Ljósmyndir uppspretta skáldskapar

Sagan segir frá unglingsdrengnum Jakob sem er alinn upp við ævintýralegar sögur afa síns. Þessum sögum fylgja ljósmyndir af skrítnum krökkum og trúir Jakob þeim mátulega. Þegar afinn deyr á voveiflegan hátt og furðulegir hlutir fara að gerast ákveður hann að ferðast til Englands til að læra meira um sögu afa síns og hvort eitthvað sé í raun til í þessum ótrúlegu sögum og undarlegu ljósmyndum. Þegar þangað er komið reynist raunveruleikinn mun furðulegri en hann hafði gert sér í hugarlund.

Heimili fröken Peregrine fyrir sérkennileg börn er sérkennileg bók. Hún sækir innblástur  frá gömlum ljósmyndum sem höfundur fékk að láni úr einkasöfnum fólks sem hafði hafði sankað þeim að sér á flóamörkuðum og bílskúrssölum víðs vegar um Bandaríkin. Myndirnar eru allar teknar af raunverulegu fólki við raunverulegar aðstæður, þótt ljósmyndablekkingum hafi verið beitt á nokkrar. Þær eru svo fléttaðar inn í skáldaða frásögn bókarinnar, og eru því undanfari frásagnarinnar í stað þess að vera viðbót eins og oftast á við. Persónur og atvik eru greinlega skálduð til að falla að skemmtilegum myndum og sagan látin laga sig að þeim frekar en öfugt. Stemningin verður þannig stundum óþægilega raunveruleg. Það reynir að vísu svolítið á trúverðugleikann að persónur bókarinnar skuli taka myndir í gríð og erg og hafa aðstöðu til að framkalla þær á afskekktri eyju á tímum síðari heimstyrjaldarinnar. Margar myndanna eru einnig greinilega teknar í ljósmyndastúdíói en ekki við þær aðstæður sem lýst er í bókinni. Vitneskjan hvaðan myndirnar koma dregur óneitanlega úr áhrifamætti þeirra, og svo hægt sé að lifa sig inn í söguna þarf að leggja þessa vitneskju til hliðar. En engu að síður er um skemmtilega og öðruvísi tilraun að ræða og sá heimur sem ljósmyndirnar fæða af sér er bæði flókinn og frumlegur. Sagan endar í nokkuð lausu lofti enda mun framhald vera á leiðinni. Það verður spennandi að sjá hvernig samspil ljósmynda og skáldskapar verður þar.  

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.