Að máta og vera mát

Þrátt fyrir að bækur Árna Þórarinssonar fjalli alla jafna um glæpi og þær skuggahliðar mannsins sem þeim fylgir, er einnig yfir þeim ákveðinn heimilislegur blær. Þessi blær er ekki síst tilkominn vegna þess að Árni hefur skrifað hverja bókina á fætur annarri þar sem sömu persónur eru í aðalhlutverki. Einar blaðamaður er að verða jafnkunnuglegur lesendum og frændinn sem maður hittir einu sinni á ári, enda er hans persónulega líf afar stór hluti af sögum Árna. Þegar lesendur hafa gengið að Einari jafnvísum og raun ber vitni síðustu ár sætir tíðindum að skapari Einars gefi út bók án hans. Um leið og aðdáendur Einars sakna hans ber um leið að fagna því að Árni rói á ný mið og ögri sínum stóra lesendahópi sem ætti síður en svo að minnka með tilkomu þessarar bókar. Einar blaðamaður bíður vonandi betri tíma.

Glæpurinn: Ástarsaga er stutt bók, aðeins um 150 síður og virkar jafnvel enn styttri því að auðvelt er að lesa hana í einum rykk, eða vart annað hægt. Sagan grípur lesandann strax á fyrstu síðu og sleppir ekki takinu fyrr en bókinni er lokið. Þó er það ekki hið hefðbundna plott glæpasögunnar sem heldur lesanda spenntum heldur leyndarmál, ást og óbærileg örlög aðalpersónanna. Þrátt fyrir að sagan sé ekki lengri en raun ber vitni standa aðalpersónurnar þrjár, Fríða, hann og hún, ljóslifandi fyrir hugskotsjónum strax í upphafi. Sársauki þeirra verður nánast áþreifanlegur og lesandinn sogast með þeim inn í erfiðar aðstæður. Lesandinn reynir að máta sig í spor persónanna en verður líklega alltaf mát, svo notað sé orðalag hennar sem veltir fyrir sér þessu sagnorði: „Sögnin „að máta“ hefur skemmtilega mótsagnakenndar merkingar: Að sigra og að kanna samstöðu“ (54).

Í sögunni er sjónarhornið ýmist hjá einni þessara þriggja persóna og samhliða er rakin frásögn hennar af fortíðinni. Þannig skapast smám saman mynd af lífi þeirra þriggja uns skýring fæst á aðstæðum þeirra í lífinu. Óþarfi er að fara nánar í söguþráð og er öllum ráðlagt að vita sem minnst um söguþráðinn áður en lestur hefst. Saga hverrar persónu og frásögnin úr fortíðinni fléttast lipurlega saman og truflar aldrei framvindu sögunnar. Meitlaður stíll og hnitmiðuð samtöl gera lesturinn áreynslulausan en spennandi. Hið eina sem segja má að trufli einstaka sinnum, og á þetta við í fleiri bókum Árna, er óþarfa notkun á slangri í samtölum. Samtöl geta hæglega verið raunsæ og sannfærandi án slangurs eða slettna. Má til dæmis velta fyrir sér hvort orðin „menntó“ og „stökk“ (e. stuck) séu í eðlilegur hluti íslenskra samræðna. Vandamálið við slangur er að það er oftast háð tíma og félagslegu samhengi. Það sem einum þykir eðlileg orðanotkun kann öðrum að þykja ankannalegt. Þetta eru þó litlir agnúar sem eflaust fara í taugarnar á sumum en alls ekki öðrum og slangrið og sletturnar eru miklu færri hér en öðrum bókum Árna. Á heildina litið er þetta afskaplega flott, óvænt og vel unnin saga sem heldur lesanda við efnið frá upphafi til enda.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.