Haldið og sleppt - Gravity og óttinn við framtíðina

Hver hefur ekki látið sig dreyma um að komast út í geim? Ef ekki heimsækja aðrar plánetur þá láta sig reka í tóminu á milli stjarnanna? Hugmyndin er rómantísk en raunveruleikinn eins og honum er lýst í kvikmyndinni Gravity er allt annar og skelfilegri. Söguþráðurinn er ofureinfaldur: Geimfarinn Ryan Stone (Sandra Bullock) lendir, ásamt áhöfn sinni, í óhappi á sporbaug um jörðu og áhorfendur fylgjast með tilraunum hennar til að lifa af. Eins og þegar brak úr ónýtum gervihnetti eyðileggur geimskutluna og drepur áhöfnina, þegar samband við jörðu rofnar, þegar Ryan þeysist stjórnlaust út í geiminn, þegar stjórntæki hætta að virka og þegar loftið klárast. Við fylgjumst svo náið með að það er næstum því eins og við stígum með henni hvert þyngdarlaust fótmál. Flestar hasar- og/eða geimmyndir notast við þrívíddartæknina nú til dags en fáar ná þó að fanga áhorfendur jafn fullkomlega inn í atburðarrásina og Gravity gerir. Myndin er að miklu leyti tölvugerð en sú tækni er orðin það góð að áhorfendur verða aldrei varir við að ekki sé um alvöru heim að ræða. Löng og flókin – og óklippt – myndskeið auka svo enn á raunveruleikatilfinninguna.

 

Gravity _film _still _a _l

 

Gravity gerist í núinu. Lítið er vitað um fortíð persónanna og framtíðin er með öllu óráðin. Aðeins tvær persónur koma við sögu, fyrrnefnd Ryan  og Matt Kowalski (George Clooney), reyndur geimfari sem er ýmsum hnútum kunnugur. Nokkrar aðrar persónur eru að vísu til staðar en aðeins sem raddir í talstöð.  Myndin hvílir nær eingöngu á herðum Söndru Bullock og er hún fullkomlega starfinu vaxin. Það er vonandi að vinsældir þessarar myndar sýni og sanni fyrir Hollywood-framleiðendum að áhorfendur af báðum kynjum eiga ekki í neinum vandræðum með að fylgja konu eftir í spennumynd og setja sig í hennar spor. Konu sem er þar að auki ekkert unglamb lengur.

 

Gravity -2k -hd -trailer -stills -movie -bullock -cuaron -clooney -27

 

Líkt og í síðustu kvikmynd Alfonso Curaón, Children of men (2006), vomir ákveðið framtíðarleysi yfir persónunum. Í Children of men felst þetta framtíðarleysi í því að mannkynið er að deyja út. Börn eru hætt að fæðast og með þeim hverfur von mannkyns á  framtíðina. Þegar ung stúlka reynist með barni hefst kapphlaup meðal ólíkra hagsmunaaðila við beisla þessa von. Persónurnar í Gravity eru hins vegar án allra tengsla við mannkynið og framvindu á jörðu niðri. Bæði táknrænt og bókstaflega. Að auki hefur Ryan misst sína einu tengingu við framtíðina, fjögurra ára dóttir hennar lést í slysi og Ryan viðurkennir að hún var ekki lengur takti við umhverfi sitt löngu áður en hún yfirgaf jörðina. Líkt og í Children of men eru það hin mannlegu sambönd, og þau fyrirheit um framtíðina sem börn bera með sér, sem gefa lífinu gildi. En missir þeirra getur líka orðið orsök ómælds sársauka og þá verður freistandi að binda enda á þann sársauka með dofa, kulda og eilífum svefni. Sérstaklega þegar öll von virðist úti. Gravity er því fyrst og fremst mynd um mikilvægi þess að lifa af. Hvernig manneskjan tekst á við mótlæti og hvernig hún fer að því að finna styrk til að halda áfram. Sleppa tökum og láta sig berast út í óvissuna og vona það besta.

Tumblr _mv 4lpbb W9F1qduh 7lo 1_500

„Hún fjallar um endurfæðingu,“ sagði [Sandra] Bullock. „Hvernig sleppir þú tökum við verstu mögulegu aðstæður svo þú getir fundið fyrir létti og öðlast frið?“ Hún bætti við: „Lífið hættir aldrei að vera áskorun. Að lokum verður þú bara að segja: „Ég hef enga stjórn“.“

Úr viðtali í The New York Times

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.