Góð saga um hræðilega glæpi

Åsa Larsson er sænskur glæpasagnahöfundur, fædd í Uppsölum en alin upp í Kiruna – nyrsta bæ Svíþjóðar – sem einmitt er sögusvið fantagóðra og vinsælla glæpasagna sem Larsson hefur skrifað um lögfræðinginn Rebecku Martionsson. Bækurnar eru fimm talsins og allar hafa þær komið út á íslensku en fyrstu fjórar nefnast Sólgos, Blóðnætur, Myrkraslóð og Dauðadjúp. Sú nýjasta kallast Fórnargjöf Móloks en fyrir hana hlaut Larsson sænsku glæpasagnaverðlaunin. Um er að ræða hörkuspennandi, góða og manneskjulega sögu sem fjallar um vont fólk og ómanneskjulega glæpi – en líka um góða fólkið, ástina og umhyggjuna. „Morðgátan“ sem slík er ekki frumlegt viðfangsefni, hvað þá „komplexaða skandinavíska aðalsöguhetjan“ sem leysir hvern glæpinn á fætur öðrum, en það sem heillar við bókina er trúverðug persónusköpun, lipur texti og heillandi sögusvið. Þetta er án efa ein af bestu glæpasögum sem ég hef lesið í nokkur ár.

Þegar lesendur kynnast Rebecku Martinsson í fyrsta sinn í Sólgosi er hún vinnusjúkur lögfræðingur í Stokkhólmi og afskaplega upptekin af vinnunni en hún neyðist þó til að hugsa um annað þegar fortíðin eltir hana uppi með skelfilegum afleiðingum. Hún yfirgefur lögmannsstofuna og hið góða líf í Stokkhólmi og snýr aftur til bernskuslóða sinna, alla leið norður til Kiruna þar sem hún tekur að sér starf saksóknara. Í strjálbýlinu, kyrrðinni og kuldanum – að ógleymdri sánunni – ætlar Rebecka að finna frið en hún þarf þó að takast á við eigin innri djöfla auk þess sem glæpir, og það hrottalegir og afskaplega hættulegir, eru líka framdir í fámennum byggðarlögum. Rebecka reynir eftir megni að standa sig bók eftir bók – vinna vinnuna sína, koma glæpamönnum bak við lás og slá og takast á við fortíðina og sjálfa sig. Hún er viðkvæm en ansi seig söguhetja, oft við það að brotna saman en nær alltaf að tjasla saman nægilega mörgum brotum til að komast af, með naumindum þó.

Í Fórnargjöf Móloks er hún mun betur á sig komin andlega en í fyrri bókum. Hún hrekkur ekki lengur „upp við það að angistin stangaði hana að innan“ (19) og langar ekki lengur að kveikja í einhverju, „helst sjálfri sér“ (19). Hún reynir að sannfæra sjálfa sig um að hún hafi það „fínt“ en það er ekki laust við að lesandi óttist um velferð hennar. Larsson beinir athyglinni einnig að samstarfsmönnum Rebecku, þar á meðal lögreglumanninum og hundaþjálfaranum Krister, sem er illa farinn í andliti eftir bruna og dauðástfanginn af Rebecku, og rannsóknarlögreglukonunni Önnu-Mariu Korpi, sem er afskaplega einmana og þráir að eignast vinkonu. Larsson er lagin við að fjalla um flóknar tilfinningar og sagan sem hún hefur spunnið og tengsl helstu persóna í bókaflokknum eru trúverðug. Lesandinn fylgist af áhuga með hvernig sum bönd verða traustari bók eftir bók en önnur losna.

Fórnargjöf Móloks hefst á því að risastór og bleksvartur skógarbjörn er felldur og í maga hans finnast mannabein. Lögreglan blandast í málið, sem vitaskuld er flóknara en það virðist við fyrstu sýn. Nokkru síðar er kona að nafni Sol-Brit stungin til bana á heimili sínu. Til að byrja með beinist athyglin að mögulegum drykkjufélögum eða rekkjunautum konunnar en í ljós kemur að nokkrir ættingjar hennar hafa látist með grunsamlegum hætti. Sjö ára gamall sonarsonur Sol-Brit er enn á lífi og allt útlit er fyrir að líf hans sé í mikilli hættu.

Þessi flókna morðgáta tengist atburðum sem gerðust á svipuðum slóðum árin 1914 og 1915 og eiga rætur að rekja til þess þegar kennslukonan Elina Pettersen hitti ástina í lífi sínu í lest á leiðinni frá Stokkhólmi til Kiruna. Frá kennslukonunni, ástum hennar og örlögum á yngri árum er sagt í sérstökum köflum. Svo virðist sem höfundur hafi gætt sérstakrar natni við gerð þessara kafla og varpar þar meðal annars skýru ljósi á stéttskiptingu og aðstæður þeirra sem skipuðu lægri stéttir samfélagsins. Syndir og glæpir fortíðar tengjast nútímanum þar sem fleiri en einn þurfa að deyja. Allt tengist þetta því sem Larsson hugsaði á meðan hún skrifaði bókina: „að fórna barni fyrir velgengni, fyrir veraldleg gæði“, eins og segir í formála. Slíkt gera sögupersónur hennar í kringum 1915 þegar barn utan hjónabands var litið hornauga og oft dugði óstaðfestur grunur til að eyðileggja orðspor konu sem hafði ekki annað til sakar unnið en elska að mann. Þetta á líka við um söguna í nútímanum þar sem ástin er ekkert einfaldari en áður og mennirnir alveg jafn sólgnir í fé. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.