Eitthvað meira en blaut klessa í moldinni

Hvers vegna ætti sagnfræðingur á sextugsaldri norður á Sauðárkróki að setjast niður og skrifa æviminningar sínar? Jú, kannski getur hún skrifað, enda dóttir eins fremsta rithöfundar þjóðarinnar á síðari hluta 20. aldar, en hvað hefur hún sérstakt fram að færa?

Sérstaða bókar Sigríðar Kristínar Þorgrímsdóttur, Alla mína stelpuspilatíð, liggur fyrst og fremst í virkri og gagnrýnni túlkun höfundar á eigin ævi, persónugerð, ættingjum, sögu og samfélagi. Hér skrifar femínískur sagnfræðingur og viðfangsefnið er hún sjálf. Sagan er byggð upp þematískt en þó sögð nokkurn veginn í tímaröð og nær frá æsku höfundar á sjötta áratug síðustu aldar til nútímans, auk frásagna af foreldrum, ömmum, öfum og öðrum áum. Sögusviðið er æskuslóðirnar í Mývatnssveit til að byrja með en síðan fer höfundur um víðan völl; til Reykjavíkur, Noregs, Rúmeníu, Sauðárkróks og Blönduóss. Sjónarhornið er ávallt femínískt og Sigríður fléttar hugleiðingar um stöðu kvenna og jafnrétti inn í umfjöllun um formæður sínar og -feður og rithöfundinn móður sína, eigin æskuár, unglingsár, móðurhlutverkið og nútímann. Af þessu leiðir að bókin er engin hefðbundin ævisaga heldur fyrst og fremst samfélagsrýni tvinnuð saman við þroskasögu konu.

Þroskasagan sem sögð er afhjúpar ýmsar mótsagnir sem búa innra með Sigríði sjálfri og hún gerir enga tilraun til að fela þær. Undir lok bókar viðurkennir hún það sem komið hefur í ljós við lesturinn: Að það er ekki einfalt mál að vera femínisti, ekki síst þegar þarf að samræma þá afstöðu móðurhlutverki og sambandi við maka. Stundum kemur fram afstaða höfundar sem stangast að vissu leyti á við femínisma, til dæmis andúð hennar á „húmorslausum orðaleppalöggum“ sem beita svipu á þá sem nota brandara til að réttlæta orðfæri sitt. Þessar mótsagnir skemma þó ekki heildarmynd bókarinnar heldur eru þær hluti af henni, því eins og Sigríður segir sjálf: „Þarf endilega að samsvara sér í öllu? Er ekki flott að vera samsettur úr andstæðum og mótsögnum? Vera svolítið óútreiknanlegur?“ (292)

Móðir Sigríðar Kristínar var Jakobína Sigurðardóttir rithöfundur og bókin er að nokkru leyti einnig saga hennar. Varpað er ljósi á ýmsar hliðar Jakobínu sem ekki hafa birst í bókmenntasögum eða viðtölum, til dæmis jaðarstöðu hennar innan samfélagsins í Mývatnssveit sem kommúnisti, utansveitarkona og rithöfundur. Einnig fjallar Sigríður um erfiðar aðstæður í Garði þar sem Jakobína og Þorgrímur Starri, faðir Sigríðar, bjuggu í tólf fermetra herbergi á meðan þau eignuðust börnin fjögur og þurftu að þola sambúð við geðveikan föður og tengdaföður. Enn fremur er verðmætt að fá innsýn í hugarheim Jakobínu í gegnum brot úr bréfum sem Sigríður birtir. Jakobína er ekki eina skáldkonan sem lesendur kynnast í þessari bók því þar segir einnig frá afasystur Sigríðar, Þuru í Garði, sem var landsþekkt fyrir tvíræðar lausavísur sínar.

Ekki verður hjá því komist að minnast á lýsingu Sigríðar á uppvexti sínum í Mývatnssveit, persónum og mannlífi sveitarinnar. Þessi bók er að hluta til sveitarlýsing og mikilvæg sem slík, því hún dregur upp mynd af samfélagi sem hefur breyst mikið og kynslóð sem er horfin á braut. Samfélagið í Mývatnssveit var að mörgu leyti andsnúið höfundinum á æskuárunum og í þessari bók er ýmsu lýst sem ekki hefur verið talað um áður. Öllum er þó hollt að horfast í augu við fortíðina og það verður að segjast að Sigríður er ótrúlega blíð og skilningsrík í garð sveitunga sinna. Ljóst er að hún hefur fyrirgefið þeim flest og kannski er mikilvægasta þroskaferlið sem lýst er í bókinni hvernig hún sættist við fortíðina og endurheimtir ást sína og tryggð við æskuslóðirnar og fólkið sem þar býr.

Frásögnin er stundum dálítið brotakennd, sér í lagi þegar Sigríður rifjar upp æskuminningar, og einnig er nokkuð um endurtekningar sem hefði verið hægt að sníða af í yfirlestri. Á heildina litið er Alla mína stelpuspilatíð þó afar vel skrifuð bók og áhugaverð femínísk greining á íslensku samfélagi fyrr og nú. Þetta er hjartnæm og fyndin þroskasaga konu sem hefur unnið vel og skynsamlega úr fortíðinni og langar þegar hér er komið sögu til að „vera eitthvað meira en blaut klessa í moldinni“ (12). Hún vill sem sagt ekki enda eins og kartöflumóðir heldur skilja eitthvað eftir sig sem fólk mun minnast hennar fyrir – og það hefur henni tekist.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.