Minni og gleymska í samböndum fólks

Minni og gleymska og áhrif þess á mannleg samskipti eru grundvallarþættir í a.m.k. tveimur nýlegum bókum, Ráðskonunni og prófessornum eftir Yoko Ogawa og bókinni sem hér er til umfjöllunar, Áður en ég sofna eftir S.J. Watson. Þetta eru þó gjörólíkar bækur; Ogawa fjallar um þörf manna til að tengjast öðrum og hvernig þeir leitast við að yfirvinna samskiptaörðugleika. Watson býr hins vegar til spennusögu um það hvernig manneskjur geta blekkt og náð valdi yfir öðrum manneskjum sem hafa ekki forsendur til að dæma gjörðir þeirra í ljósi reynslunnar.

Söguhetja Watson, Christine, á við undarlegt minnisleysi að stríða sem virðist vera vegna áverka sem hún varð fyrir þegar hún var 29 ára gömul. Hún vaknar á hverjum morgni og man ekkert sem gerst hefur síðustu 18 árin og lítið af því sem gerðist þar á undan. Hún virðist lifa einföldu og einangruðu lífi með manni sínum sem hugsar um hana eftir bestu getu, segir henni hver hún er og útskýrir þær breytingar sem orðnar eru á heiminum frá þeim sem hún man. Fljótlega kemur þó í ljós að eitthvert rót er komið á tilveru hennar með tilkomu læknis sem hún hefur, að því er virðist, verið að hitta án vitneskju manns síns. Læknirinn hefur látið hana halda dagbók og með því að lesa hana getur Christine tengt saman atburði og séð samhengi á milli þess sem menn segja og gera. Sagan opinberast þannig Christine sjálfri í brotum sem hún reynir að púsla saman en hún áttar sig fljótt á því að hún getur ekki alltaf treyst því sem aðrir segja henni. Því er hún eins og lesandi sem þarf að treysta á óáreiðanlegan sögumann til að ná utan um persónur og atburði. Að sama skapi fylgir lesandinn Christine eftir og á við sömu vandamál að stríða við að átta sig á hvað er og hefur verið að gerast í lífi hennar.

Sagan er að mestu leyti afskaplega vel byggð þó að höfundur leyfi sér í lokin nokkrar einfeldingslegar lausnir til að hnýta erfiða þræði. Gátan er grípandi og Christine áhugaverð persóna sem maður vill fylgja og sagan á köflum mjög spennandi. Þetta er því í raun eins konar glæpasaga þó að lengi vel sé óvíst hver glæpurinn er eða jafnvel hvort nokkur glæpur hafi átt sér stað. Á hinn bóginn eru uppleggið og framvindan á köflum frekar ótrúverðug þó að höfundur segist hafa byggt á raunverulegum dæmum um minnisleysi. Afleiðing þess er að umfram það að veita lesanda spennu á meðan á lestri stendur hefur sagan mjög takmarkaða skírskotun til mannlegra aðstæðna almennt og sá heimur sem hún lýsir er mjög afmarkaður. Hið áhugaverða þema um minnið og áhrif þess á mótun persónuleikans og sambönd okkar við annað fólk hverfur í frekar æsifréttalega fléttu sem segir okkur ekkert mikið meira en það að fólk getur verið afskaplega vont hvert við annað. Þó svo að bók Ogawa um ráðskonuna og prófessorinn sem minnst var á hér að ofan lýsi líka frekar ólíklegum aðstæðum tengdum minnisleysi þá nær sú saga að hafa víðari skírskotun vegna áherslunnar sem þar er á persónurnar og sambönd þeirra, og fléttan sem skapast vegna minnisleysisins er í raun aukaatriði. Þetta á ekki við um bók Watson þar sem aðalpersónan Christine er ágætlega smíðuð en aðrar persónur eru óljósar og aðeins er á yfirborðslegan hátt reynt að takast á við þau vandamál sem upp koma í samböndum þeirra vegna minnisleysis hennar. Áður en ég sofna er því nokkuð spennandi, vel fléttuð afþreying en því miður ekki mikið meira en það.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.