírinn“ (112), segir sögumaður Suðurgluggans og stuttu síðar: „Það er einsog öll náttúran sé orðin eitt óskrifað blað, og þegar ég geng út til að hvíla mig frá ritvélinni finnst mér einsog fótspor mín séu framandi letur sem skrifað er á þetta blað“ (114).

 

Skilaboð að handan

The Enchanted Typewriter eða Andsetna ritvélin er smásagnasafn eftir Bandaríkjamanninn John Kendrick Bangs og kom út árið 1899. Í upphafi bókarinnar segir sögumaðurinn frá því hvernig sögurnar bárust honum gegnum gamla ritvél sem hann hafði fundið uppi á háalofti og gert upp. Hann segist vera heillaður af vélum og hafa gaman af því að „fíflast“ með ritvélina en fyrir alvarlegri verkefni, eins og að semja skáldskap, þarf hann penna. Og þessi ritvél er þeirrar náttúru að það sem hann reynir að skrifa á hana týnist milli takkanna og hamranna. Nótt eina gerist svo nokkuð furðulegt: Ritvélin fer sjálf að hamra stafi á blað og þeyta úr sér hverri vélritaðri blaðsíðunni á eftir annarri. Í ljós kemur að látinn rithöfundur, Jim Boswell, er að nota ritvélina að handan til að skrifa fréttir úr Hadesarheimi. Sögumaðurinn sér strax tækifæri til að nýta sér ritsmíðarnar sem þannig berast, án þess að þurfa að hafa áhyggjur af höfundarrétti og upplýsir lesendur um að afraksturinn hafi ratað einmitt í þessa bók.

Í Suðurglugganum verður ritvélin hins vegar ekki þessi tenging milli lifandi og dauðra og heldur ekki tenging hins lifandi dauða við sjálfan sig. Á endanum eru stafirnir orðnir dauðafölir og helst það í hendur við þá vaxandi tilfinningu lesandans að sögumaðurinn sé í raun alls ekki lifandi, heldur draugur sem hamrar örvæntingarfullt á ritvélina sína, án tengsla við sjálfan sig og undrandi á því að ekkert skili sér á blaðið.

 

Í dauðateygjunum

Fjarveran
Bragi Ólafsson,
Fjarveran,
Mál og menning, 2012.
 

Prófarkalesarinn Ármann Valur, aðalpersónan í bók Braga Ólafssonar, Fjarverunni, og félagi hans, tónskáldið Markús Geirharður, eiga margt sameiginlegt með sögupersónunum í Suðurglugganum og Íslendingablokk. Þeir eru farnir að reskjast og allt frá upphafi bókar má finna vísbendingar um yfirvofandi feigð. Í Fjarverunni hrökkva reyndar ekki færri en sex karlar upp af og mannshvörf eru einnig áleitið þema. Til dæmis fyllir Geirfinnsmálið „út í eitt hólfið í huga Ármanns; og á eftir að gera, eins lengi og heili hans starfar“ (31). Á sínum tíma hleraði hann nefnilega af tilviljun mikilvægar upplýsingar „sem hefðu getað – og gætu enn – leitt til svars við spurningunni hvað varð um Geirfinn Einarsson“ (33). Þessar upplýsingar urðu að texta við lag sem Markús Geirharður samdi og kom út á plötu undir titlinum „Þögnuð slóð“, ásamt laginu „In articulo mortis“sem þýtt er sem „Dauðastundin, eða Í dauðateygjunum“ - en segja má að flestir karlanna í Fjarverunni séu einmitt í dauðateygjunum.

Eitt helsta einkenni Fjarverunnar eru slík hugrenningatengsl og vísanir fram og til baka. Ekki aðeins er fylgt eftir hugsunum aðalpersónunnar, Ármanns, þar sem einstök atvik eða hugmyndir kveikja gjarnan á eldri minningum eða hugsunum um aðra atburði, heldur tengir sögumaðurinn sífellt milli þess sem gerist í núi sögunnar og annarra atburða og persóna í fortíð, nútíð og framtíð. Dæmi um þetta er sena framarlega í bókinni þar sem Ármann gengur heim eftir næturgleðskap með stolna koníaksflösku, geisladisk og bók í plastpoka og á vegi hans verða tveir drengir sem spyrja hann: „Hvað ertu með í pokanum?“ Ármanni finnst „forvitni strákanna jafngilda spurningunni: „Hver ertu?““ og í kjölfarið rifjar hann upp að vinur hans Markús, sem leigir af honum tvö kjallaraherbergi, „hafði spurt Ármann þessarar sömu spurningar fyrir nokkrum vikum“ og bætt við spurningunni hvers vegna hann léti nágrannakonu sína Moniku vaða yfir sig (25). Fram kemur að Markús er „sá sem eftir nokkrar mínútur á eftir að freista Moniku Geirsdóttur til að brjóta rúðu“ í kjallaranum (29). En spurning Markúsar um yfirgang Moniku kveikir jafnframt á bernskuminningum hjá Ármanni og hugsanaferlið verður á endanum að nokkurs konar hraðyfirliti yfir ævi Ármanns. Á þremur blaðsíðum tengja sem sagt atburðir í nútíð sögunnar saman fortíð aðalsögupersónunnar og atburði sem eftir eiga að gerast. Að auki er góssið í pokanum leifar úr samkvæmi sem Ármann Valur vaknar upp af í fyrsta kafla Fjarverunnar en á uppruna sinn í mun eldra skáldverki Braga Ólafssonar, Gæludýrunum frá árinu 2001. Bragi heldur því áfram því sem hann hefur gert í undanförnum verkum sínum, að nota aðal- og aukapersónur úr fyrri bókum og tengja þær saman á margvíslegan hátt. Úr verður flókið net og hálfgerð þraut fyrir lesandann að ráða úr.

 

Að enda í miðri sköpun

Markús Geirharður er sú sögupersóna Fjarverunnar sem á hvað mest sameiginlegt með sögumanni Suðurgluggans, þótt við fáum ekki að gægjast inn í hugskot hans heldur fáum lýsingar á honum í gegnum Ármann og Esther, konu sem Markús á í ástarsambandi við í upphafi sögunnar. Samband Markúsar við Esther er einmitt ein af ástæðum þess að Ármann ákveður að Markús geti ekki búið í kjallaranum hjá sér lengur og finnur honum í staðinn athvarf í kartöflukofa í Skammadal þar sem hann einangrast og hverfur smám saman.  Líkt og sögumaðurinn í Suðurglugganum er Markús „Sá sem verður eftir“ í kartöflubyggðinni þegar kartöfluræktendurnir hafa lokað kofum sínum fyrir veturinn. En í útlegð sinni, sem er bæði áskipuð og sjálfskipuð, finnur hann fyrir því að „hann þurfi að koma einhverju varanlegu frá sér áður en hann kveðji þennan heim“ (150) og sest við að semja. Ólíkt sögumanninum í Suðurglugganum virðist honum verða eitthvað ágengt og hannverður frægari fyrir verk sín þegar hann er loksins allur en hann var í lifanda lífi.

Í síðasta hluta Fjarverunnar hefur Ármann horft á eftir mönnum sér nákomnum í gröfina og meðvitundin um að hann sé á sömu leið fer vaxandi. Hann ákveður því að punkta niður kafla úr eigin lífi en leiðir jafnframt hugann að því að tveir ólíkir „menn honum tengdir“ hafi endað líf sitt „í miðri sköpun, einir með sjálfum sér úti á landi, annar með penna í hönd – eða blýant (sem það var víst) – hinn með pensil“ (202). Annar fyrirboði um yfirvofandi endalok er ákvörðun hans um að láta undan hrifningu sinni á Esther, fyrrverandi ástkonu Markúsar, en allir mennirnir í lífi hennar hafa „kvatt of snemma“ (186).

Ármann heillast af Esther en forðast hana um leið, því hún er „of áköf manneskja, of stríð og krefjandi“ (140). Esther er freisting sem Ármann reynir að standast, eins og áfengið, en tóm koníaksflaska, góssið úr samkvæminu í fyrsta hluta bókarinnar, er vitnisburður um þá baráttu:

[...] hún stendur uppi á eldhússkápnum og teygir sig í átt að loftinu. Ármann hefur aldrei þurrkað rykið af þeim skáp. Og það er langt síðan áfengi hefur komið í íbúðina. Fimm ár. Koníaksflaskan, sem hefur staðið á skápnum í tvöfaldan þann tíma, minnir Ármann alltaf á þessa staðreynd [...] (180).

Flaskan á eldhússkápnum í Fjarverunni á sér hliðstæðu í Suðurglugganum, en þar er það ginflaska, Gordon‘s Dry, sem „stendur óhreyfð uppi á eldhússkápnum“ (101). Sögumaðurinn í Suðurglugganum þorir þó „ekki að hætta alveg að drekka“ (116) og reynir að halda sér við með bjórþambi í þau fáu skipti sem hann bregður sér í bæinn, sem gefur til kynna þá hugmynd að áfengið sé í augum hans nokkurs konar taug við lífið sjálft, tenging sem er smám saman að rofna. Og það má ef til vill líka heimfæra upp á samband Ármanns við áfengið, sem ógnar heilsu hans en verður oft eins og eini drifkraftur atburðanna í lífi hans. Í tilviki Ármanns er áfengið því í senn lífsins vatn og dauðans og undir lokin er ljóst flaskan er honum of krefjandi, engu síður en Esther. Því er ekki að undra að uppgjöf hans gagnvart þeim helst í hendur, þar sem hann tekur upp flösku sem hefur verið „kysst af Esther“ (201):

Hann leggur glasið síðan frá sér, tekur upp flöskuna og ber stútinn upp að vörunum, hægt og yfirvegað, án þess að láta renna úr honum. Þannig heldur hann flöskunni svolitla stund; svo hallar hann henni upp og tekur stóran sopa“ (206).

Þessi sena er eitt af fáum merkjum um að lesa megi hefðbundinn, aristótelískan söguþráð úr verki Braga, en hér verða vissulega hvörf sem leiða til ákveðinna söguloka. Í ritdómi á Bókmenntavefnum segir Úlfhildur Dagsdóttir reyndar að í Fjarverunni hafi Bragi Ólafsson „á vissan hátt fullkomnað þá margvíslegu höfnun atburðarásar sem einkenndi [fyrri bækur hans] Sendiherrann og Handritið“, þótt hún taki jafnframt réttilega fram að „[m]itt í þeirri fullkomnu ördeyðu atburða sem einkenna alla ‚framvindu‘ verksins er svo margt að gerast að það hálfa hefði verið nóg.“[5] Og í raun má segja að höfnun hefðbundinnar atburðarásar einkenni að einhverju leyti öll þrjú verkin sem hér hafa verið til umfjöllunar. Í Fjarverunni felst sú höfnun einna helst í þeim frásagnarmáta að vísa með hugrenningatengslum óbeint til atburðarásar sem lesandi þarf svo sjálfur að púsla saman í höfði sér – og ef til vill munu engir tveir lesendur gera það á sama hátt.

 

Hverfulleikinn er daufur karl

Hverfulleikinn er daufur karl með sölnaðan ritvélarborða, samkvæmt þeirri mynd sem hér hefur verið dregin upp, en Íslendingablokk, Suðurglugginn og Fjarveran hverfast allar í kringum tilraunir til að miðla veruleika okkar, varðveita hverfula tilveru okkar, gegnum frásögn. Í þeim er einnig sterk meðvitund um máttleysi slíkra tilrauna. Það endurspeglast ekki síst í þeirri staðreynd að í öllum verkunum má finna ókláraðar bækur, bækur sem ekki eru gefnar út og ekki lesnar. Í lokin standa reyndar eftir handrit eða hugmynd að handriti. En hvað í þeim stendur og hvað af þeim verður vitum við ekki.  

 

Greinin birtist fyrst í Spássíunni 4. árg. 1. tbl. árið 2013.[1] „Orð um bækur“, RÚV , viðtal Jórunnar Sigurðardóttur við Pétur Gunnarsson, 20. janúar 2013, sótt 11. maí 2013 af http://www.ruv.is/sarpurinn/ord-um-baekur/20012013-0.
[2] Sama.
[3] Robert Messenger: „Typing Writers: An endangered species (but not yet extinct)“, The Canberra Times, 14. febrúar, 2009, 16-17. Sótt 31. mars 2013 af http://site.xavier.edu/polt/typewriters/typingwriters.pdf.
[4] Sama.
[5] Úlfhildur Dagsdóttir: „Fögnuður prófarkanna“, Bókmenntavefurinn, desember 2012, sótt 11. maí 2013 af http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read-34237/.

 
;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.