Skyld’ það vera jólamorð …

Frá 2010 hefur rithöfundurinn Ragnar Jónasson sent frá sér eina bók fyrir hver jól um lögreglumanninn, einstæðinginn og hálftýndu sálina Ara Þór Arason. Bækurnar eru Snjóblinda (2010), Myrknætti (2011) og Rof (2012) og eins og titlarnir gefa til kynna er ekki um neinar sólstrandarbókmenntir að ræða. Þetta eru kuldalegar bækur, uppfullar af kulda, snjó og óleystum glæpum. Nú er komin út fjórða bókin í seríunni, Andköf. Eins og við lestur fyrri bóka Ragnars er vel við hæfi að hita sér kakó og taka fram hlýtt teppi áður en bókin er opnuð því þótt heitar tilfinningar komi við sögu er andi bókarinnar hrollkaldur.

Ari er enn á Siglufirði, sinnir þar sínum lögreglustörfum og er dulítið svekktur yfir að hafa ekki fengið varðstjórastöðuna eftir að fyrrverandi yfirmaður hans ákvað að segja upp stöðu sinni og flytja til Reykjavíkur. Þó er lífið nokkuð gott, kærastan Kristín er komin átta mánuði á leið og þrátt fyrir að vera stressaður vegna væntanlegs föðurhlutverks hlakkar Ari líka til. Það er Þorláksmessa og skötuhjúin hafa ætlað sér að eiga notaleg jól tvö saman en þá hringir Tómas, sem áður var varðstjóri Ara, og biður hann að aðstoða sig við rannsókn á dauðsfalli í Kálfshamarsvík, rétt norðan Skagastrandar. Á þessum stað, þar sem eitt sinn var líf, fólk og uppgangur, gerist ósköp fátt en þó hefur ung kona látið þar lífið, og þetta er allt svolítið dularfullt:

„Það benti allt til þess í fyrstu að þetta væri sjálfsmorð og það er ekki útilokað svo sem.“ Það var þungi í röddinni. „Svo fundust áverkar á líkinu við krufningu sem vöktu upp ákveðnar spurningar …“ […] „Þetta er reyndar allt saman í meira lagi óhugnanlegt. Helvíti óhugnanlegt.“
„Áverkarnir, þá?“ spurði Ari eftir þessa hálfkveðnu vísu Tómasar.
„Ég var nú reyndar ekki að vísa til þeirra,“ svaraði hann hikandi. „Ég var að hugsa um aðdragandann, forsöguna … Ægileg örlög mæðgnanna.“ (47)


Unga konan, Ásta, sem fannst látin undir klettum, reynist hafa átt systur og móður sem hlutu sömu örlög mörgum árum áður. Rannsókn málsins er ansi flókin og setur stórt strik í allt jólahald. Hinir grunuðu eru ekki margir því þótt það hafi verið þorp í Kálfshamarsvík á árum áður búa þar aðeins nokkrar sálir - sem allar bjuggu þar líka þegar systir og móðir Ástu létust á sínum tíma. Ari og Tómas þurfa því að grafast fyrir um atburði fortíðar og fara fljótt að efast um að dauða mæðgnanna hafi borið til með eðlilegum hætti. Allir sem ljósi geta varpað á atburðina virðast hafa eitthvað að fela, vilja ekki segja allan sannleikann og ljúga jafnvel. Þeir sem verða leiðir á leyndarmálunum og opna munninn hljóta þar að auki ill örlög.

Ragnari tekst vel að miðla anda einsemdar og einangrunar sem ríkir í Kálfshamarsvík og frásögnin er þrælspennandi. Persónur systkinanna tveggja sem hafa búið og starfað í víkinni alla sína hunds- og kattartíð eru einkar trúverðugar og þannig úr garði gerðar að lesandi fær samúð með þeim. Ásta sjálf er líka spennandi persóna - þótt hún lifi aðeins nokkrar blaðsíður - og áhugavert er hvernig Ari sér sjálfan sig í henni; foreldra- og systkinalausan einstæðing.

Ragnar Jónasson er orðinn þrælflinkur í að búa til spennandi fléttu og Andköf er án efa hans besta bók til þessa. Það sem heillar mig síst við bókina - og raunar allar bækur Ragnars - er sjálf aðalpersónan. Ari er fjarlægur á einhvern hátt, nær ekki að snerta nema örfáa strengi og öfugt við t.d. Ástu og systkinin í Kálfshamarsvík er erfitt að ná tengslum við tilfinningar Ara. Þetta á einkum við um „djöfla fortíðar“ og samband hans við Kristínu - en Kristín er önnur persóna sem þyrfti að vinna betur með til að samband þeirra Ara öðlist eitthvert vægi í bókunum.

Að öllu samanlögðu er Andköf flott spennusaga og vonandi ekki sú síðasta eftir Ragnar Jónasson. Hann verður þó ef til vill að fara að skipta um sögusvið eða færa sig til - hversu mörg morð má annars leggja á Siglfirðinga og nærsveitunga?

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.