Kæru vinir. Ljúf matreiðslubók Skagameyjar

Sex af um þrjátíu matreiðslubókum sem koma út nú fyrir þessi jól eru byggðar á matarbloggum áhugakokka. Þetta eru bækurnar Matargleði Evu eftir Evu Laufeyju Kjaran Hermannsdóttur, Brauð- og eftirréttir Kristu: Sykur-, ger- og glútenlaust eftir Maríu Kristu Hreiðarsdóttur, Læknirinn í eldhúsinu: Tími til að njóta eftir Ragnar Frey Ingvarsson, Gulur, rauður, grænn og salt: Fljótlegir réttir fyrir sælkera eftir Berglindi Guðmundsdóttur og svo hin girnilega Freistingar Thelmu sem heita eftir samnefndu bloggi Thelmu Þorbergsdóttur. Eva Laufey hefur bloggað frá árinu 2010, María Krista frá febrúar 2013, Ragnar Freyr alveg síðan 2006, Berglind frá september 2012 og Thelma hefur bloggað og haldið námskeið, aðallega um kökur og kökuskreytingar, heillengi. Nú hafa þau öll gengið til liðs við fjölda erlendra matarbloggara, faglærðra og áhugamanna, sem hafa breytt bloggi í bók og sumir hverjir orðið ansi frægir. Einn bloggarinn, Eva Laufey, stjórnar að auki sjónvarpsþættinum Í eldhúsinu hennar Evu og þegar þetta er skrifað hafa tvær þættir farið í loftið. Hér er athyglinni þó fyrst og fremst beint að nýútkominni bók hennar.

 

EKKERT ELDHÚSTENGT ÓVIÐKOMANDI
Matargleði Evu Laufeyjar er slík að henni er ekkert í eldhúsinu óviðkomandi en í bókinni er að finna forrétti og smárétti, súpur, brauð, alls kyns aðalrétti frá ýmsum þjóðlöndum, ýmsar tertur, kökur, bökur og múffur ásamt ljúffengum eftirréttum. Þannig mætti segja að bókina skorti fókus en eins og Eva Laufey segir sjálf í formála bókarinnar eiga flestar uppskriftirnar það sameiginlegt að vera „einfaldar, fljótlegar og fjölskylduvænar” (8) auk þess sem þær hafi margar fylgt fjölskyldu hennar árum saman. Því má ætla að Matargleði Evu sé tilvalin gjöf fyrir heimiliskokkinn og innblástur fyrir hversdagseldamennskuna og hún er það, þarna eru til dæmis uppskriftir að einföldum ofnbökuðum fiskréttum, einfalt afbrigði af klassískum plokkfiski, fljótlegur pestókjúklingur og fleira sem telja má til viðeigandi rétta á virkum dögum. Heimiliskokkurinn gæti líka dundað sér við að baka ljúffengar ostabollur, skella í íslenska kjötsúpu eða jafnvel „baka” hina ofureinföldu en gríðarlega góðu Rice Krispies köku með bönunum og karamellusósu.

Þar sem um er að ræða hversdagseldamennsku fyrir heimiliskokkinn og uppskriftir sem hafa verið margprófaðar á fjölskyldu Evu Laufeyjar verður að viðurkenna að Matargleði Evu er ekki frumleg matreiðslubók. Hér er miklu frekar um að ræða samantekt á margprófuðum og elskuðum uppskriftum, nýja nálgun við gamla klassík og uppskriftir að nýlegum uppáhöldum. Hægt er að finna uppskriftir að nær öllum réttunum í bókinni í öðrum matreiðslubókum eða matarbloggum. Þær eru e.t.v. ekki nákvæmlega eins en svipaðar. Til dæmis eru sömu eða svipaðar uppskriftir að flestum réttunum í bókinni sjálfri á bloggi Evu Laufeyjar; uppskriftin að pestókjúklingi á síðu 90 mjög svipuð uppskriftinni á blogginu. Í bókinni er einnig að finna uppskrift að ofnbökuðum plokkfiski, uppskrift sem hefur lengi verið í eftirlæti hjá höfundinum. Sama uppskrift er á blogginu og þar eru fleiri myndir en í sjálfri bókinni og þær skýra ferlið mjög vel - betur en textinn í bókinni. 

IMG_0405


Léttur og suðrænn lax með mangó og kóríander

Lax í suðrænni sveiflu er ein best uppskriftin úr smiðju Evu Laufeyjar sem ég hef prófað. Hana er bæði að finna í bók og á bloggi, mér sýnist meira að segja notast við sömu ljósmyndir á báðum stöðum. 

  

Það er hins vegar, eins og Eva Laufey bendir sjálf á, ósköp notalegt að fletta í gegnum matreiðslubækur og Matargleði Evu er góð „hugmyndaveita” (6) og ætli flestir geri ekki hið sama og Eva Laufey, noti uppskriftabækur sem innblástur í eldhúsinu. Mér þykir það líka alls ekki löstur - miklu frekar kostur - að sömu uppskriftir er að finna á bloggi höfundar og ekki er það verra þegar þær eru örlítið ólíkar því sem stendur í bókinni, enda hvetur það mann til að skipta út einu og einu hráefni, breyta og bæta og gera (svo maður steli orðalagi úr Idolinu) réttinn „að sínum”. 

 

SÆT OG FÍN BÓK
Höfundurinn sjálfur blasir við lesendum framan á kápu Matargleði Evu, hún hallar sér kotroskin fram þar sem hún lítur út fyrir að vera að smakka á girnilegum eftirrétti, súkkulaðimús (sjá bls. 155).  Bókin hvorki of stór né of lítil og opnurnar haldast vel opnar - og þannig er einfalt að leggja bókina á eldhúsbekkinn og glugga öðru hvoru í uppskriftina meðan á eldamennskunni eða bakstrinum stendur. Bókina einkenna hvítir, bláir og (appelsínu)rauðir tónar og fremur rómantískt letur sem er stundum erfitt að lesa ef lýsingin er ekki þeim mun betri. Alla jafna er ein mynd á hverri opnu, ýmist af réttinum sem gefin er uppskrift að eða bæði réttinum og kokkinum. Oft fylgja uppskriftunum stuttir formálar frá Evu Laufeyju þar sem hún greinir frá tilurð réttarins, einkum ef um er að ræða fjölskylduuppskrift, eða segir frá því við hvaða tækifæri tilvalið sé að bera réttinn fram - eða einfaldlega til að dásama matinn. Þetta eru ljúfir textar og einlægir - þótt mér finnist þeir stundum ögn yfirdrifnir og jaðra við að vera væmnir.

Myndirnar í bókinni hefur Eva Laufey tekið nær allar sjálf og ef maður rúllar í gegnum bloggfærslur hennar sést hversu mikið henni hefur farið fram við myndatöku og myndvinnslu. Á stöku stað hefði þó mátt skerpa eins og eina og eina mynd, laga fókusinn og taka ekki svona miklar nærmyndir en á nokkrum stöðum er um að ræða svo miklar nærmyndir að erfitt er að átta sig á útliti matarins (t.d. mynd af sjávarréttasúpu á bls. 34).

 

ÞEGAR PIPARKÖKUR BAKAST …
Leiðbeiningarnar sem fylgja uppskriftunum eru flestar skýrar og skorinorðar og - eins og lofað er í inngangi - er einfalt að fara eftir þeim. Stundum hefði þó mátt lesa textann betur yfir. Þetta á til dæmis við um leiðbeiningarnar með rækjukokteilnum góða (13). Þar kemur fram að setja eigi ákveðin hráefni í matvinnsluvél en ekki er tekið fram að það eigi að mauka hráefnin í matvinnsluvélinni (sem ég reikna nú með að eigi að gera) né heldur hversu lengi vélin eigi að ganga. Samkvæmt leiðbeiningunum á að bera réttinn fram í kokteilglösum en á myndinni er rétturinn í Ittala-skálum, sem virðast vera í miklu uppáhaldi hjá Evu Laufeyju, enda afskaplega fallegar. Þá segir að gjarnan megi bera réttinn fram með ristuðu brauði og það hefði verið gaman að hafa það á myndinni.

Höfundur nýtur augljóslega þeirrar reynslu að hafa sett saman uppskriftir, skrifað um mat, eldað og tekið ljósmyndir fyrir almenning um nokkurt skeið og bloggið er fínasta auglýsing fyrir bókina. Í heildina litið er Matargleði Evu prýðileg og falleg matreiðslubók sem kemur sér vel á hverju heimili.

 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.