Leikið með þungavopn

Seinna Líbanonstríðið hófst 12. júlí 2006. Ég hafði aldrei heyrt um þessi átök áður en ég las bókina hennar Shani Boianjiu. Á þessum tíma var ég nítján ára í sumarvinnunni minni og átti bara eitt ár eftir í stúdentsprófið. Shani, sem er fædd sama ár og ég, var ekki í sumarvinnunni sinni, hún tók þátt í stríði. Hún og aðrir jafnaldrar mínir munduðu vopn og sprengjur á meðan ég mundaði í mesta lagi vísifingur til að vísa óþekkum krökkum út úr búðinni.

Verkið Fólkið frá Öndverðu óttast ekki fjallar samt sem áður ekki um stríð; það eru engar grófar lýsingar á limlestum fórnarlömbum eða þjóðrembuleg túlkun á aðstæðum, enda virðast konur, samkvæmt bókinni, ekki hafa verið sendar í átökin sjálf. Bókin fjallar einfaldlega um þrjár vinkonur sem eru kallaðar í herinn og hvernig sú reynsla mótar þær, breytir og skilur eftir ör ævilangt. Shani segir ekkert frá gangi stríðsins á vígstöðvunum heldur einbeitir hún sér að lífi herkvenna frá degi til dags þegar ekkert er að gera nema bíða eftir því að eitthvað gerist.

Vinkonurnar þrjár, Lea, Yael og Avishag eru venjulegar ísraelskar unglingstelpur sem slúðra um stráka, fara í partý og reyna að finna upp á einhverju að gera í þögla smábænum sem þær eru aldar upp í. Þær eru síðan kvaddar í herinn, enda er tveggja ára herskylda í Ísrael fyrir allar konur eldri en 18 ára. Þar gegna þær ólíkum hlutverkum: Lea er sett í herlögregluna og verður síðan yfirmaður þar, Yael er í landamæravörslu og leiðbeinandi í vopnaburði, líkt og höfundurinn, og Avishag í bardagalögreglunni.

Sagan skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn fjallar um hversdagslíf stúlknanna og lífið í hernum fram að stríðinu. Þar fáum við innsýn í þjálfun stúlknanna og sálarlíf. Annar hlutinn fjallar um dvölina í herbúðunum eftir stríðið, en Shani eyðir sem minnstum tíma í umfjöllun um stríðið sjálft, enda er það ekki þungamiðja verksins. Þriðji hlutinn fjallar um afleiðingar herskyldunnar þegar heim er komið, þar sem stúlkurnar reyna að finna sjálfar sig á ný.

Lea, Avishag og Yael fá allar að segja sína sögu, og frásagnirnar eru ýmist í fyrstu eða þriðju persónu. Auk þess fá nokkrar aukapersónur raddir í verkinu, mestmegnis flóttafólk eða hermenn hinum megin við línuna. Þetta getur orðið dálítið ruglingslegt, sérstaklega þar sem raddir stúlknanna eru nokkuð líkar og fyrir manneskju sem þekkir ekki til hernaðar þýðir lítið að vísa til mismunandi lita á húfum sem merki um mismunandi deildir.

Þessu verki er kannski betur lýst sem samansafni af atburðum en heildrænni, flæðandi frásögn. Sagan hefur upphaf og endi, og frásögnin virðist vera nokkurn veginn í tímaröð. Shani velur þó frekar að einbeita sér að einstökum atburðum og lýsa þeim í miklum smáatriðum, heldur en að reyna að lýsa lífinu í hernum á almennan hátt. Kaflinn „Meðul til að bæla niður mótmæli“ segir til dæmis frá því þegar þrír palestínskir mótmælendur koma að eftirlitsstöð Leu og biðja hana vinsamlegast að nota hernaðarvald gegn þeim, svo mótmælin fái fjölmiðlaathygli. Hún skipuleggur aðgerðir sínar í samstarfi við mennina. Samkvæmt skipunum á hún að bregðast við mótmælendum með „stigvaxandi hörku“ (187), sem hún gerir, áfram í samstarfi við mótmælendurna sjálfa, þegar þeir koma nokkra daga í röð því þeir fá enga blaðaumfjöllun. Lea notar hvellsprengjur, táragas og gúmmíkúlur á mennina, sem vilja að landamærin milli Palestínu og Ísraels verði opnuð. Þessi kafli er fullur af háði, eins og bókin öll, og höfundurinn leggur áherslu á mannlegu hlið átakanna með því að leyfa okkur að kynnast persónum beggja megin við línuna, líkt og í fleiri köflum bókarinnar.

Stúlkunum stafar svo gott sem engin lífshætta af dvölinni í hernum, eins og Yael segir: „Ef maður er strákur í hernum getur maður lent í að drepast. Hinn möguleikinn er að maður sleppi lifandi. Ef maður er stelpa og fer í herinn er ósennilegt að maður drepist. Maður getur lent í því að senda varaliðsmenn af stað til að deyja í stríðsátökum. Maður getur lent í því að bæla niður mótmæli við eftirlitsstöðvar. En það er ósennilegt að maður drepist“ (206).

Það þýðir samt ekki að dvölin skilji ekki eftir djúp spor. Þær upplifa mikið rof við raunveruleikann meðan á dvöl þeirra stendur; það sem þær og aðrir aðhafast er ekki í neinum tengslum við heiminn utan hersins. Skýrt dæmi er þegar Avishag skreppur í fóstureyðingu á milli vakta og kann að meta það að henni eru gefnir tveir valkostir við að eyða fóstrinu: „[...] ég er spennt af því að uppáhaldið í lífinu mínu er að fá að velja“ (91). Fólkið í hernum gerir nokkurn veginn það sem því sýnist, hvort sem það er að fá sér ísvatn beint í æð, sofa hvert hjá öðru eða leika sér með þungavopn, því „[s]vona virkaði herinn. Við vorum allar að drepa tímann“ (110). Þetta raunveruleikarof er rauður þráður í bókinni; stúlkurnar þrjár missa allar tökin, hver á sinn hátt. Þriðji hluti bókarinnar, þegar herskyldunni er lokið, er jafnframt sá grófasti. Þar er stefnt saman hinum ofbeldisfulla innri veruleika stúlknanna, sem markaður er óraunveruleika hersins, og hinum hversdagslega ytri raunveruleika, og í þessu uppgjöri eru stúlkurnar bæði gerendur og fórnarlömb.

Kannski hefur þessi bók meiri áhrif á mig því höfundur er jafnaldra mín. Ég gat ekki hætt að bera líf mitt saman við líf þessara stúlkna, og reyna að gera mér í hugarlund hversu frábrugðin tilvera mín væri ef ég hefði séð og upplifað eitthvað á borð við það sem þessar sögupersónur og hliðstæður þeirra í lifanda lífi hafa gert. Það er hrollvekjandi samanburður, enda fjallar bókin um staðreyndir sem við viljum ekki sjá og ekki heyra um. En þær eru órjúfanlegur hluti af lífi ungs fólks í Ísrael og víðar.

Fólkið frá Öndverðu óttast ekki er flókið verk og virkar jafnvel sem andleg hreinsun höfundar fremur en nokkuð annað. Það gerir verkið afskaplega persónulegt, þó það sé ruglingslegt á köflum, en tónninn skilar sér, gjöreyðingin skilar sér, tilfinningin skilar sér. Þó að lesandinn sitji eftir nánast með óbragð í munni er hann margs vísari um hinn nöturlega veruleika ungs fólks sem býr á þessum slóðum.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.