Velkomin til Night Vale (þið megið aldrei fara)

Í afskekktum eyðimerkurbæ að nafni Night Vale (Náttdalur) einhvers staðar í suðurhluta Bandaríkjanna situr maður að nafni Cecil í útvarpsstúdíói og flytur fréttir af lífinu í bænum: Auglýsingar, orðsendingar frá hlustendum, tilkynningar frá bæjarstjórn og inn á milli sínar eigin hugleiðingar. Röddin er þýð, djúp og róleg og gefur hlustendum þá tilfinningu að allt sé í lagi og með kyrrum kjörum. Það er reyndar stranglega bannað að fara inn í hundagarðinn, sérstaklega með hunda, og hunsa ber skikkjuklæddu verurnar sem hanga þar dag og nótt. Og hvað með það þótt stundum opnist hlið í tíma og rúmi á miðjum foreldrafundi og fljúgandi risaeðlur sleppi út? Svo eru það englarnir sem hanga heima hjá Josie gömlu en eru örugglega ekki til og hraðlygnir þar að auki, höfnin og vindubrúin sem liggur á að byggja þótt Night Vale sé inni í miðju landi og ekkert vatn á svæðinu, leynilögreglan sem mun sennilega ekki ræna börnunum þínum og kötturinn Khoshakh sem býr inni á klósetti útvarpsstöðvarinnar og svífur í miðju lofti nálægt vaskinum. Það sem skiptir samt mestu máli er að lífið í bænum raskist sem allra minnst: 

 

Farþegavél á ferð yfir bæinn hvarf í dag, en birtist aftur inni í íþróttasal barnaskóla Night  Vale í miðri körfuboltaæfingu og setti hana alvarlega úr skorðum. Flugvélin þrumaði í gegnum litla salinn í örskamma stund og hvarf áður en hún náði að rekast á leikmenn eða mannvirki... að þessu sinni fyrir fullt og allt. Við vitum ekki ennþá hvort eða hvernig áhrif þetta uppátæki mun hafa á leikskipulag Fjallaljónanna í Night Vale eða hvort erkifjendur þeirra, Kaktusarnir í Desert Bluff, beri ábyrgð á því. Desert Bluff er alltaf að reyna að skáka okkur með flottari búningum, betra snarli fyrir leiki og, mögulega, með því flytja farðþegaflugvél inn í íþróttasalinn okkar og fresta þannig æfingu um nokkrar mínútur – að  minnsta kosti! Skammist ykkar Desert Bluff. Skamm.Welcome to Night Vale
er útvarpsþáttur sem sendur er út á netinu – svokallað „podcast“ eða hlaðvarp á íslensku. Hægt er að nálgast hlaðvarpið á iTunes í Bandaríkjunum og á síðum eins og þessari en það er ókeypis og öllum opið. Hver þáttur er rúmlega tuttugu mínútna langur og samanstendur af súrrealískum tilkynningum útvarpsmannsins Cecils um bæjarlífið. Þættirnir hófu göngu sína 15. júní 2012 og hafa smám saman verið að sækja í sig veðrið eftir því sem frásögnin stækkar og hlustendum fjölgar. Nú í sumar tóku vinsældirnar stóran kipp á samfélagsmiðlum á borð við Twitter og Tumblr og er Welcome to Night Vale hlaðvarpið orðið það vinsælasta í Bandaríkjunum um þessar mundir. Þættirnir eru alltaf settir á netið fyrsta og fimmtánda hvers mánaðar. Þegar þetta er skrifað hafa verið gerðir 34 þættir og það tæki nýja hlustendur um hálfan sólarhring að hlusta á þá frá byrjun til enda. Höfundar þeirra eru Joseph Fink og Jeffrey Cranor en um upplestur sér Cecil Baldwin.

 

Tumblr _mos 735KUep 1r 1hem 4o 9_500

 

Hlaðvarpinu um Night Vale hefur vaxið fiskur um hrygg á því ári sem liðið er frá því að það fyrst hóf göngu sína.  Eftir því sem á líður verður sagan flóknari og aðrar persónur en Cecil fá að ljá þættinum rödd sína svo úr verður nokkurs konar framhaldsútvarpsleikrit. Ýmsir leikarar, yfirlýstir aðdáendur hlaðvarpsins, hafa boðið fram krafta sína en þættirnir hafa alla tíð verið unnir í sjálfboðavinnu og fjármagnaðir með frjálsum framlögum og sölu stuttermabola. Haldin hafa verið ótal málþing og viðburðir tengdir Night Vale og tilkynntu höfundarnir fyrir stuttu að til stæði að senda út leikinn þátt í beinni útsendingu. Einnig er von á bók um Night Vale á næsta ári

 

Guns

Vafið inn í þessa súrealísku og að því er virðist handahófskenndu frásögn er töluvert af boðskap. Bæði lúmskum og hárbeittum.


Það er erfitt að reyna að lýsa
Welcome to Night Vale fyrir þeim sem hafa aldrei upplifað þættina. Til þess eru þeir of handahófskenndir og skrítnir. Þeir eru nokkurs konar blanda af Twilight Zone, Twin Peaks, The League of Gentlemen og gamanþáttunum Community með vænni slettu af Salvador Dalí. Og um leið eru þeir ólíkir öllum þessum þáttum. Allar góðar frásagnir innihalda samt ástarsögu og í Night Vale er það sambandið á milli Cecil og vísindamannsins Carlosar. Carlos mætti í bæinn með sitt fullkomna hár í fyrsta þætti til að kanna alla hina furðulegu atburði sem þar eiga sér stað og hefur ílengst þar enda engin þurrð á furðulegum uppákomum. Cecil varð strax ástfanginn og sá grunur læðist að hlustendum að hann sé nokkuð óáreiðanlegur sögumaður þegar kemur að Carlosi. Nema Carlos sé í reynd fullkominn einstaklingur. Í fyrstu var lítið vitað um þessar persónur en smám saman hafa tínst til upplýsingar um þá báða í gegnum útvarpsræður Cecils. Carlos er nokkurs konar fulltrúi hlustenda þar sem hann er sá eini á svæðinu sem virðist gera sér grein fyrir hversu undarlegur bær Night Vale er í raun og veru.


Cogc

Þar sem aðeins eru til lýsingar á  fólki, stöðum og atburðum – gjarnar óljósar og mótsagnakenndar – hafa aðdáendur tekið það upp hjá sér að gæða þennan heim myndrænu lífi. Cecil og Carlos eru vinsælt myndefni og ákveðin hefð hefur myndast við það hvernig þeir eru sýndir í teikningum. Ekkert í lýsingum höfunda þáttanna hefur gefið til kynna hvernig þessir menn líta út (fyrir utan yfirlýsingar Cecils um að Carlos sé fullkominn) en Cecil er samt gjarnan sýndur með ljóst og tjásulegt hár, gleraugu og þriðja auga á enni. Hann er oft þakinn húðflúrum. Carlos er hefðbundnari en er yfirleitt sýndur sem dökkur á hörund.

http://johngreening.tumblr.com/post/
64053651264/neat-x-when-we-first-met-hellogoodbye
 

 

Þær fréttir og tilkynningar sem Cecil miðlar til hlustenda virðast oft vera algjörlega úr lausu lofti gripnar en stundum er hægt að finna hárbeittan boðskap og lúmska samfélagsrýni samofna hinu handahófskennda:

 

Night Vale Dagblaðið hefur tilkynnt að sökum hækkandi prentkostnaðar muni það skipta út pappírsútgáfunni fyrir glænýja „Ímyndaða Útgáfu“! Leanne Hart, ritstjóri, útskýrir sem svo að „í staðinn fyrir að takmarka viðskiptavini okkar við hina úreltu blek-á-pappír tegund viljum við leyfa þeim að velja þær fréttir sem þeir hafa áhuga á með því að ímynda sér allar þær fréttir sem þeir kæra sig um! Þetta mun ekki aðeins halda kostnaði niðri heldur leyfa viðskiptavinum að upplifa fréttirnar sem litríka og hreyfanlega upplifun sem á sér stað í hugarheimi og er sniðin að þeirra þörfum.“ Áskrift að þessari útgöfu er lögboðin og sjálfkrafa og kostar aðeins 60 dollara á mánuði.

 

Aðdráttarafl Night Vale þáttanna felst ekki síst í því að þar er brugðið upp spéspegli af venjulegu smábæjarlífi og um leið samfélaginu í heild. Litlir afskekktir bæir taka á sig lit atburða og áberandi einstaklinga og verða fljótt samdauna sérvisku sinni og molbúarhætti. Hlutir sem koma aðkomufólki spánskt fyrir sjónir virka fullkomlega eðlilega á íbúana. Því þetta er jú það sem þeir eiga að venjast. Hið hversdagslega getur varla verið sérstakt.

Hlustendur, í dag hefst Ljóðavika Night Vale, ein af helgustu hefðum þessa bæjar. Eins og þið vitir ber hverjum hlustanda skylda til að skrifa hundruð ljóða, án afláts. Á meðan á þessu stendur mun bæjarstjórnin aflétta banni á skriftækjum, samheitaorðabókum og opinberum lýsingum á tunglinu. Og hún gerir það að kröfu að allir nýti frjálsa viljann sinn í boði bæjarins til að taka þátt í fjörinu. Í fyrra voru um 800.000 ljóð skrifuð af íbúm Night Vale og síðan snædd af raunverulegum bókasafnsfræðingum sem hlekkjaðir voru við títaníum staura inni í marglæstum járnbúrum á meðan lokaathöfn Ljóðavikan stóð yfir. Hlustendur, ef ég á að segja eins og er, þá held  ég að það sé aldrei góð hugmynd að geyma bókasafnsfræðinga á almannafæri, sama hversu traustir staurarnir eða búrin eru. Ég veit að enginn hlaut alvarlegan skaða af í fyrra en sumir af eldri hlustendum muna eflaust hvað gerðist árið 1993 þegar hömlulaus hópur bókasafnsfræðinga kostaði líf margra saklausra og öskrandi bókaunnenda. En það var fyrir tuttugu árum. Við skulum ekki velta okkur upp úr líkum stráðri fortíð okkar! Fögnum frekar líkum stráðri framtíð okkar!

 

Eitt helsta aðdráttarafl frásagnarinnar felst í upplestrinum. Hin hæga, þýða og djúpa rödd Cecils fyllir hlustandann af slíku öryggi að hann á aldrei almennilega von á þeim u-beygjum sem setningarnar í fréttaflutningi hans taka. Framan af voru atburðir og lýsingar í þáttunum mjög handahófskenndar og tilgangurinn greinilega að gera þá sem súrrealískasta en þegar fram liðu stundir fóru endurtekin stef að heyrast, minni og jafnvel vísir að söguþræði. Samband Cecils og Carlosar hefur þróast hægt en er þó komið á það stig að þeir eru í föstu sambandi. Nágrannabærinn Desert Bluffs, sem virtist í byrjun aðeins þjóna þeim tilgangi að gefa tilefni til dæmigerðs smábæjarrígs, reynist mun furðulegri en hægt var að gera sér í hugarlund og stefnir í að vera mikill áhrifavaldur í framtíð Night Vale. Og nýlega fengu hlustendur að kynnast fortíð Cecils og sá grunur vaknar að hann sé ekki allur þar sem hann er séður. Á meðan standa yfir kosningar í Night Vale en helstu frambjóðendur eru annars vegar Andlitslausa konan sem býr í húsinu þínu og fimm höfða drekinn Hiram McDaniels  sem situr í fangelsi fyrir of hraðan akstur og fölsun á ökuskírteini. Það verður spennandi að sjá hver úrslit þessara kosninga verða og hvort allir komist lifandi frá þeirri upplifun. Það eru góðar líkur á að svo verði ekki.

 

Old Hiram


http://mesitka.tumblr.com/post/59047680646/after-discussing-night-vales-candidates-for-mayor

 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.