Hrottaleg, köld og hrá spennusaga

Blóð hraustra manna er nýjasta skáldsaga Óttars M. Norðfjörð og er um að ræða sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Borgríkis. Í Borgríki segir frá serbneskum bifvélavirkja að nafni Sergej sem dregst inn í heim glæpa í kjölfar þess að glæpamaðurinn Gunnar Gunnarsson sendir hrotta sína heim til hans, en það verður til þess að ófætt barn hans deyr. Í kjölfarið brýtur Sergej, með aðstoð serbneskra vina sinna, veldi Gunnars á bak aftur og tekur völdin af Gunnari. Borgríki er hvorki pen né lekker kvikmynd og sú lýsing á ekki heldur við um Blóð hraustra manna, nema síður sé.

Aðalpersóna skáldsögunnar er hvorki Gunnar né Sergej heldur lágvaxni og alvörugefni lögreglumaðurinn Hannes Hannesarson sem hyggur á frama innan lögreglunnar og vill sanna sig fyrir tilfinningasljóum föður sínum, eiginkonunni og samstarfsmönnunum, sem flestir virðast ekki hafa mikið álit á honum eða telja hans helsta kost felast í því að vera sonur föður síns sem stóð sig vel í starfi sínu innan lögreglunnar. Hannes hlýtur stöðuhækkun í upphafi bókar, færir sig úr kynferðisafbrotadeild og verður yfirmaður innra eftirlits lögreglunnar (og jafnframt eini starfsmaður þeirrar deildar). Hann kemst í kynni við fyrrnefndan Gunnar í tilraunum sínum til að klófesta svikara innan lögreglunnar sem virðist láta harðsvíraða eiturlyfjakónga og baróna vita áður en lögreglan lætur til skarar skríða. Við sögu koma fleiri persónur, bæði heiðarlegar og óheiðarlegar. Fíkniefnalögreglan Margeir og kærasta hans, Jelena, eru skemmtilega ruglaðar persónur og ég hafði mjög gaman af sérsveitarmanninum Agga þýska, einkum samskiptum hans og Andreu, en þau eru bæði fengin til að aðstoða Hannes við að klófesta hinn svokallaða hvíslara, svikarann sjálfan. 

Persónusköpunin og lýsingarnar eru svolítið yfirdrifnar í Blóði hraustra manna, einkum þegar kemur að glæpamönnunum. Gunnar, sem húkir í fangelsi megnið af sögunni, vill bæði halda og sleppa - feta hina beinu braut fyrir afastelpuna sína og græða fúlgur fjár og hefna sín á óvinum sínum. Hann er þó eins og saklaus fermingardrengur í samanburði við serbneska kollega sína, Sergej fíkniefnabarón og Stanko, næstráðanda hans. Raunar er Stanko svo siðlaus ofbeldishundur, andlega veikur og skemmdur eftir stríðsátök í heimalandi sínu, að hann er varla mennskur. Hann er aðalpersóna í þeim senum sem eru gegnsósa af ofbeldi og lýsingarnar og eru svo hrottalegar að ég þurfti að beita sjálfa mig hörku til að geta lesið þær. Enginn er óhultur fyrir honum, ekki einu sinni eiginkona Hannesar sem endar í dái á sjúkrahúsi, stórslösuð. Mér þótti ekki sérlega vænt um þessa persónu við lesturinn og fannst því nokkuð réttlæti í því þegar byrjað var að lúskra á Stanko sjálfum í seinni hluta bókar en þær lýsingar voru hreint út sagt svo ógeðfelldar að ég var farin að dauðfinna til með honum undir lokin. Það hlýtur að taka á að semja svona svakalegar lýsingar!

Flétta bókarinnar er í grunninn einföld: Að finna hvíslarann og klófesta hann. En það eru ansi mörg ljón sem standa í vegi réttvísinnar og bæði lögreglumenn og glæpamenn leita eigin réttlætis, lausna og verðlauna. Þannig snarflækjast málin fljótlega og úr verður mjög áhugaverð saga þar sem erfitt er að spá fyrir um útkomuna; saga sem er drifin áfram á hröðum, spennuþrungnum söguþræðinum frekar en djúpri eða sannfærandi persónusköpun eða fallegum stíl. Blóð hraustra manna er í stuttu máli sagt ekki bók fyrir viðkvæma heldur hrottaleg, köld og hrá spennusaga um heim sem ég vona að sé ekki til þótt ég óttist að svo sé – og finnist gaman að lesa um hann. 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.