Vitranir okkar tíma

Í bókinni Vince Vaughn í skýjunum er að finna tvær sögur; „Vince Vaughn í skýjunum“ og „Hjartað er jójó“. Báðar sögurnar fjalla um ungt fólk sem vitrast eins konar sýnir og kemur þeim „vitrunum“ á framfæri  við umheiminn í gegnum samskipta- og fjölmiðla nútímans.

Í „Vince Vaughn í skýjunum“ situr menntaskólastúlkan Sara í sumarvinnunni sinni sem baðvörður í sundlaug þegar hún sér sérkennilega skýjamyndun á himni, þar sem andlit Hollywoodleikarans Vince Vaughn, sem er „einn af þessum leikurum sem er alls staðar og hvergi, hvort tveggja kunnuglegur og áhrifalaus“ (28), birtist ljóslifandi. Fyrstu viðbrögð Söru eru, að nútímasið, að draga upp símann sinn og mynda viðburðinn. Eftir að hún setur myndbandið á netið öðlast hún óvænta og skjóta frægð sem hún veit ekki hvernig hún á að höndla.

Það sem grípur fyrst athyglina við þessa sögu er stíllinn, þ.e. nákvæmar, myndrænar lýsingar á hversdagslegum hlutum, til dæmis á upphafssíðu bókarinnar:

 

Gamlir menn í töfflum úr plasti og skínandi nýblautum sundskýlum eigra framhjá hvítum sólbekkjaröðum og dýfingabrettum, stefna að pottunum, og spengilegar konur með sundhettur fikra sig niður álstiga, smeygja sér ofan í mannlausa, munnskolsbláa laug. Séður að ofan bylgjast vatnsmassinn eins og hlaup, laugin flæðir aðeins yfir bakkana, niðurföllin sötra og líkamar hreyfast hægt og taktfast áfram í röð eins og á færibandi, sömu hreyfingar aftur og aftur, höfuð lyftast, opnir munnar síga hljóðlaust að nýju undir yfirborðið. (7) 

 

Eins og sjá má af seinni hluta þessarar lýsingar er sjónarhornið oft fjarlægt og gefur kunnuglegum fyrirbærum framandlegan blæ. Höfundurinn lýsir sjálfur slíkum stíl og áhrifum hans þegar hann segir frá því tómstundagamni Söru og vinkvenna hennar að skrifa Wikipediu-greinar um „ýmsa hversdagslega hluti, venjulegustu og sjálfsögðustu hluti“, til dæmis skóflur og skjalamöppur. „Kannski leynist einhver fegurð í afstöðulausum og tæmandi lýsingum á hinu fábrotna. Tungumálið getur gert hversdagslegan raunveruleika súrrealískan og heillandi aðeins með því að lýsa honum nákvæmlega eins og hann er“, segir sögumaður og bætir því við að kannski séu Sara og vinkonur hennar „ómeðvitað að gera tilraunir til að tengjast veruleikanum í gegnum Wikipediu-skrifin, kynnast forvitnilegum hliðum hans með því að varpa ljósi tungumálsins á hann að því leyti sem þær geta“ (33). Þetta tekst nokkuð vel hjá höfundinum sjálfum; dregnar eru upp afar myndrænar lýsingar þar sem hversdagslegir hlutir verða nánast dulúðugir við slíka nákvæma, hlutlausa lýsingu – og dulúðugir hlutir, eins og birting andlits í skýjum, verða nánast hversdagslegir. Um leið þurrkast út skil hins smáa og hins stóra, hins persónulega og hins opinbera, hversdagsins og frægðarinnar.

Sagan er að auki nokkuð sannfærandi lýsing á þeim veruleika sem við búum við, þar sem jafnvel því allra persónulegasta er samstundis útvarpað sem opinberum fréttum gegnum samskiptamiðla. Sara veltir fyrir sér hvort sum upplifun sé aðeins ætluð okkur sjálfum persónulega. „Þetta er mitt myndband. Þetta er mín upplifun“, segir hún þegar atburðarásin hefur fyrir löngu tekið sína eigin stefnu, algjörlega óháð henni. „Ég sá þetta ein. Af hverju getur ekki verið að mér einni hafi verið ætlað að sjá þetta gerast?“ (59) Viðbrögð hennar við allri athyglinni, til dæmis það hvernig hún forðast að skoða athugasemdakerfi netmiðlanna, lýsir vel þeirri tilfinningu sem flestir hljóta af og til að fá í samskiptaumhverfi nútímans; að hafa berað of mikið og langa til að loka sig af, brynja sig gegn viðbrögðum annarra.

Þótt hugmyndin sem liggur að baki sögunni sé vissulega skemmtileg er það ekki söguþráðurinn sem er aðalmálið heldur ákveðin stemning og tilfinning. Við upplifum brotakennda og handahófskennda atburðarás sem þátttakendur hafa litla stjórn á og erfitt er að botna í því hvers vegna sumt verður svo miklu mikilvægara en annað – líkt og raunin er í samskipta- og fjölmiðlaumhverfi okkar almennt. Þetta stjórnleysi persóna yfir eigin örlögum eykur á áhrif hins fjarlæga sjónarhorns þar sem sögupersónan Sara horfir oft á sjálfa sig líkt og úr fjarlægð eða í draumi og virðist hafa lítil tengsl við það sem er að gerast í kringum hana eða aðrar sögupersónur.

Það er mun persónulegri tónn í sögunni „Hjartað er jójó“, sem er sett upp eins og einlægt samtal sögupersónunnar við lesanda.  „Mig langar til að segja að þú munir aldrei trúa því hvað varð til þess að ég sit hérna einmitt núna og stari upp í himininn en líklega væri réttara að segja að þú munir aldrei geta giskað á hver aðdragandinn að þessu öllu saman var“ (82), segir Þórir, 26 ára gamall lottókynnir, í upphafi – og það er alveg rétt að sagan sem á eftir fylgir er full af óvæntum uppákomum. Í samræmi við það er mun meiri áhersla á söguþráðinn hér en í fyrri sögunni og stíllinn minnir oft á hasarsögu – jafnvel hasarbíómynd frá Hollywood, því orðalagið er oft eins og tekið þaðan: „Allavega, nóg um það. Það er dauður maður hérna. [...] Án gríns. Steindauður. Eins og í látinn, ekki með lífsmarki, andaður“, segir sögumaður á einum stað (82). Þessi talmálsstíll með enskublæ er þó alls ekki ósannfærandi í frásögn 26 ára nútímamanns sem lifir og hrærist í afþreyingarmenningunni, og þráir að losna við svartholið í brjóstinu sem fylgir því að vera bara hversdagslega frægur; „óáhugaverð og fullkomlega dæmigerð tár-í-auga-trúðsins-týpa í íslensku sjónvarpi sem fáir þekkja andlitið á og enginn veit hvað heitir jafnvel þótt ég hafi verið á skjánum á prime-time á laugardagskvöldum í næstum þrjú ár“ (86).

Líkt og Sara verður Þórir fyrir upplifun sem túlka mætti sem dulræna; í draumi vitrast honum maður sem færir honum ljóð í stíl gömlu þjóðskáldanna. Hann á þó afar erfitt að ráða í merkingu þessarar vitrunar, og botnar lítið í ljóðinu sjálfu. Að lokum ákveður hann þó að ljóðið sé „skilaboð til þjóðfélagsins frá einhverju af stórskáldum fyrri tíma“ (98) og að hann verði að koma því á framfæri við þjóðina. Það reynist þó hægara sagt en gert í nútíma fjölmiðlaumhverfi og þegar það loks tekst er ljóðinu tekið eins og gríni eða hluta „af nýrri og mjög vel heppnaðri auglýsingaherferð“ (118) og gjammað  um það „eins og það væri ný Svalategund“ (122). Þórir stendur frammi fyrir því að hann hefur verið skilgreindur út frá því léttvæga hlutverki sem hann leikur í sjónvarpinu og að misræmið milli þess hlutverks og skilaboðanna sem hann vill koma á framfæri er of mikið; rétta persónan til að koma óræðum skilaboðum á framfæri við þjóðina í búningi gamaldags kveðskapar væri líklega gamalt skáld uppi í sveit.

Sögurnar tvær hafa því marga snertifleti: Í þeim báðum verður ungt fólk fyrir upplifunum sem bera yfirbragð merkingarþrunginna vitrana eldri tíma. Báðar sögupersónur koma þessum upplifunum á framfæri í gegnum nútímamiðla. En spennan milli þess sem verið er að miðla og miðlunaraðferðanna er of mikil; síbyljan dregur úr hefðbundnu gildi slíkra upplifana og mótar þær að sínum eigin, afþreyingarmiðuðu gildum. Sögupersónurnar missa þannig stjórn á þeim og hafa jafnframt áhyggjur af því hvaða áhrif fjölmiðlaumfjöllun hefur á stöðu þeirra í samfélaginu: „Kem ég út eins og fífl?“ spyr Sara (46) og Þórir hefur m.a. áhyggjur af því, og ekki að ástæðulausu, að einhver taki mynd af bílnum hans þegar hann leggur óvart í bílastæði fyrir fatlaða: „og að sú mynd gæti birst neðarlega á forsíðu næsta tölublaðs Séð og heyrt undir fyrirsögninni Lottó-Þórir svífst einskis eða eitthvað álíka“ (86-67). Niðurstaðan er óræð og duttlungum háð, eins og allt annað í okkar fjölmiðlaða heimi: Við erum öll, eins og Vince Vaughn, alls staðar og hvergi, kunnugleg og áhrifalaus. Leikir Söru og vinkvenna hennar á netmiðlinum Wikipedia sýna þó jafnframt að í nýju umhverfi felast nýir möguleikar þegar við tökum valdið til að skilgreina veruleikann í okkar hendur og stígum inn á almenningstorg okkar tíma á eigin forsendum.

„Vince Vaughn í skýjunum“ og „Hjartað er jójó“ eru skemmtilegar sögur; húmorískar og áhugaverðar pælingar um samtímann. Og það er fengur að slíkum sögum.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.