Á bleiku prinsessuskýi

Sirrý Sig. er duglegur rithöfundur en hún hefur á undanförnum árum stundað sjálfsútgáfu af miklum móð ásamt samstarfskonu sinni Hildi Enólu en hægt er að lesa um samstarf þeirra á vef Nostri publicaton. Nýjasta bók Sirrýjar er barnasagan Þórey vill vera prinsessa en áður hafa komið út eftir hana barna- og unglingabókina Gegnum rifurnar og draugasagan „Nappi” auk smásagna fyrir fullorðna. Þórey vill vera prinsessa er fyrsta bók Sirrýjar sem kemur út á vegum Óðinsauga.

Saga Þóreyjar er saga stúlku sem vill fá að haga sér í samræmi við eigin hugmyndir um prinsessur og kýs að vera kölluð Fjóna prinsessa. Hún er í pössun hjá afa og ömmu og vill til að mynda borða köku í hádegismat, mála sig með snyrtidóti ömmu, baka köku, borða mikið af súkkulaði, kaupa dót og nammi og hjálpa ömmu sinni að elda. Amma strýkur málninguna framan úr Þóreyju og lofar henni að hún fái að borða köku klári hún pastað sitt og ef hún suðar ekki í búðinni fær hún skemmtilega bók. Prinsessan og amman dunda svo við ýmislegt hversdagslegt fram á kvöld eða þar til afi - sem er nú skemmtilegur - kemur heim. Eftir bað, bóklestur og Faðir vor leggst Þórey svo út af og sofnar og þar með lýkur sögunni. Þórey vill vera prinsessa er hversdagsleg saga, söguþráðurinn er einfaldur, sögupersónur fáar og á síðustu síðu er Þórey orðin sátt við að vera bara Þórey en ekki Fjóna prinsessa. Sagan er sögð í einföldum, frekar stirðum stíl og hefði gjarnan mátt dunda betur við að fága textann og snikka hann til.

Hvað umbrot og stærð varðar minnir bókin einna helst á litabók. Myndirnar virðast litaðar með vax- eða trélitum og því er heildarútlit bókarinnar svolítið sniðugt, þ.e. ef markmiðið er að láta sem um sé að ræða lita-/teiknibók fimma ára stúlku eða svo. Letrið er nokkuð skýrt og stórt en textinn er þéttur á hverri síðu og ekkert aukabil eða inndráttur þegar ný efnisgrein hefst. Miðað við textamagn og uppsetningu textans er líklega ekki gert ráð fyrir að börn lesi söguna sjálf heldur að lesið sé fyrir þau.

Texti bókarinnar er á vinstri síðu hverrar opnu, litmynd, afmörkuð af ramma, er á hægri síðu og kallast myndefnið á við það sem textinn greinir frá. Textinn er aðskilin myndunum, þ.e. ekkert flæði er á milli mynda og texta og þetta tvennt blandast aldrei saman eins og algengt er til dæmis í myndabókum Sigrúnar Eldjárn og Áslaugar Jónsdóttur. Myndirnar bæta engu við söguna heldur standa sem skraut og styðja við textann. Þær eru einfaldar, það er lítið um smáatriði sem ungir hlustendur geta dundað sér við að skoða á meðan bókin er lesin. Raunar er dúkka Þóreyjar á nær hverri mynd en það virðist ekki vera sérlega elskuð dúkka, að minnsta kosti ekki þegar hún liggur undir eldhúsborði, á eldhúsgólfinu, á hvolfi inni á baðherbergi eða stofugólfinu. Og ekki fær hún að kúra uppi í rúmi þegar Þórey er þangað komin.

Það er nokkuð sérstakt við myndskreytingarnar að óvenju oft snúa persónurnar baki í lesendur. Amma er til að mynda á þremur myndum af tólf, en hún gegnir stóru hlutverki bókinni. Hún snýr ávallt baki í lesendur sem fá því aldrei að sjá framan í hana. Þórey er á hverri einustu mynd utan einnar. Á þremur þeirra snýr hún baki í lesendur þannig að þeir sjá ekki framan í hana og á tveimur snýr hún baki í lesendur en hefur undið upp á líkamann þannig að þeir sjá framan í hana. Þá er svolítið óhugnanlegt að á fyrstu myndinni í bókinni, þar sem Þórey hoppar niður stiga í átt til ömmu, eru augu hennar án augasteina! Vegna þessa næst frekar lítil tenging við sögupersónur í gegnum myndirnar. Þá verður í lokin að minnast á kápumyndina. Þar liggur Þórey sofandi fram á borð með bók fyrir framan sig. Í draumaskýi fyrir ofan hana sést hún í hestvagni í anda Öskubusku Disneysamsteypunnar sem hvítur hestur dregur áfram í átt að hefðbundnum ævintýrakastala. Athyglisvert er að Þórey lætur aldrei í ljós vilja til að verða hefðbundin Disney- eða ævintýraprinsessa í bókinni; prinsessudraumar hennar virðast frekar snúast um sælgæti, súkkulaði  og spennandi dót.

Það verður að viðurkennast að maður hrekkur við þegar maður rekst á enn eina bleika prinsessubókina - en vandlega kyngreindar bleikar og bláar bækur með skýrt afmörkuðum hlutverkum fyrir stráka og stelpur hafa verið nokkuð algengar í íslenskum bókaverslunum síðustu árin. Það góða við bók Siggýjar Sig. er að bleiku prinsessudraumarnir snúast ekki um það sem kápumyndin boðar og Þórey litla er ekkert viðfang, feimin eða til baka. En mikið hefði nú verið hressandi ef kandísbleiki liturinn hefði ekki verið svona áberandi í bókinni. Í heildina litið er Þórey vill vera prinsessa þó fremur lítið spennandi saga fyrir unga lesendur og hlustendur og hefði þurft að vinna betur í texta, myndum og samspili þessa tveggja. Þetta er hefðbundin saga og fyrirsjáanleg - öfugt við t.d. hina uppreisnargjörnu Askur og prinsessan sem kom út hjá Ókeibæ árið 2010. Hins vegar skal ég lofa því að éta hatt minn og staf ef fjöldi telpna á ekki eftir að heillast af hinum bleika lit bókarinnar.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.