Óeðli hversdagsins

Eldhafið yfir okkur er fyrsta smásagnasafn höfundar sem áður hefur gefið út ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast – og fleiri einlæg ljóð. Í þessu safni er að finna þrettán smásögur sem allar gerast á Íslandi nútímans, flestar í Reykjavík og oftast við hversdagslegar aðstæður. Söguefnið er samskipti fólks, togstreita og flækjur sem tengjast þeim.

Höfundur prófar sig áfram með ólík form smásögunnar, ólíka vinkla og sjónarhorn. Frásögnin er ýmist í fyrstu eða þriðju persónu en alltaf er skyggnst inn í sálarlíf þeirrar persónu sem er í aðalhlutverki í hverri sögu. Þrjár sagnanna eru bein ávörp sögupersóna til annarra. Samskiptin sem lýst er eru af margvíslegum toga, milli para, foreldra og barna, vina og jafnvel ókunnugra. Ekkert þessara sambanda er fullkomlega „eðlilegt“ og oftast þarf sá sem sjónarhorn sögunnar er hjá að fást við óhefðbundnar aðstæður eða jafnvel óeðli einhvers annars og stundum er um sálfræðistríð að ræða.

Sögurnar hverfast flestar um viðkvæm málefni og reynt er að gera sálarlífi og skynjun aðalpersónanna sterk skil. Sorg, vonbrigði, eftirsjá og þrá eftir einhverju öðru eru algeng þemu. Lýsingar á hversdagsleikanum gefa sögunum aukinn trúverðugleika, því ef það sem er á yfirborðinu er kunnuglegt, þá getur það sem undir býr einnig átt sér stað.

Höfundur ræður vel við smásagnaformið og skrifar trúverðug og eðlileg samtöl, en flestar sögurnar byggja að stórum hluta á einræðu eða samtölum. Hins vegar er efnið sjálft ekki alltaf nógu áhugavert eða grípandi og sögurnar halda misvel þræði Hugmyndirnar eru margar hverjar góðar, en ekki er alltaf unnið vel úr þeim, t.a.m. er lokaatriði sögunnar „Vængjasláttur“ mjög sterkt, en ekki nærri því nógu vel undirbyggt og sorg móður og dóttur sem fjallað er um mestalla söguna er úr tengslum við lokaatriðið.

Á móti koma sterkari sögur eins og „Það fer enginn aftur til Svartfjallalands“ og „Pössun“. Í þeirri fyrrnefndu er unnið með þrána og hvað það er að vera frjáls og festast ekki í viðjum vanans. Í þeirri síðarnefndu er unnið með þráhyggju og sköpuð sterk mynd í fáum orðum.

Titill bókarinnar er ekki lýsandi fyrir verkið í heild og þrátt fyrir að flestar sögurnar gerist á svipuðum tíma og snúist um samskipti er lítill heildarsvipur yfir verkinu. Höfundur á eftir að ná betri tökum á ýmsu sem varðar efnistök og dýpt en samt sem áður er vel hægt að mæla með smásagnasafninu.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.