Litlar myndir sem skapa heild

Sumar ljóðabækur er auðvelt að nálgast. Þótt ljóðin séu kannski flókin er leiðin að þeim nokkuð skýr og verkefni lesandans augljóst. Þessi ljóð hafa gjarnan titil, tilheyra skýrt afmörkuðum köflum og notast við tákn og minni sem lesandinn kannast við. Svo eru það ljóðabækurnar sem láta hafa fyrir sér. Þær sem virka einfaldar á yfirborðinu en veit enga skýra lausn. Og lesandi klórar sér í kollinum oftar en einu sinni og spyr: „Er þetta gott ljóð?“ „Er þetta yfirhöfuð ljóð?“ Og kemst svo að þeirri niðurstöðu að texti í ljóðabókum hljóti alltaf að vera ljóð og að sumar bækur krefjist annarrar  nálgunar af lesandanum. Þannig ljóðabók er Heimsendir fylgir þér alla ævi. A.m.k. eins og þessi lesandi upplifir hana. Einföld og augljós og óræð – allt í senn. Í blokkaríbúðum einhvers staðar nálægt Mjóddinni gengur margbreytilegt og hversdagslegt lífið sinn vanagang.  Ýmsar persónur koma við sögu, sumar oftar en einu sinni, en stoppa stutt við þannig að aðeins er brugðið upp svipmyndum af lífi þeirra flestra. Þó er þarna unglingsstúlka sem lætur fara lítið fyrir sér en dúkkar upp reglulega og maður fær þá tilfinningu að hún sé í raun ljóðmælandi.

Bókin inniheldur 38 lítil ljóð sem bregða hvert um sig upp svipmynd af andartaki eða ástandi í blokkarþyrpingu sem minnir óneitanlega á Fellahverfið. Bókin er uppbyggð eins og mósaíkmynd og kallast á við kápumyndina. Þar má sjá raðir af gluggum og rauða ferhyrninga á milli þeirra. Runur sem líta eins út. Eins og runurnar af blokkum í Fellahverfinu.

Í hverri blokk
jafn margir íbúar
og í litlu þorpi úti á landi.

Hrúga af þorpum
í stafrófsröð
í hæfilegri fjarlægð frá einbýlishúsunum
og allir þorpsbúarnir
hafa tekið afstöðu til þess
hvort þeir versli í efri eða neðri sjoppunni. (7)

En þegar betur er að gáð eru bæði ferningarnir og gluggarnir ólíkir. Í sumum eru gluggatjöld, í öðrum engin. Sums staðar fylla blómin út í rammann og annars staðar er aðeins að finna litla styttu. Í mörgum er alveg dregið fyrir og aðrir eru alveg tómir. Allir svo líkir en samt svo ólíkir. Það sama má segja um ástandið, aðstæðurnar og einstaklingana sem koma fyrir í ljóðunum:  Litlar myndir sem sem koma saman sem ein heild. Á vissan hátt er aðeins um eitt ljóð að ræða í bókinni: Ljóðið „Heimsendir fylgir þér alla ævi“. Það er svo samansett úr ólíkum myndum sem tengjast lífinu á þessu svæði: Unglingsstúlka frystir býflugur um sumar. Kattarhræ finnst undir  kofa kristilegs ungmennastarfs. Maður hringir inn jólin fyrir agnarsmáa finku. Kona lánar AIDS-sjúkum hommum íbúðina. Kettir ræddir á húsfundi. Dulræn reynsla á sólarströnd. Verkamaður á dáleiðslunámskeiði .  Svo eitthvað sé nefnt

Tíminn virðist vera um og eftir 1990 og vísar titill bókarinnar til ljóðs sem hópur barna les í tímariti, og virðist taka trúanlegan; spádóm um heimsendi þann 1. janúar 1993. En heimsendir er nú þegar á staðnum þar sem lífið í blokkunum hefur staðnað og býður ekki upp á mikla gleði eða von. Þannig birtist það í minningu ljóðmælanda sem rifjar upp þennan tiltölulega lokaða heim. Hversdagsleikinn er ráðandi ástand ef ástand skyldi kalla. Allt óbreytilegt og eins. Fortíð jafnt og framtíð (36). Það er ekki mikill tími fyrir fantasíu því raunveruleikinn fyllir upp í alla tilveruna en þegar hún lætur á sér kræla gerir hún það í gegnum Bravóblöðin, heimsendisspár vísindatímarita og fyrirmyndir raunveruleikans:

Raunveruleikinn:
(glósur úr fyrirlestri)

a) Hundrað prósent vinna í Kringlunni og hvítur bíll á bílastæðinu

b) Ná grænu á öllum gatnamótum á leiðinni heim

c) Leggjast undir eiginmanninn og loka augunum.


Oft má greina tilveru ákveðinna einstaklinga eða hópa, ekki í því hvernig þeim er lýst, heldur í viðbrögðum persóna við þeim, líkt og upplifun langþreyttu afgreiðslustúlkunnar í sjoppunni  sem þarf reglulega að kljást við ódælan unglingaskara sannar:

Kvöldbæn unglingsstúlku við sjoppuþyrpinguna

Góði Guð geturðu snöggvast
látið foreldravaktina birtast
í kraftgöllunum
lyfta mér upp
og reiðileg andlitin
flytja mig öskrandi á brott (19)

Í útlenskum sjoppum
eru unglingafælur
rafmagnstæki
sem gefur frá sér
skært og eitrað hátíðnihljóð
sem einungis unglingseyru geta greint (20)


Eða kannski er þetta ekki afgreiðslustúlkan. Kannski tilheyrir hún skaranum sem safnast saman fyrir utan sjoppuna. Samhengið er ekki alltaf skýrt og geta þarf í eyðurnar. Þarna mætti t.d. greina stríðsástand á milli foreldra og unglinga þar sem hin síðar nefndu eru óvelkomin á almannafæri. Myndirnar eru flestar opnar fyrir ólíkri túlkun og lesandinn kemur með sína reynslu og fordóma og klárar þær. Stundum dugar það þó ekki til:

Þú varst á gulum dvergaskíðum
á hólnum við kofann sem hvarf
eins og þú.
Langt á undan okkur hinum. (27)


Hver þetta er eða hvað varð um hann/hana verður aldrei ljóst. Er þetta einhver sem dó á undan öðrum eða flutti í burtu? Engin svör er að finna og aðeins eimir eftir af óljósum missi. Ég hef gaman af ljóðum sem hlaupa svona undan túlkun en það getur líka verið frústrerandi á köflum. Í heildina virkar ljóðabókin sem persónulegt uppgjör við Breiðholtið og fólkið sem bjó þar. Fyrir okkur sem ólumst ekki þar upp er sumt skemmtilega kunnuglegt á meðan annað er fjarlægt og torrætt og óljóst hvort það stafar af kunnáttuleysi okkar eða tregðu höfundar til að lýsa nógu vel því sem um ræðir. Það verður hver lesandi að gera upp við sig.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.