Eins og gult og svart

Kápa Dísusögu lýsir með táknrænum hætti innihaldi hennar. Kápan er tvískipt, efri hlutinn gulur og sá neðri svartur. Á gula partinum er mynd af ungri, brosandi stúlku en á þeim neðri er dökk og drungaleg mynd á hvolfi af hálfu andliti Vigdísar. Á gula hlutanum standa stafirnir DÍSU í svörtu og inni í hverjum staf er annar gulur sem saman mynda orðið saga. Kápan er klofin, titillinn er klofinn og sagan fjallar um klofning.

Í sögunni eru tvær konur með orðið, en önnur fær þó fleiri orð en hin. Þetta eru þær Dísa og Gríms. Þær eru tvær persónur, hýstar í sama höfði, höfði Vigdísar Grímsdóttur. Önnur er að nálgast sextugt en hin er tíu árum yngri. Gríms er drungaleg, svartklædd, reykir og er stundum drykkfelld. Dísa vill hins vegar helst klæðast gulu, reykir hvorki né drekkur, vill dansa og vera glöð. Sífellt er hamrað á þessum andstæðum sem birtast til að mynda vel í upprifjun Dísu:

Ég slapp út í sólina og sumarið og keypti mér gulan kjól og ég dansaði í honum alla leið heim og ég tíndi blóm á Klambratúninu sem ég lét í hárið á mér og ég söng og dansaði og ég var berfætt og ég var hamingjusöm í gula kjólnum mínum og hlustaði ekki á tuðið í svörtu Gríms sem bölvaði út í eitt og sagði mér að hætta að syngja ef ég vildi ekki að hún kýldi mig í klessu í helvítis gula flókanum (163).


Gríms hefur hins vegar meira og minna farið með völdin allt frá því að Dísa varð fórnarlamb hræðilegs ofbeldisverks um 10 ára aldur. Það er aðdáunarvert að skrifa bók sem hverfist um jafnömurlegan glæp án þess að glæpurinn sjálfur leiki stórt hlutverk, honum er lýst rétt stuttlega en þó þannig að erfitt er annað en klökkna. Það eru þó fyrst og fremst víðtækar afleiðingar hans sem eru til umfjöllunar.
 

Sagan er skrifuð á tveimur mánuðum norður í Árneshreppi. Umhverfið leikur skemmtilegt aukahlutverk í sögunni, persónurnar á staðnum og náttúrulýsingar eru ljóslifandi og mann þyrstir í meira, fleiri sögur af íbúum og stærri myndir af umhverfinu. Öll er sagan ávarp og rituð sem bréf til Kisa, ónefnds elskhuga höfundar á árunum 1983–2000, nokkuð óviðkunnanlegs manns sem þær báðar elska og þrá enn í dag, þrátt fyrir 13 ára aðskilnað. Það læðist að lesandanum sú grunsemd að Kisi sé í raun ekki einn tiltekinn maður af holdi og blóði heldur persónugerving hans sjálfs, hins kröfuharða og duttlungafulla lesanda.

Í upphafi fer Gríms með orðið og tilkynnir að hún muni nú, í fyrsta skipti, leyfa Dísu að skrifa bók. Gríms á þó erfitt með að gefa Dísu lausan tauminn, framvindan er sífellt trufluð með athugasemdum og framígripum frá Gríms, sem á samkvæmt samningi að hafa sig hæga ofan í holunni sinni, holunni sem Dísa hefur mátt dúsa í meiri hluta ævinnar. Framígripin verða oft tilefni bráðskemmtilegra rökræðna eða rifrilda milli persónanna, en í sumum tilvikum verða þetta endurtekningarsöm og langdregin samtöl. Samræður þeirra gera það þó að verkum að lesandinn neyðist til að taka þátt í klofningnum. Lesandanum er kippt út úr frásögninni og í staðinn smýgur naggið í þeim stöllum inn í höfuð hans og eykur ef til vill skilning á aðstæðum Dísu og Gríms.

Oft og tíðum fer Dísa ómildum orðum um höfundarverk Gríms, fáar bækur hennar hljóta náð fyrir augum Dísu. Hún hallast á sveif með mörgum lesendum sem hafa átt erfitt með að skilja bækur hennar eða gagnrýnt hana fyrir að skrifa of mikið um „aflokaðar manneskjur, ofbeldi, sársauka, geðveiki og heim á vonarvöl og heljarþröm“ (38).

Þegar Dísa kemst að án truflunar verður lesturinn hrein unun, hún rifjar upp hvaðeina sem henni dettur í hug, lætur hugann reika til fortíðar, stundum fer ímyndunaraflið á fleygiferð og það virðist tilviljanakennt hvaða atburðir verða fyrir valinu þó að vissulega tengist margir aðdraganda og eftirmálum hins grimmilega glæps. Dísa er fyndin og blær frásagnarinnar verður léttur þrátt fyrir skuggann sem fylgir henni og þeim Gríms báðum.

Maður fær það á tilfinninguna að þessi bók sé ákveðinn vendipunktur á höfundarferli Vigdísar, í sögunni má öðrum þræði greina nokkurs konar uppgjör við fyrri verk hennar og það verður spennandi að sjá hvert framhaldið verður. Munum við heyra meira í Dísu eða Gríms, eða verður það ef til vill einfaldlega ein, stök Vigdís Grímsdóttir sem tekur nú við?

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.