Löng leið að óvæntri lausn

Morð á golfvelli, sprengingar og verndun hvala eru í forgrunni nýrrar spennusögu eftir höfund Leikarans sem kom út síðasta sumar. Sólveig Pálsdóttir teflir fram lögregluteyminu sem hún kynnti þar til leiks og beinir nú athygli að lögreglukonunni Særós sem hafði aðeins verið í litlu hlutverki áður. Einhver hefur myrt veitingahúseigandann Hinrik Eggertsson sama morgun og sprenging verður í hvalveiðiskipi og mótmælendur hafa hlekkjað sig við veitingahús hans. Þetta þykja of miklar tilviljanir og lögreglan er sannfærð um að málin séu skyld. Það reynist þó þrautinni þyngra að finna út hvernig. Inn í söguna fléttast svo samband Særósar við hálfsystur sína, Anitu, sem gæti mögulega verið viðriðin málið.

Hinir réttlátu er sjálfstætt framhald Leikarans og þótt vísað sé til atburða sem þar gerðust er aldrei ljóstrað upp um málsatvik. Frásagnirnar eru áþekkar í uppbyggingu þar sem flakkað er á milli einkalífs lögreglufólksins og rannsóknarinnar sjálfrar. Skilin þar á milli reynast oft lítil enda meiri líkur en ekki á Íslandi að maður þekki mann. Framvindan er helst til hæg framan af en tekur kipp þegar þrír fjórðu hlutar eru búnir af bókinni og leikar æsast.  Lausnin, þegar hún kemur loksins, kemur á óvart og liggur um leið í augum uppi þótt höfundur hefði mátt undirbyggja hana betur. Þannig eiga góðar spennusögur að vera: Framreiða fléttu sem er ekki fyrirsjáanleg en þannig úr garði gerð að athugull lesandi hefði átt að geta sér til um hana. En góð flétta er ekki alltaf nóg. Mikið ríður á að persónan Særós nái að halda athygli lesenda en því miður er hún ekki nógu geðþekk til að það takist að fullu. Hún er haldin fullkomnunaráráttu sem gerir hana hálf óþolandi – bæði í augum lesanda sem og persóna bókarinnar. Mikil áhersla er lögð á að lýsa útliti hennar og tískuáhuga. Hún er í sífellu að leiðrétta fólk og hefur litla þolinmæði gagnvart þeim sem henni þykir sér ekki samboðnir. Svona persónur eru auðvitað til og Sólveig dregur upp sannfærandi mynd af uppskrúfaðri og metnaðarfullri konu með líkamsræktarblæti. Vandamálið er að hún nær ekki að öðlast mikla samúð hjá lesendum. Samband hennar við hálfsysturina er brokkgengt og eitt af því fáa sem nær að ljá hana mannlegum blæ.

Bókin er sæmilegasta afþreying. Stíllinn er einfaldur og alþýðlegur en ef til vill full knappur. Helstu kostir Hinna réttlátu er glæpafléttan sem er haganlega sett saman og persónugallerí lögregluteymisins hefur alla burði til að verða fjölbreytt og áhugavert þegar bætist í bókaflokkinn.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.