Þegar sagnfræðin verður list

Sigrún Pálsdóttir segir hér sögu læknanna og hjónanna Sigrúnar Briem og Friðgeirs Ólasonar, sem lögðu í metnaðarfullan leiðangur til Bandaríkjanna í upphafi seinni heimsstyrjaldar til að sækja sér meiri menntun og starfsreynslu, en náðu aldrei heim aftur.

Í frásögninni fær saga Sigrúnar Briem örlítið meira vægi en saga Friðgeirs, enda er hún merkileg að mörgu leyti. Helstu skapgerðareinkenni Sigrúnar virðast hafa verið bjartsýni, ákveðni og jafnaðargeð. Hún var ein af fáum konum sem útskrifuðust úr læknisfræði við Háskóla Íslands á þessum tíma og jafnframt ein af tiltölulega fáum konum sem þá tókst að afla sér sérfræðiþekkingar í Bandaríkjunum. Á sama tíma eignast hún þrjú börn og þarf undir lok dvalarinnar í Bandaríkjunum að miklu leyti að sjá um þau ein á meðan Friðgeir lýkur doktorsnámi sínu. Höfundur dregur þó einnig upp í Friðgeiri mynd af góðum föður sem tekur mikinn þátt í heimilishaldinu þegar aðstæður leyfa; eldar og nýtur þess að sjá um börnin.  Að auki virðast hjónin hafa verið afar samstíga með að afla sér bæði menntunar í Bandaríkjunum, jafnvel þótt aðstæður hafi jafnan verið karlmanninum Friðgeiri í hag á tímum þegar ekki var sjálfsagt að læknastofnanir tækju við kvenkandídötum.

Sigrún Pálsdóttir notast m.a. við sendibréf frá þeim hjónum, en fer þá leið að láta sína rödd vera algjörlega ráðandi, að miðla öllum upplýsingum með sínum eigin orðum. Við og við saknaði ég þess að fá ekki að heyra heildstæð brot úr skrifum þeirra hjóna, fá ekki að heyra þeirra rödd nema þá helst í nokkrum myndatextum. Hins vegar er því ekki að neita að þetta gefur höfundinum tækifæri til að stýra frásögninni einstaklega vel og örugglega. Sérstaklega er ég hrifin af því hversu knappur og agaður textinn er; bókin er stutt og þar að auki stútfull af myndum, og lýsingum á myndum, sem eiga sinn þátt í að gæða persónurnar lífi. Samspil texta og mynda er einstaklega gott, enda tekur höfundur fram í heimildaskrá að hann noti ljósmyndir sem heimildir. Myndirnar skapa jafnframt persónulega tengingu við sögupersónurnar og segja ef til vill meira en tilvitnanir í skrifuð orð þeirra hjóna hefðu getað gert. 

Bókin byggir á vönduðum fræðilegum vinnubrögðum, en frásögnin sjálf, uppbygging hennar og áherslur, fylgir þó lögmálum sem við erum vön að tengja frekar skáldskap en fræðilegum textum. Höfundur slær til dæmis ákveðinn undirtón með endurteknu stefi ógnar í hafdjúpunum, og nær þannig að endurskapa í textanum þann undirliggjandi óhugnað sem fólk á stríðstímum þarf að búa við. Bókin afmarkast einnig skýrt af persónulegri sögu Sigrúnar og Friðgeirs. Við fáum engan eftirmála með upplýsingum um það hvað gerðist eftir að sögu þeirra lýkur, þótt höfundur beiti því skáldskaparbragði að bregða undir lokin upp mynd af föður Sigrúnar þar sem hann bíður heimkomu dóttur sinnar, tengdasonar og barnabarna. Þannig kemst lesandinn ekki hjá því að hugleiða þau áhrif sem örlög fjölskyldunnar hafa haft á þá sem voru þeim nákomnir og hversu mikill missir var að þeim fyrir íslenskt samfélag. Við fáum að sama skapi engan formála með upplýsingum um það hvers vegna höfundurinn réðst í að skrifa um örlög þessa fólks – þær ástæður má lesa milli línanna í textanum sjálfum – eða hvers konar aðferðafræði er beitt. Á hinn bóginn er ekki beinlínis hægt að segja að höfundur taki sér skáldaleyfi því bókin er fræðilega unnin upp úr fjölmörgum heimildum. Í heimildaskrá má sjá að stuðst hefur verið við sendibréf, ljósmyndir og önnur gögn úr einkasöfnum, og auk þess tekin viðtöl við  ýmsa er til sögunnar þekkja. Þá er stuðst við fjölda fræðirita og heimildamynda um hinn sögulega bakgrunn.

Sigrún Pálsdóttir sýnir, í þessari bók og bókinni Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, að hún hefur einstaklega gott vald á því að segja sögu einstaklinga og setja í sögulegt samhengi, á aðgengilegan og eftirminnilegan hátt. Hún hefur í raun markað sér sérstöðu í sagnfræðilegum skrifum og sýnir vel hvernig hjónin Sigrún og Friðgeir lifa sínu persónulega lífi „með fram [mannkyns]sögunni, kannski rétt rekast utan í hana án þess þó að verða hennar vör. Áfram og inn og út úr öllum þeim hliðarvíddum fortíðar sem aldrei verða saga.“ (55) Lagni hennar við að draga upp áhrifamiklar myndir og endurskapa einstaka augnablik í texta sínum koma best í ljós í lokakaflanum, sem er, eins og öll bókin, knappur, hnitmiðaður og firnasterkur í látleysi sínu. Þar verður sagnfræðin að list.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.