Kynvilla á dögum spænsku veikinnar

Sjálfsagt gæti einhverjum fundist býsna yfirdrifið að persóna í skáldsögu upplifi á aðeins tæpum tveimur mánuðum eldgos, mannskæða drápspest, lok heimsstyrjaldar og fullveldishátíð. Hvaða höfundur sem er gæti fengið skömm í hattinn fyrir svo óraunsæja samfélagslýsingu og uppskrúfaða dramatík. Stundum er þó raunveruleikinn ótrúlegri en nokkur skáldskapur og sú er einmitt raunin í nýjustu bók Sjóns, Mánasteini, sem er söguleg skáldsaga og gerist í Reykjavík haustið 1918.

Í Mánasteini segir frá sextán ára gömlum munaðarlausum dreng, Mána Steini Karlssyni, sem býr á háalofti hjá gamalli konu og eyðir megninu af tíma sínum í kvikmyndahúsum, á rölti um borgina eða með „kónum“. Máni Steinn, eða „drengurinn“ eins og sögumaður kallar hann oftast, vinnur nefnilega fyrir bíóferðunum með vændi og veitir fjölmörgum karlkyns bæjarbúum kynferðislega útrás í skjóli nætur, bak við luktar dyr eða undir kletti í Öskjuhlíðinni. Sagan gerist á átta vikum og þótt söguþráðurinn hverfist að nokkru leyti um áhrif spænsku veikinnar á drenginn og bæjarlífið er aðalspennuvaldurinn – og eitt meginviðfangsefni bókarinnar – kynferðislíf og kynhneigð drengsins. Hápunktur sögunnar er fullveldisdagurinn 1. desember, þó ekki hátíðarathöfnin sjálf heldur það sem gerist á meðan á henni stendur. Eftir það eru örlög drengsins ráðin – og þó ekki.

Þessi stutta skáldsaga er sérstaklega áhugaverð fyrir þær sakir að hún er ein af sárafáum íslenskum bókum, hvort sem er sagnfræðilegum eða skálduðum, sem komið hafa út og fjalla um hinsegin fólk eða persónur á fyrri hluta tuttugustu aldar. Mánasteinn gerist á tímum þar sem „samræði gegn náttúrulegu eðli“ var bannað samkvæmt íslenskum hegningarlögum. Samkynhneigð var ekki til sem flokkunarhugtak og kynvilla og hómósexúalismi voru orð sem heyrðust afar sjaldan en þá langoftast í neikvæðri merkingu. Fátt var skrifað um hinsegin tilveru á þessum árum og ef það var skrifað var það sjaldan gefið út. Af þeim sökum hefur myndast eyða í sögunni og tilvist fólks eins og Mána Steins hefur verið dregin í efa, samanber undirtitil bókarinnar: Drengurinn sem aldrei var til.

Sjón nálgast þetta viðfangsefni sitt fordómalaust, opinskátt og – það sem er kannski mikilvægast – af skilningi. Máni Steinn er ekki samkynhneigður eða hommi í nútímamerkingu þeirra orða, því hann skilgreinir kynhneigð sína ekki og heillast bæði af körlum og konum. Sjón sýnir engan tepruskap þegar kemur að því að lýsa kynlífi tveggja karla, enda engin ástæða til. Kynlífssenurnar eru margar, myndrænar og nákvæmar; sumar lýsa því hvernig drengurinn fær pening fyrir næstu bíóferð en aðrar eru fallegar ástarsenur. Hin ævintýralega Sóla Guðb. vekur enn fremur þrá drengsins og hann sefur með rauða klútinn hennar um hálsinn. Allt ber þetta vitni um skilning og innsæi skáldsagnahöfundar sem hefur sett sig inn í hugarheim og samtíma persónu sinnar en reynir ekki að útskýra eða skilgreina tilvist hennar og hegðun með nútímahugtökum.

Eins og fram kom í viðtali Egils Helgasonar við Sjón í Kiljunni 30. október var vandað til verka við heimildaöflun í aðdraganda þessarar bókar, líkt og annarra sögulegra skáldsagna höfundarins. Mánasteinn er rík samtímalýsing á Reykjavík, sem var 15.000 manna bær árið 1918, og áminning um að Íslendingar voru alls ekki allir einangraðir í torfkofum sínum fram að síðari heimsstyrjöld eins og stundum hefur verið haldið fram. Kvikmyndamenning í Reykjavík var til dæmis mjög lífleg um þetta leyti og þar fengu Íslendingar eins og Máni Steinn að skyggnast út fyrir landsteinana og kynnast erlendri menningu.

Vinsældir kvikmyndanna voru þó gagnrýndar af ýmsum og það kemur fram í skáldsögu Sjóns, þar sem læknir nokkur heldur því fram að kvikmyndagláp geti leitt til kynvillu. Með þessu er vísað til íslenskrar þjóðernisorðræðu þar sem því var gjarnan haldið fram langt fram eftir tuttugustu öld að erlend menning á borð við kvikmyndir, djass og afþreyingarbókmenntir spilltu íslenskum ungmennum. Í Mánasteini eru kvikmyndir aftur á móti haldreipi drengsins og veita honum styrk til að takast á við lífið, þótt hans kynvillta líf samræmist kannski ekki íslenskum þjóðernishugmyndum. Þannig er skáldsaga Sjóns einnig óður til kvikmyndalistarinnar – eða lista yfirhöfuð – og áhrifamáttar hennar.

Mánasteinn er lítil bók en innihaldið er einstakt. Líkt og steintegundin sem vísað er til í titlinum leggur einhvern óútskýranlegan innri bjarma frá þessari sögu og aðalpersónu hennar. Hún fjallar um flókið efni án þess að gera tilraun til að útskýra það til fullnustu og veitir innsýn í menningar- og sögulegan kima sem ekki hefur verið varpað ljósi á áður á Íslandi. Síðast en ekki síst fjallar hún um hvernig listsköpun á borð við kvikmyndir getur breytt lífi fólks – og það er fallegur boðskapur.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.