Eru Gore-Tex jakkar eitthvað verri?

Don Tillmann stendur frammi fyrir miklum vanda. Hann er að leita sér að konu til að eyða ævinni með en sú leit gengur afskaplega illa. Þess vegna bregður hann á það ráð að búa til vísindalegan spurningalista til að leggja fyrir væntanlega maka. En síðan hittir hann Rosie, sem fellur á hverri einustu spurningu.

Rosie verkefnið er létt og skemmtileg ástarsaga sem fjallar um hinn sérstaka Don og hina hressu Rosie. Söguþráðurinn er vissulega engin nýjung og sagan er klisjukennd á köflum. Eins og með allar slíkar bækur, liggur byrðin að halda áhuga lesandans hjá sögupersónunum. Sem betur fer er Don einstaklega skemmtileg aðalpersóna sem við hlæjum stundum að, stundum með. Það er líka ágætis tilbreyting að lesa rómantíska bók frá sjónarhorni karlmanns, en ég man ekki í fljótu bragði eftir sambærilegri bók.

Strax í upphafi verksins er okkur gert ljóst hversu sérstakur Don Tillman er. Gene, annar af tveimur vinum Dons, biður hann um að flytja fyrirlestur um Asperger-heilkennið, en þeir starfa við sama háskólann, Don sem erfðafræðingur og Gene sem deildarstjóri sálfræðideildarinnar. Don útlistar vandkvæði þess að flytja fyrirlesturinn: „Tímasetningin var sérlega óþægileg. Til undirbúnings gat ég samnýtt tímann sem fór í neyslu hádegisverðar, en fyrirlestrarkvöldið sjálft hafði ég áætlað níutíu og fjórar mínútur til að þrífa baðherbergið hjá mér“ (5).

Það rennur fljótlega upp fyrir lesandanum að Don er með Asperger-heilkennið, nokkuð sem hann sjálfur er ekki meðvitaður um. Hann gerir sér samt grein fyrir því að hann vantar félagslega færni,  enda kallar hann sig „klaufa í mannlegum samskiptum“ (8). Hann hugsar á ákveðinn máta og það skapar fyndnar og skemmtilegar aðstæður, þar sem hann tekur hlutum mjög bókstaflega og er afskaplega rökfastur: „Það er ekki auðvelt að halda uppi samræðum ef maður þarf samtímis að velta því fyrir sér hvort maður er að horfa á rétta líkamshlutann en ég fylgdi ráði Genes og leit ekki af augum hennar á bak við gleraugun. Þetta hafði í för með sér nokkra ónákvæmni í fæðuneyslunni en hún virtist ekki taka eftir því“ (8).

Bókin er öll skrifuð á þennan máta, frá sjónarhorni Dons, og oftar en einu sinni stóð ég mig að því að hlæja upphátt, enda snýst bókin meira og minna um vandkvæði þess að nota rökhyggju til þess að finna ást. Vel meint en misheppnuð ráð frá vinum Don hjálpa honum heldur ekki neitt. Blindni Dons á hefðbundnar samfélagsvenjur skapa líka skemmtilegar aðstæður, til dæmis þegar hann kemur á veitingastað í Gore-Tex jakka, vegna þess að það var skýrt tekið fram að karlmenn þyrftu að klæðast jakka (48). Þetta verður þó heldur einhæft þegar líður á bókina og hefði dýpri persónusköpun ef til vill brotið upp frásögnina og gert hana áhugaverðari. Lýsingarnar á manneskju með Asperger-heilkennið eru það áhugaverðasta við verkið, þar sem Don á oft samtöl við lesandann og veltir fyrir sér hvort hann hagnist eitthvað á því að reyna að falla að siðvenjum samfélagsins. Er það virkilega nauðsynlegt fyrir hann að breytast til þess að hægt sé að elska hann?

Undir allri kímninni blundar samt átakanlegri saga en sú sem er í forgrunni. Vandamál Dons í æsku, einelti í skóla, sviplegt brottfall systur hans og andlát vinkonu hans eru tekin fyrir og dýpka verkið. Því miður þróast Rosie ekki í bókinni heldur er hún frekar leiðarljósið í myrkrinu fyrir Don, í tilraun þeirra til að finna Don stað í samfélaginu.

Þótt hún sé átakanleg á köflum er Rosie verkefnið skemmtileg og auðlesin bók en líður fyrir að vera of klisjukennd og fyrirsjáanleg. Persónurnar eru skemmtilegar en bókin skilur þó ekki mikið eftir, þar sem engin tilraun er gerð til að lífga upp á formúlu rómantískra gamansagna eða gefa sögupersónunum mikla dýpt, að Don undanskildum. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.