Skuggar fortíðar

Frá árinu 2007 hafa alþjóðlegu glæpasagnaverðlaunin Premio RBA de novela negra verið veitt fyrsta fimmtudag septembermánaðar. Þátttakendur leggja til óútgefið handrit undir dulnefni, en verðlaunaféð nemur rúmlega 20 milljónum íslenskra króna auk þess sem tryggt er að bókin verði gefin út. Meðal fyrri verðlaunahafa eru þekktir rithöfundar á borð við Patriciu Cornwell og Michael Connelly. Í ár voru 183 handrit send inn í samkeppnina og verðlaunin hlaut Arnaldur Indriðason, eða „Stephan“ eins og hann kallaði sig í umsókninni, og kom skáldsagan El pasaje de las sombras eða Skuggasund nýlega út samtímis á spænsku og íslensku.

Skuggasund er sautjánda bók Arnaldar og þar sýnir hann kunnuglega takta en gamlir vinir eru þó fjarri góðu gamni. Í stað Erlendar, Sigurðar Óla og Elínborgar eru nýjar sögupersónur kynntar til sögunnar: Hinn rólyndi Konráð, lögreglumaður sem er nýfarinn á eftirlaun, býr einn og þykir gott að drekka rauðvín. Honum leiðist svolítið og tekur því upp á því að rannsaka glæpamál sem fyrrverandi samstarfskona hans, Marta, má lítið vera að því að sinna - enda mannekla og alltof mikið um að vera hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík auk þess sem málið vekur persónulegan áhuga hans.

Glæpurinn virðist ekki sérlega spennandi til að byrja með og vekur ekki sérstaka eftirtekt. Háaldraður maður, einstæðingur, finnst látinn uppi í rúmi heima hjá sér og virðist í fyrstu hafa hlotið friðsælan dauðdaga; látist í svefni. Við krufningu kemur í ljós að hann hefur verið kæfður með púða en það er ekki fyrr en Marta segir Konráði frá þremur gömlum blaðaúrklippum sem fundust heima hjá hinum látna, Stefáni Þórðarsyni, sem áhugi hans á málinu vaknar. Þar er fjallað um rannsókn á morði ungrar stúlku, Rósamundu, sem fannst látin á bak við Þjóðleikhúsið árið 1944. Konráð þekkir til þessa máls en faðir hans, sem var smáglæpamaður og svindlari, tengist málinu með sérkennilegum hætti. Stefán þessi hafði einmitt rannsakað það morð á sínum tíma - og þá á vegum bandaríska hersins, í samstarfi við íslensku lögregluna.

Umfjöllunarefnið er morðin á bæði Stefáni og Rósamundu og tímasvið Skuggasunds eru tvö, Ísland dagsins í dag og Ísland á hernámsárunum. Sögusviðið er Reykjavík en þó teygir sagan einnig anga sína norður á land. Eins og vant er með bækur Arnaldar eru samfélagið og mein þess tekin til skoðunar en hér er það ekki síst hið reykvíska samfélag stríðsáranna sem er undir smásjánni: Ástandið, ástir íslenskra kvenna og hermanna, ólöglegar fóstureyðingar, spilling og glæpir. Að auki er hún ekki aðeins þessa heims því við sögu koma huldufólk og sjáendur, þjóðsögur og ævintýri og saman fléttast nútíð og fortíð, morðið þá og morðið nú, og fyrr en varir er Konráð kominn á kaf í mál Rósamundu, sem aldrei var leyst að fullu, og lausnin á því reynist nauðsynlegur hlekkur í því að finna morðingja Stefáns. 

Ragnari Helga Ólafssyni hefur tekist afskaplega vel upp með kápu bókarinnar sem er grá, hvít og svört að lit, pappírinn þykkur og mattur. Framan á sést skuggamynd af frakkaklæddum manni með hatt sem hleypur frá lesandanum – leggur á flótta – og aftan á er gaddavír sem minnir á eitthvað bannað, forboðið og hættulegt. Titill bókarinnar er eins og þrykktur á myndina, með örlítið upphleyptum, silfruðum stöfum. Þetta er heilllandi kápa – kuldaleg, dimm og drungaleg – og hæfir sögusviði, viðfangsefni og anda sögunnar mjög vel. Í Skuggasundi virðist vera eilífur næðingur, norðanátt, kuldi, rok og maður finnur næstum fyrir snjóflyksunum í loftinu. Arnaldi tekst afskaplega vel að skapa stemningu sem nístir inn að beini en tilhugsunin um Konráð skoppandi um á stuttbuxum í glampasólskini er hreint fáránleg.

Eins og á við um allar bækur Arnaldar er Skuggasund spennandi saga en það er ekki hraði, fljúgandi byssukúlur eða sundurtætt lík sem fá lesandann til að vaka ótæpilega lengi frameftir. Það sem heldur athyglinni eru persónurnar - mannlegar, breyskar og raunverulegar og þótt þær séu langt í frá allar sérstaklega viðkunnanlegar getur manni ekki staðið á sama um þær og lætur sér því annt um örlög þeirra. Ég get reyndar ekki sagt að Konráð snerti mig jafn mikið og Erlendur gerir - enda hef ég haft fleiri ár og bækur til að kynnast honum. Það er þó ýmislegt í Skuggasundi sem bendir til þess að fleiri bækur eigi eftir að fjalla um þessa nýju söguhetju og ég átti ansi bágt með að trúa Konráði þegar hann fullyrðir, nokkrum sinnum í bókinni, að hann sé hættur að vinna og skipta sér af málefnum lögreglunnar.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.