George Lucas - Leikstjórinn sem þrjóskur einvaldur

 

Kvikmyndaleikstjórinn George Lucas er jafnt og þétt að endurskrifa kvikmyndasöguna og ef svo fer sem horfir mun honum takast það, þrátt fyrir andóf aðdáenda hans. Hver á listaverk? Er það listasmiðurinn eða listnjótandinn? Hvenær telst listaverki lokið? Hvert er hlutverk áhorfandans í tilveru þess? Á verkið sér sjálfstætt líf eða er það fast undir hæl skapara síns?

 

Eignarréttur samfélagsins

Ef Rómverjar hefðu uppfært Kólosseum reglulega þá væri það bara enn ein, óspennandi íþróttahöllin nú á dögum, útskýrir Kyle Broflovski í South Park þættinum „Free Hat“ frá 2002. Þar er deilt harkalega á endalausar viðbætur og breytingar leikstjórans George Lucas á upprunalega Star Wars þríleiknum, en í þættinum stofna félagarnir klúbb til að vernda kvikmyndir frá eigin leikstjórum og halda í herför gegn Lucas og Spielberg sem ætla að uppfæra Raiders of the Lost Ark. Þátturinn er ekki aðeins svar við viðbótum Lucasar á Stjörnustríði í Special Edition-útgáfunum frá 1997, heldur líka breytingum Steven Spielbergs á E.T.: The Extra Terrestrial á 20 ára afmæli myndarinnar árið 2002. Báðir leikstjórar „lagfærðu“ gömlu brellurnar og bættu nýju, stafrænu efni við. Lucas setti m.a. inn nýjar persónur og söngatriði og breytti alls kyns smáatriðum sem fóru fyrir brjóstið á gömlu aðdáendunum, en Spielberg lagfærði m.a. andlitsdrætti geimverunnar í nærmyndum og breytti byssum sem lögreglumenn báru í talstöðvar (til að gera myndina fjölskylduvænni).

South Park drengirnir kljást við leikstjórana og tekst að lokum að bjarga Indiana Jones frá því að hljóta stafræna uppfærslu með nýjum tæknibrellum og viðbættum Ewokum. Í einu atriði er Lucas látinn verja myndafiktið með eftirfarandi rökum: „Þetta eru mínar myndir! Ég bjó þær til og ég hef rétt til að gera það sem mér sýnist við þær!“ Drengirnir svara um hæl: „Þér skjátlast, herra Lucas. Þú átt ekki þessar myndir. Við eigum þær. Við öll saman. Við borguðum fyrir að sjá þær og þær eru jafnstór hluti okkar tilveru og þinnar. Þegar listamaður skapar, þá tilheyrir sköpunarverkið samfélaginu hans.“ Þessi orð bræða hjarta Lucasar, sem játar að hafa afvegaleiðst og gleymt tilgangi listarinnar í gróðaæði sínu. En sá Lucas er uppspuni og hinn raunverulegi Lucas er fjarri því að snúa baki við myndafiktinu. Nýlega ferðaðist frétt um vefinn sem endurómar þetta atriði úr South Park, varðandi spjall þar sem æstir aðdáendur fengu að hitta leikstjórann gegn gjaldi og spyrja hann spurninga. Samkvæmt Hollywood-slúðurvefnum Laineygossip.com spurði einn aðdáandinn kurteislega hvenær von væri á útgáfu á upprunalegu Stjörnustríðs-myndunum, eins og þær komu fyrst fyrir augu kvikmyndagesta fyrir þremur áratugum síðan – útgáfurnar sem eru mörgum kærar og eru hluti af sameiginlegu minni og menningu samfélagsins – og Lucas brást hinn fúlasti við. Hann ranghvolfdi augunum og svaraði um hæl: „Engan barnaskap – þetta eru mínar myndir, ekki þínar!“[1]

 

Star -wars -return -of -the -jedi -anakin -ghost

Úr endurbættri útgáfu Return of the Jedi (2004), þar sem búið er að fjarlægja David Prowse, sem fór með hlutverk Svarthöfða, og blanda Hayden Christensen úr nýja þríleiknum inn í gömlu myndina, þrátt fyrir að það sé órökrétt innan söguramma þeirrar upprunalegu.

 

Þöggun listaverksins

Stóra Stjörnustríðs-málið snýst ekki aðeins um að Lucas hafi breytt gömlu myndunum „sínum“ (fyrst með sérútgáfunum árið 1997 og síðan með auknum breytingum á DVD og BluRay útgáfum eftir það), því aðdáendur upprunalega þríleiksins gætu vel sætt sig við fiktið ef þeir gætu líka gengið að gömlu útgáfunum ósnertum. Ef þeir hefðu val, þá væri eflaust öllum sama hvað Lucas gerði við myndirnar sínar – hann mætti fikta í þeim eins og hann lysti! En svo er ekki, vegna þess að Lucas virðist markvisst ætla að má út öll ummerki gömlu myndanna og láta aðeins sérútgáfurnar standast tímans tönn. Sjálfur lýsti hann því yfir þegar nýju útgáfurnar litu dagsins ljós árið 1997 að „hinar útgáfurnar munu hverfa. Jafnvel þær 35 milljón vídeóspólur af Stjörnustríði sem til eru munu ekki endast í meira en 30 eða 40 ár. Eftir hundrað ár verða Special Edition-útgáfurnar þær einu sem munað verður eftir.“

Markmið Lucasar er jafnt og þétt að verða að veruleika. Gömlu útgáfurnar eru ekki sýndar lengur í kvikmyndahúsum, en gamlar filmur hafa þó verið sýndar í óleyfi á svokölluðum „uppreisnar-sýningum“. Kvikmyndahús sem luma á gömlum filmum eru hrædd við að sýna þær, vegna þess að orðrómur götunnar segir að Lucasfilm geti (löglega) hirt allar slíkar filmur og jafnvel látið eyða þeim. Enn fremur hafa upprunalegu útgáfurnar aldreihlotið góða útgáfu á DVD. Eftir viðamikla undirskriftasöfnun og þrýsting frá aðdáendum lét Lucasfilm gamla þríleikinn fylgja með sem aukaefni á diskum árin 2006 og 2008, en þær upptökur voru teknar af gömlum Laserdisc-master frá 1993, í stað þess að taka þær beint af 35mm filmu, og voru því í afar litlum gæðum miðað við nútímastaðla. Samsæriskenningar aðdáenda halda því fram að Lucas hafi meðvitað gefið gömlu myndirnar út í litlum gæðum til að sannfæra almenning um að þær væru einfaldlega miklu ljótari en nýju útgáfurnar, þótt vitað sé um tilvist 35mm filma sem líta margfalt betur út og hefði vel mátt nota til undirstöðu. Einnig ber að nefna viðhafnarútgáfuna af heildarsafni Stjörnustríðs-myndanna sem kom út á BluRay fyrir síðustu jól, en innihélt ekki gömlu útgáfurnar, sem gefur enn og aftur til kynna að Lucas ætli sér sannarlega ekki nokkurn tímann að gefa þær aftur út.

Á móti kemur að þegar Spielberg gaf út sína „endurbættu“ afmælisútgáfu af E.T. lét hann upprunalegu útgáfuna fylgja með í hágæðum, svo áhorfendur gætu haft val um hvaða útgáfu þeir vildu horfa á. Síðan þá hefur Spielberg snúist alfarið gegn þeirri endurbættu og beðist formlega afsökunar á breytingunum. Í nýlegu spjalli um væntanlega BluRay útgáfu á Jaws lofaði hann því að uppfæra hvorki né umbreyta myndum sínum aftur, ekki einu sinni til að laga víra sem sjást eða neitt slíkt. Hann játaði að E.T.-fiktið hafi verið feilspor og sagðist nú telja það rétt að „leyfa myndum að tilheyra sínu eigin tímabili, með öllum þeim göllum og skrautleika sem því fylgir, því það eru dásamleg ummerki um tímann og söguna.“ En Lucas virðist ekki ætla að skipta um skoðun, hvað sem tautar og raular.

Sysnootles
Söngkonan Sy Snootles, leikbrúða í upprunalegri útgáfu Return of the Jedi (1983) en tölvugerð í endurbættir úgáfu (1997).

 


Kvikmyndasögufölsun

Þessi hegðun leikstjórans veltir upp afar áhugaverðum og mikilvægum spurningum varðandi hlutverk listamannsins og samband listaverksins við samfélagið, óháð því hvað okkur finnst um sjálfar Stjörnustríðsmyndirnar. Kvikmyndafræðilega og sögulega séð er jafnvel um ákveðna fölsun að ræða. Árið 2010 fjallaði CNET-vefurinn um brautryðjandi tæknibrellustarf risanna í Industrial Light and Magic, í tilefni 35 ára afmælis fyrirtækisins, en í umfjöllun um gömlu Stjörnustríðsmyndirnar voru bara birtar myndir úr nýju útgáfunum, sem sýnir ruglinginn sem getur átt sér stað þegar fjallað er um þríleikinn. Að sama skapi hélt Director‘s Guild of America þing í fyrra þar sem fjallað var um sögulega mikilvægar kvikmyndir og m.a. var fyrsta Stjörnustríðsmyndin sýnd, en í þessari umfjöllun um kvikmyndir áttunda áratugarins var DVD-uppfærslan frá 2004 sýnd í stað þeirrar frá 1977, með öllum nýju tilfærslunum og breytingunum. Þetta er kvikmyndafræðileg brenglun sem skapar furðulegt tímagat. Lucas var (skiljanlega) spurður hvers vegna upprunalega útgáfan hefði ekki verið sýnd og svaraði einfaldlega: „Það er engin upprunaleg útgáfa til.“

Skýrasta og skuggalegasta dæmið kemur þó líklega frá kvikmyndasafninu The National Film Registry í Bandaríkjunum sem hefur ítrekað óskað eftir því að fá að varðveita filmur af fyrstu Stjörnustríðs-myndinni, þar sem hún hefur verið úrskurðuð sögulega og menningarlega mikilvæg heimild. Lucasfilm neitar hins vegar alfarið að láta upprunalegu filmurnar af hendi og þess vegna hvílir nú stafræna útgáfan frá 1997 í hirslum safnsins og mun vera eina útgáfan sem fær að lifa af. Lucas er þannig jafnt og þétt að endurskrifa kvikmyndasöguna og ef svo fer sem horfir virðist honum ætla að takast það. En andóf aðdáendanna er mikið og sjóræningjaútgáfur af gömlu útgáfunum munu líklega aldrei hverfa. Gallinn er þó að slíkar útgáfur koma allar af VHS eða Laserdisc og munu aldrei jafnast á við gæði filmu eða BluRay. Áhorfendur framtíðarinnar munu því hafa aðgang að gömlu útgáfunum, en þær munu aldrei líta jafnvel út og þær gerðu fyrir þrjátíu árum, vegna þess að enginn fær að halda þeim við – ekki einu sinni kvikmyndasöfnin. Við sem erum ekki svo lánsöm að búa í South Park eigum okkur því litla von um að bjarga þessum kvikmyndum úr klóm leikstjórans. Eini möguleikinn er líklega sú staðreynd að einhvern tíma mun Stjörnustríð falla úr höfundarétti, en þess þarf lengi að bíða.

Það gengur tragíkómískur brandari á meðal aðdáenda Stjörnustríðs á netinu um að George Lucas á níunda áratugnum myndi hata George Lucas nútímans og að enginn hafi fært betri rök gegn Special Edition-útgáfunum heldur en sjálfur Lucas ungur. Leikstjórinn var nefnilega einn þeirra sem barðist harðsvírað gegn því fyrir rúmum tuttugu árum að gömlum, klassískum kvikmyndum væri breytt, t.d. með því að lita svart-hvítar filmur, breyta hljóðrásinni eða klippa til efni. Árið 1988 hélt hann ávarp frammi fyrir bandaríska þinginu um mikilvægi þess að vernda menningararf kvikmyndanna. Ræða þessi hefur verið grafin upp af vefsíðunni SaveStarWars.com og bútar úr henni skreyta nú margar vefsíður sem eru gagnrýnar í garð leikstjórans. Ég get því ekki hugsað mér betri leið til að ljúka þessari grein heldur en að láta George Lucas árið 1988 eiga lokaorðin: „Bandarísk listaverk tilheyra bandarískum almenningi; þau eru hluti af menningarsögu okkar. Í framtíðinni verður enn auðveldara að umbreyta gömlum negatífum og setja inn nýjar í staðinn. Það yrði mikill missir fyrir samfélag okkar. Við megum ekki láta endurskrifa menningarsöguna.“Greinin birtist fyrst í vortölublaði
Spássíunnar 2012.


[1] Allar tilvísanir í George Lucas, Steven Spielberg og allar fréttir tengdar Stjörnustríðsmyndunum koma frá vefnum SaveStarWars.com. Þýðingu annaðist greinarhöfundur.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.