Meira um kósíheit en krimma

Vinirnir og kórfélagarnir Märtha, Anna-Greta, Stina, Snilli og Garði, eru vistmenn á elliheimilinu Demantinum. Þegar sagan hefst eru þau öll hátt á áttræðisaldri og orðin þreytt á síversnandi aðbúnaði, strangari reglum og höftum á frelsi. Þegar þau sjá heimildamynd um fangelsi og átta sig á því að aðbúnaður þar er betri en á elliheimilinu, ákveða þau að leggja út á glæpabrautina með það fyrir augum að nást og vera fangelsuð. Fimmmenningarnir strjúka því af elliheimilinu, setjast að á lúxushóteli og kalla sig Eftirlaunagengið. Þau hefja glæpaferilinn á hótelþjófnaði en færa sig svo upp á skaftið og ræna ómetanlegum listaverkum.

Hugmyndin að baki bókinni er góð og byggir á því sem stundum heyrist, að betur sé farið með fanga en vistmenn á elliheimilum. Bókin er á köflum gagnrýnin á nútímann, bæði hvað varðar samfélagið sjálft og viðhorf þess til eldra fólks, sem er oft afskipt og án hlutverks í lífinu, fær alltof mikið af lyfjum en of litla umhyggju og talað er niður til þess. Þessi fimm gamalmenni losna úr þeirri stöðu og öðlast lífsgleði og athygli með því að skipuleggja og fremja glæpi.

Úrvinnslan er hins vegar ekki jafngóð. Söguþráðurinn er farsakenndur og persónusköpun flöt og einvíð. Sögupersónur eru týpur og ná aldrei að verða lifandi eða skipta lesanda máli. Reynt er að dýpka sumar persónur með því að segja frá fortíð þeirra, en það er gert í framhjáhlaupi og jafnvel atburðir eins og barnsmissir snerta lesandann ekki. Ekki tekst heldur að byggja upp spennu eða eftirvæntingu þótt Eftirlaunagengið lendir í útistöðum við harðsvíraða glæpamenn, lögregluna og júgóslavnesku mafíuna.

Söguheimurinn er svarthvítur og oft fremur ótrúverðugur, til að mynda eru 22 vistmenn á elliheimilinu og bara einn starfsmaður á vakt í einu en samt er eldhús fyrir stjórnendur sem er troðfullt af góðgæti. Margt minnir á barnabækur þar sem börn og unglingar eru í aðalhlutverkum við rannsókn sakamála, eru ekki tekin alvarlega en reynast fullfær um að snúa á lögreglu og bófa. Nema hvað hér er um að ræða gamalt fólk sem enginn tekur mark á en reynist svo snjallara en aðrir.

Þýðingin er ágæt þó að sumt hafi stungið í augun, eins og að nota sænskan rithátt á nöfnum sem eiga sér líkar hliðstæður í íslensku, t.d. Märtha, Anna-Greta og Stina á meðan gælunöfnin Snilli og Garði eru þýdd. Sem og það að nota orðið systir yfir forstöðukonu elliheimilisins.

Á kápu er nýyrðið kósíkrimmi notað til að lýsa bókinni og það á ágætlega við, þó að meira sé um kósíheit en hefðbundinn krimma. Þrátt fyrir góðar hugmyndir nær Kaffi og rán hvorki flugi sem ádeila né gamansaga og skilur lítið eftir.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.