Ferðast um heiminn með ljóð að vopni

Jón Kalman Stefánsson hefur sent frá sér tvær frumsamdar ljóðabækur en það er ansi langt síðan. Úr þotuhreyflum goða kom út árið 1989 og Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju árið 1993. Í stuttu viðtali í Fréttablaðinu segist hann ekkert hafa ort í tuttugu ár en að hann næri ljóðskáldið í sjálfum sér með þýðingum. Nú er út komið safn ljóðaþýðinga Jóns Kalmans, Undir vernd stjarna, sem geymir ljóð eftir átján skáld víðs vegar að úr heiminum. Jón valdi ljóðin, þýddi og skrifar eftirmála þar sem hann fjallar um skáldin sem eiga ljóð í bókinni.

Skáldin eiga rætur að rekja til Póllands, Svíþjóðar, Spánar, Brasilíu, Rúmeníu, Palestínu, Grikklands, Bandaríkjanna, Portúgals, Tyrklands og Bretlands. Sænska höfuðskáldið Pär Lagerkvist er elstur þeirra, fæddur 1891, en yngsta skáldið er Bandaríkjamaðurinn Franz Wright, sonur James Wright, sem fæddur er árið 1953. Alls eru skáldin átján talsins, fimmtán karlar og þrjár konur. Þarna er að finna löng ljóð og stutt, örljóð og ljóðasögur, rímuð og órímuð ljóð. Efnistök eru eðlilega fjölbreytt, ljóðmælendur ólíkir og ýmsar skoðanir fá að heyrast. Skáldin fá líka mismikið pláss, sum leggja til dæmis undir sig margar síður, eins og pólska skáldið Adam Zagajewski, og Charles Bukowski og nafni hans Simic eru einnig ansi plássfrekir. Carlos Drummond de Andrade, Nazim Hikmet og Denise Levertov láta sér hins vegar nægja eitt ljóð hvert.

Það er varla hægt að segja að Undir vernd stjarna sé heildstætt verk eða birti skýra mynd af ákveðnum skáldum, tilteknu tímabili eða aðferð við að yrkja. Líklegra þykir er að þetta séu einfaldlega skáld sem hafa hrifið þýðandann og hann vilji að lesendur hrífist með. Annað er vart hægt að gera – að minnsta kosti kom þessi lesandi sífellt auga á nýja og nýja stjörnu sem hann hafði ekki rekið augun í áður. Undir vernd stjarna tekur þó stundum á og fyrsta ljóð bókarinnar, „Lífstíðardómur“ eftir Adam Zagajewski, er einkar átakanlegt:

Þjáningarnar eru að baki.
Gráturinn þagnaður. Þú virðir fyrir þér
andlit gyðingabarns í gömlu albúmi,
fimmtán mínútum áður en
það deyr.
Augu þín eru þurr. Þú setur ketilinn yfir,
drekkur te, borðar epli.
Þú munt lifa (7).


Það er kannski við hæfi að næsta ljóð hefst á orðunum „[o]f mikið um dauða“ (8). Jannis Ritsos yrkir um órökuðu hermennina með tómlátan harm í augunum og lýkur ljóðinu „Úr dagbókum útlaga“ á orðunum „[v]íst hefði veröldin getað orðið fögur“ (59). Það er líka ort um reiði – en það gerir Angel Gonzalez sem finnst þeir dauðu vera sjálfselskir:

Þeir eru tilfinningalausir, fjarlægir, þrjóskir, kaldir,
og gera sér enga grein fyrir því hvað þeir
eyðileggja með þessari ósvífni, með þessari þögn (45)


Ekki er þó aðeins ort um kulda og dauða heldur líka um ástina, þótt hún geti verið svolítið óttaleg. Eins og Sophia de Mello Breyner segir felst ótti í því að elska „á stað sem er jafn brothættur og jörðin, á stað þar sem allt bregst og aðskilur okkur“ (51).

Sem betur fer er þó von og brúnin á lesandanum lyftist þegar hann kemur að „Hinstu óskinni og erfðaskrá“ þar sem stendur: „Ég yrki ljóð, ég skrifa heiminn; ég er til; heimurinn er til“ (62). Einhvern veginn er það nú svo að við lestur þessara ljóða sem koma víðs vegar að, stækkar heimurinn og stækkar. Annað er varla hægt þegar ekki þarf annað en fletta nokkrum blaðsíðum til að lesa um eins margvísleg efni og sæfara sem kallar á Kristófer Kólumbus, þræla í Afríku, vonsviknar konur, sköllótta stjórnmálamenn, tónlist og heimsþekkt tónskáld, drukkna skáldsagnahöfunda, allsbera elskhuga og presta. Meira að segja hinir fornu Grikkir dúkka upp á einni síðu og fuglahræða verður öðru skáldi að yrkisefni.

Undir vernd stjarna einkennist ef til vill af þema sem líkja má við sorg eða depurð; þetta er ekki ljóðasafn sem iðar af lífi, gleði eða kátínu. Þó má ekki halda að vonleysið sé algjört, því þannig er því alls ekki farið. Falleg ljóðin og ljúfar þýðingarnar gefa lesandanum von, eins og síðara erindi ljóðsins „Fólk eins og við“ eftir Robert Blye ber fagurt vitni um:

 

Þú getur ráfað inn í vitlausa skólastofu,
og heyrt mikilfenglegt ljóð flutt af ástríðu
af röngum prófessor. Og þú uppgötvar sál þína,
mikilleikinn á sér málsvara, og jafnvel í dauðanum ertu hólpinn (103).

 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.