Tvöfalt afmæli – tvöfalt morð ... hægt og rólega

Titill skáldsögu Håkans Nesser, Manneskja án hunds, segir afskaplega lítið um innihaldið. Bókin fjallar hvorki um mann sem ekki á hund né mann sem saknar hunds. Þetta er hins vegar titill á skáldsögu sem ein af fyrirferðameiri persónum bókarinnar, „Rúnk“ Róbert Hermansson, hefur unnið að árum saman og lætur eftir sig, ókláraða, þegar hann er myrtur. Þetta gerist þegar hann er í heimsókn hjá foreldrum sínum í Kymlinge í tilefni af 65 ára afmæli föðurins, hins sjálfumglaða Karls-Eriks, og 40 ára afmæli elstu systurinnar, Ebbu. Fjölskyldan á bágt með að trúa því að Róbert sé horfin og sumir fjölskyldumeðlimir trúa því varla að Róbert sé að kalla á meiri athygli. Nóg var samt þegar hann tók þátt í raunveruleikaþættinum Fangarnir á Koh Fuk og fékk hið smekklega viðurnefni sitt. Öllu verra er svo þegar fyrirmyndarunglingurinn og lögfræðineminn, sonur Ebbu og eiginmanns hennar, hverfur strax næsta kvöld.

Það er ekki fyrr á blaðsíðu 172 sem það er formlega viðurkennt að frændurnir tveir séu horfnir og á næstu síðu, í upphafi nýs kafla, er aðalsöguhetja bókarinnar – og raunar aðalpersóna nýs fimm bóka flokks – kynnt til sögunnar. Þótt það hafi verið áhugavert að lesa um sérlega óhamingjusama, ófullnægða og þreytandi Hermansson fjölskylduna er ekki laust við að það sé eins og ferskur andblær að kynnast hinum sænsk-ítalskættaða Gunnari Barbarotti sem er meira að segja óvenju lítið þunglyndur og drykkfelldur af skandínavískri aðalsöguhetju í glæpasögu. Hann er að vísu fráskilinn en á þó góða og blíða dóttur sem býr hjá honum auk tveggja sona sem búa hjá eiginkonunni fyrrverandi, sem er eins ágæt og fyrrverandi eiginkonur geta verið.

Gunnar Barbarotti fer að vasast í mannshvörfunum tveimur. Hvað gerðist og hvers vegna, hverjum er um að kenna og tengjast málin eitthvað fyrir utan að um er að ræða nær ókunnuga frændur? Eftir dúk og disk kemst lesandinn svo að því, löngu á undan lögreglumanninum, að um morð sé að ræða, og hann er líka löngu búinn að finna út úr því hver morðinginn er áður en Gunnar hefur nokkra glóru. Þá er líka töluvert langt þar til um það bil 490 blaðsíðna bókinni er lokið. Til allrar lukku grípur ein hinna fyrirferðameiri persóna bókarinnar til sinna ráða og síðustu kaflarnir eru því ansi hreint spennandi – þótt það sé löngu orðið morgunljóst hvernig sagan muni enda.

Þó svo að þessi lesandi hafi verið orðinn ansi ringlaður og farinn að halda að hann hefði lesið skakkt aftan á bókina, þar sem fullyrt er að sagan fjalli um lögreglumanninn Gunnar Barbarotti, verður að viðurkennast að Hermansson fjölskyldan er það áhugaverðasta við bókina og ein skemmtilegasta persónan er sú sem fyrst er kynnt til sögunnar, Rosemarie Wunerdelich Hermansson, þýskættaður handavinnu- og þýskukennari sem er nýfarin á eftirlaun, finnst það gjörsamlega lamandi leiðinlegt og getur ekki hugsað sér nokkuð verra en flytja til sólarlanda með eiginmanninum. En það er einmitt það sem hún er að fara að gera. Og hún er svo þreytt á þessu hjónabandi sem hún hélt að „mundi þroskast smámsaman með tímanum, en það gerðist aldrei. Það var myglað frá byrjun og varð bara myglaðra með hverju árinu“ (16). Rosemarie á sér þann draum heitastan að drepa Karl-Erik og lesandinn vonar að um það morð snúist sagan en svo er því miður ekki, karlfauskurinn er sprelllifandi alla bókina út í gegn en það dregur sífellt af Rosemarie sem undir lokin þarf að styðjast við gleðipillur til að lifa daginn af, ásamt slatta af víni.

Manneskja án hunds er áhugaverð saga en ekki nógu spennandi, lofar góðu en stendur ekki undir væntingum og er of lengi af stað þó svo forsagan sé mjög áhugaverð. Aðalpersónan sjálf nær aldrei að vera nógu „aðal“ til að skipta raunverulegu máli og því ef til vill ágætt að þetta sé fyrsta bókin í fimm um þennan ágæta lögreglumann. Það er þá nægur tími til að kynnast honum síðar.  

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.