Ég er að fíla þessa bók: Frumlega ófrumleg ljóðabók

Þann 10. október síðastliðinn var sigurvegari Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar fyrir óprentað handrit að ljóðabók gerður kunngjörður en verðlaunin hafa verið veitt árlega frá 1994. Vinningshafinn að þessu sinni er Bjarki Karlsson fyrir handrit að sinni fyrstu ljóðabók, Árleysi alda. Bjarki er doktorsnemi í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, þar sem hann einbeitir sér að brag- og hljóðkerfisfræðirannsóknum, og menntaður kerfisfræðingur. Hann er jafnframt formaður Óðfræðifélagsins Boðnar og annar ritstjóri Skímu, málgagns móðurmálskennara. Öll ljóð bókarinnar, fyrir utan eitt, eru ort undir hefðbundnum bragarháttum og segir í umsögn dómnefndar að verkið sé í senn svo „ævafornt og svo módern að það verður alvarlega póstmódern“. 

Bjarki Karlsson

Bjarki Karlsson ásamt Elsu Hrafnhildi Yeoman, forseta borgarstjórnar, og Davíð Stefánsyni, formanni dómnefndar. Á myndinni er einnig Þuríður Rósa, dóttir Bjarka.

 

Kynnir sína eigin ljóðabagga

Í formálsorðum ljóðabókarinnar segist höfundur, ólíkt miklum meirihluta nútímaljóðskálda, kynna sína „eigin ljóðabagga og [kjósa] að binda þá ekki sömu hnútum og samferðarmenn [sínir]“ (5). Með öðrum orðum: Öfugt við mörg skáld gerir Bjarki Karlsson gjarnan grein fyrir tildrögum ljóða sinna, nefnir áhrifavalda á nafn og tiltekur, jafnvel útskýrir, form ljóðanna – ef honum finnst það auðga ljóðin. Hann notar bæði hástafi og greinarmerki, sem er ekki endilega sjálfsagt að brúka í nútímaljóðabókum og gerir það að auki í samræmi við settar reglur en ekki eftir smekk eða tilviljun. Að eigin sögn er hann ekki það sem við alla jafna köllum frumlegur en syndir þó stundum á móti straumnum, eins og þegar hann viðurkennir það í formála eins ljóðsins að þykja lúpínan falleg.

Allt kemur þetta fram í fyrsta ljóði bókarinnar, „Þúsaldarhætti“. Það er ort í anda heimsósómakvæða sem voru mjög móðins meðal evrópskra skálda á 16. og 17. öld. „Aldarháttur“ Hallgríms Péturssonar er eitt þekktasta heimsósómakvæði Íslendinga en það skiptist að efni í tvennt, samkvæmt venju, þar sem fyrst er fjallað um hina glæstu þjóðveldisöld og svo þá kúgun og volæði sem þjóðin bjó við í tíð Hallgríms undir oki erlends konungsvalds.

Bjarki fylgir fordæmi Hallgríms hvað varðar stuðla, dýrleika og erindaskipan en lætur fornar kenningar þó að mestu eiga sig fyrir utan að greina frá randbítum skjalda, þ.e. þeim sem bíta í skjaldarrendur. Efnið er hið klassíska viðfangsefni heimsósóma en um leið nútímalegt: Samanburður á íslensku samfélagi fyrir og eftir efnahagshrunið 2008. Góðærið var gott, eins og lesa má:

Í góðæristáli var troðinn hver skáli af töfrandi krásum
með nautnum og prjáli af neyslunnar máli úr nægtarútrásum
og virkjað af brjáli svo ver fylltust áli og varla með pásum.
Skipti ekki máli að skemmdirnar káli skrimtandi gásum (8)

Á þessum tíma var lítil sem engin „krísa í landinu þvísa, sem ljúft er að geta“ (8) og hallirnar risu „sem himna til vísa“ (8) en svona gat þetta ekki gengið endalaust og skyndilega „bilaði spottinn og botninn var dottinn úr ballinu hressa“ og „ei vildi Drottinn (sem er víst svo gott skinn) Ísaland blessa“ (9). Þá tekur við seinni helmingur heimsósómans þar sem „[á]hyggjur nagast og ólmast í örbirgðardrunga“, „velferðarbrúin er brotin og fúin og brestir í stokki“ og á meðan er „þjóðin lúin“ og allt í hreinu „helvítis fokki“ (11).

 

Hvað ef …

Bjarki nýtir sér óspart verk annarra skálda og beitir því skemmtilega bragði í kvæðabálkinum „Afavísur í 1100 ár“ að ímynda sér að þjóðskáld vor hefðu gert ferðalagi afa, sem fór eins og kunnugt er á honum Rauð eitthvað suðrá bæi, skil í kveðskap sínum. Með þetta í huga yrkir hann upp þekkt kvæði. Þannig verður hið þekkta „Nóttin var svo ágæt ein“ eftir Einar Sigurðsson kvæði um afa minn sem „var ágætt skinn“ og „átti rauða gæðinginn / sem ljúfur eins og lausnarinn / leiddi hann suður á bæi / ,:Með máli þessum sá vil eg helgu fræi:.“ (18). Þá er ekki ort um augað mitt og augað þitt heldur er hinn góði afi kominn í þeirra stað:

Afinn minn og afinn þinn,
ó, sá góði maður,

fór að beisla fákinn sinn
fjarka velviljaður. (23)

En það eru ekki allar vísurnar svona jákvæðar og hér hafði Bjarki sjálfan Bólu Hjálmar í huga:

Ælir og drullar afi minn á aumu hrossi,
hirtir þræl með hakakrossi,

heimskur og ragur sveitatossi.

Brauði rænir, bísar sykri, blauður melur.
Við saurlífi og syndir dvelur,
sínu af hvoru tagi stelur. (24)

 

Um ömmur, Anjelínu Djóli og aðrar fegurðardrottningar

Afi bjó ekki einn. Hann bjó á Bakka með henni ömmu og fram kemur að á meðan afi „andskotast á Rauð / úti í nepju og nauð / að ná í sætabrauð“ bíður hún, barin og blá, „ómegð hjá, / krílin kveisur hrjá, / krummi hlær á skjá“ (29).

Nánar greinir svo frá búsorgum og örlögum ömmu í hinu dapurlega – en um leið stórkostlega fyndna – ljóði „Einn afar sorglegur flokkur um það grátlega kynjanna misrétti sem forðum tíðkaðist og þekkist því miður enn“. Þar greinir frá því að á meðan afi fór eitthvað suðrá bæi var hún amma heima að skúra og þvo, búa til brauð, sjóða oní börn, vinna og staga. Lok datt svo amma niður dauð af starfsálagi á meðan afi skottaðist suðrá bæi.

En það er ekki aðeins amma gamla sem er Bjarka Karlssyni innblástur, það eru líka þokkagyðjur á borð við Jennifer Lopez, Angelinu Jolie og Miley Cyrus. Um þær – og fleiri gyðjur – má fræðast í kvæðaflokknum „Ungfrú Ísland“ þar sem taumlaust grín er gert að þeirri tímaskekkju sem fegurðarsamkeppnir eru. Og það er ljóst af lestrinum til hvers er ætlast – og hvers ekki – af þátttakendum í keppninni Ungfrú Ísland:

Seytján vetra séu tetrin gömul,
sinaber og mittismjó;
málin veri smá um þjó.

---

Með silíkon er sigurvon í brjósti
eykst þá prúðum svanna séns
séu púpar ei frá Jens.
Höldar vansa hafa trans- af konum,
síst má ungfrú undir spjör
ala pung og tilbehör. (46)

Fegurðardrottningar eru heillandi kvendi en það jafnast þó ekkert á við að elska góða konu eins og ort er um í „Ég er ekki að skilja (ást í framvinduhorfi)“ sem byrjar svona:

Ég er ekki að skilja í mér ég finn
er þó að gruna þetta um sinn:

að þú sért að melda þig mjög hjá mér inn.
Mér er að lítast á þig (48).

Ljóðmælandi, væntanlega ungur karlmaður sem er ekki mjög vel að sér um íslenska tungu, lýsir yfir ást sinni á ungri konu. Í upphafi er hann ekki að skilja hvað sé í gangi en veit þó að honum er að lítast á hana. Óvissan minnkar með hverju erindi og allt blæs út í fjórða erindi með mikilli ást:

Er ég að vera að vera þér hjá
og vera að faðma þig, hjala og kjá
er ég loks að fatta hvað ég er að spá:
ég er að elska þig (48)

Hámarkinu er svo náð í lokaerindinu, ljóst er að parið er að fíla sig saman og erindið endar svo: „Við erum að líða um aldanna skaut. / Ég er ekki að skilja – við þig“ (48).

Við verðlaunaafhendinguna á Höfða flutti Jón Ólafsson frumsamið lag við þennan texta Bjarka við mjög góðar undirtektir viðstaddra en Jón sagðist þó hafa efasemdir um að gefa lagið út þar sem fólk gæti haldið að honum fyndist í lagi að tala eða syngja í framvinduhorfi.

 Jón Ólafs

Jón Ólafsson flytur frumsamið lag við ljóð Bjarka, „Ég er ekki að skilja (ást í framvinduhorfi)“.

 

Ýmislegt fleira …

Margt fleira má tína til sem hefur orðið Bjarka Karlssyni innblástur og ratað í bók hans. Til að mynda er ort um það sem gerist á bak við tjöldin í Kardimommubæ – en þar reynist Bastían bæjarfógeti segja grófa brandara og fara með klámvísur! Því er líka velt upp hvernig hefði farið ef Egill Skallagrímsson hefði kynnst limru en ekki runhendu. Þá er ort um haustið – sem skáldinu finnst miklum mun betri árstíð en vor og sumar sem færa manni ekkert nema frjókornaofnæmi og leiðindi. Að lokum er vert að minnast á að meira að segja Júróvisjón – með Jóhönnu Guðrúnu í broddi fylkingar – fær einnig sinn hlut.

Árleysi alda var valið úr hópi 46 handrita en valið var ekki auðvelt, að sögn formanns dómnefndar, Davíðs Stefánssonar. Með honum í dómnefnd sátu Sigurbjörg Þrastardóttir og Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir og í umsögn dómnefndar kemur fram að í bókinni sé að finna óvenju vel heppnaða blöndu af „húmor, fornum bragarháttum og samfélagsádeilu“ en þetta sé þó „fyrst og fremst skemmtilegt handrit aflestrar – en um leið lífsins alvara að því leyti að höfundur gefur aldrei nokkurn afslátt af þeim skáldlegu kröfum sem hann gerir augljóslega til sjálfs sín.“ Þá segir að það sé líkt og höfundur taki sér svipaða stöðu og hirðskáld eða höfuðskáld til forna og yrki um samtíma sinn á fjölbreyttan hátt, auk þess sem handritið snúist í raun „í kringum leik með gamla bragarhætti og tilfinningin er sú að hin mikla þekking sem höfundur hefur á þeim hafi knúið hann til að nota þá“.

Bjarki Karlsson staðfesti þessar getgátur dómnefndar í þakkarorðum sínum en þar sagði hann hina fornu bragarhætti vera sér nauðsynlega til að geta sagt vel það sem hann vill segja. Verðlaunin sagði hann vera mikinn persónulegan heiður fyrir sig en jafnframt staðfestingu á gildi og verðmæti hinna fornu braga. Í heildina litið er Árleysi alda nýstárlega gamaldags ljóðabók þar sem ófrumlegu formi er beitt á frumlegan hátt svo úr verður nokkuð alveg hreint frábært. Þetta er bók sem ég er virkilega að fíla – en nákvæmlega svona myndi ég ekki taka til orða um nokkra aðra bók.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.