Spennandi ævintýri á skuggalegu skeri

Aftast í nýjustu bók Sigrúnar Eldjárn, Strokubörnunum á Skuggaskeri, er að finna yfirlit yfir bækur hennar. Alls eru bækur hennar 63 talsins, en þar af vann hún 12 með bróður sínum Þórarni. Eftir hana eina liggur því alls 51 ein bók. Þetta eru mögnuð afköst á 33 árum en fyrsta bók Sigrúnar, Allt í plati, ríkulega myndlýst reykvísk fantasía um skolpræsisskrímsli, kom út árið 1980.

Margt hefur breyst, bæði á barnabókamarkaði og í bókum Sigrúnar sjálfrar, á þessum liðlega þrjátíu árum frá því svarthvíta fantasían um krókófílana, Höllu og Sigvalda kom út. Lesendur kannast þó ætíð við höfundareinkenni hennar sem birtast bæði í myndum og efnistökum. Elsta og yngsta bókin, Allt í plati og Strokubörnin á Skuggaskeri, eiga það til dæmis sameiginlegt að vera fullar af leiftrandi fjöri og hugmyndaauðgi - án þess að vera yfirgengilega (og afskaplega lýjandi) hressar eins og barnaefni nútímans er svo oft. Það er eins og Sigrún hafi ávallt vitað hvað það er sem börn óska sér - leynt eða ljóst. Hvaða krakki vill ekki vita hvaða leyndardóma holræsin hafa að geyma? Og hvaða barn hefur ekki dreymt um að strjúka í burtu frá leiðinlegum og afskiptalausum foreldrum og lifa eins og hálfgerður Róbinson Krúsó á eyðieyju?

Strokubörnin á Skuggaskeri minnir svolítið á Róbinsonsögur en aðalsöguhetjurnar, tvíburasystkinin Hringur og Lína, ásamt litlu tvíburasystrunum Önnu og Betu, strjúka heiman frá Vesturhlíð og sigla á bátnum Happadís til hins óbyggða og mannlausa Skuggaskers þar sem þau hyggjast hefja nýtt líf. Ástæða stroksins er afskiptaleysi foreldranna og leiðindi heima fyrir. Foreldrarnir mega nefnilega alls ekki vera að því að sinna börnunum - þeir hafa nóg að brasa í stríðsrekstri.

Sagan gerist í Fagradal þar sem íbúar Vesturhlíðar og Austurhlíðar hafa lifað og starfað í mesta bróðerni árum saman. Áin Silfra aðskilur bæjarfélögin en íbúarnir hafa byggt brú sem ungir og aldnir nota dag hvern til að heimsækja vini sína hinum megin árinnar. Vandræðin hefjast hins vegar þegar upp kemst að í hólmanum, sem er í Silfru miðri og skiptir brúnni í tvennt, er að finna dýrmætan málm. Bæði íbúar Vesturhlíðar og Austurhlíðar krefjast eignaréttar yfir hólmanum, málminum og ríkidæminu sem honum fylgir og fyrr en varði logar allt í átökum. 

 

Krakkarnir í þorpunum tveimur sitt hvorum megin árinnar höfðu alltaf verið góðir vinir. Alveg frá því að þau voru pínulítil. En nú var svo komið að þeim var bannað að leika sér saman. Hringur og Lína sem voru vön að hjóla yfir brúna á hverjum einasta degi til að heimsækja Reyni og Björk gátu það ekki lengur.

Allt breyttist … brúin hvarf og vinirnir urðu að óvinum!

Fjöllin umhverfis Fagradal horfðu lúpuleg á fólkið og áin Silfra grét (17).


Systkinin fjögur, ásamt tveimur geitum, komast heilu og höldnu til Skuggaskers þar sem þau hefja nýtt líf og sjá um sig algjörlega sjálf. Ekki líður á löngu þar til vinir þeirra, systkinin Björk og Reynir, slást í hópinn á Skuggaskeri en þau voru orðin alveg jafn kúguppgefin á foreldrum sínum og endalausu stríðinu og krakkarnir í Vesturhlíð. Á Skuggaskeri leynist svo undarlegur strákur, sem Anna og Begga kalla stóru górilluna sín á milli, Lína finnur stórfurðulegt hús ofan í gjá einni og krakkarnir sjá fram á að geta mögulega lagt sitt af mörkum - jafnvel alveg heilmikið - til að stöðva stríðið í Fagradal. 

Sigrún er höfundur texta og mynda bókarinnar auk þess sem umbrotið er einnig í hennar höndum. Það er því ákveðinn heildarsvipur á bókinni - Strokubörnin á Skuggaskeri mynda heild eða pakka sem er ansi lokkandi. Framan á kápunni sést Lína róa Happadís í átt að Skuggaskeri. Hún stendur við róðurinn og hárið flaksast í vindinum, Hringur kúrir sig ofan í bátinn með litlu systurnar tvær. Innan á kápunni, bæði fremst og aftast, er kort af Fagradal sem sýnir þær leiðir sem krakkanir úr Austur- og Vesturhlíð sigla til að komast til Skuggaskers. Fjöldi mynda er svo í bókinni sjálfri, ýmist heilsíðumyndir, langoftast á vinstri síðu, eða minni myndir sem stungið er inn á milli textans og falla ætíð að umfjöllunarefninu hverju sinni. Myndirnar eru klassísk Sigrún, ef svo má að orði komast, strigaskórnir sem hafa einkennt teikningar hennar alla tíð frá Allt í plati dúkka upp og tvíburasysturnar hrokkinhærðu litlu líkjast meira að segja Höllu úr Allt í plati ansi mikið.

Strokubörnin á Skuggaskeri dansar línudans á milli þess að vera raunsæissaga, fantasía og vísindaskáldsaga. Þetta er saga sem gerist á óljósum stað í þessum heimi, um það bil í samtíma okkar. Það er ekkert séríslenskt við þessa sögu heldur fyrst og fremst sammannlegt – þetta er saga um vináttu, væntumþykju, ást, stríð og frið ásamt því að vera prýðilegt dæmi um þann kraft sem býr í krökkum þegar þeir taka sig til og standa saman og að þessu leyti minnir bókin mig á Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur. Boðskapurinn er fallegur en ber frásagnargleðina alls ekki ofurliði, sem betur fer. Sigrún er hér í fantaformi og þótt allt sé fallið í ljúfa löð á síðustu síðum bókarinnar er ljóst að von er á framhaldi - kannski þetta sé upphaf nýs þríleiks?

  

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.