Það sem umbyltir lífinu

Í trúnaði, fyrsta skáldsaga hinnar frönsku Hélène Grémillon, hefst árið 1975 og í upphafi sögu fullyrðir sögumaður, Camille, að „fátt sé betur til þess fallið að umbylta lífi manns en móðurmissir“ (11). Í tilfelli Camille er þessi fullyrðing dagsönn og dauði móðurinnar markar upphaf þessarar sagnfræðilegu og dramatísku skáldsögu. Loksins fyllist pósthólf Camille af einhverju öðru en ruslpósti og innihaldslitlum póstkortum; það er troðfullt af samúðarkveðjum en eitt umslagið er öðru vísi en öll hin. Það er bæði þykkara og þyngra og reynist vera handskrifaða bréf frá manni að nafni Louis sem hafði verið aðskilinn frá ástinni í lífi sínu, Annie, á árunum fyrir heimsstyrjöldina síðari.

Camille starfar hjá útgáfufyrirtæki og dettur jafnvel í hug að þetta sé frumleg leið höfundar til að fá bók sína útgefna; eða að bréfið hafi verið sent á vitlausan stað. Svo reynist þó ekki vera og viku síðar fær hún annað bréf, og svo annað og annað …

Á sama tíma og Camille tekst á við dauða móður sinnar og sjálfsmorð föður síns, mörgum árum áður, ásamt þeirri staðreynd að hún er ólétt og ekki í sambandi við barnsföðurinn, les hún um það hvernig ástin læðist aftan að Louis, í litlu frönsku þorpi árið 1933, þegar hann er aðeins tólf ára gamall:

Flestir verða ástfangnir af manneskju við að sjá hana, í mínu tilfelli læddist ástin aftan að mér. Annie var ekki viðstödd þegar hún tók yfir líf mitt. Ég var á tólfta ári, Annie var tveimur árum yngri en ég, rétt tæpum tveimur árum yngri (17).

Á sama tíma og Louis elskar í laumi og rífur borða úr hári Annie svo hún elti hann um leikvöllinn aflar Hitler sé aukins fylgis í Þýskalandi og bráðum verður ekkert eins og áður. En í huga Louis eru hann og Annie, hljóðláta stúlkan sem veit ekkert betra en að mála, miðja alheimsins og þessi barnslega ást endist ár eftir ár á meðan Hitler og hermenn hans færast sífellt nær París.

Sakleysið endist þó ekki ævina út í gegn. Annie vingast við ríkt og ófrjótt par sem flytur í þorpið á svipuðum tíma og hermenn Hitlers ráðast inn í París og þau notfæra sér hana til að eignast barn. Camille lærir líka að ef til vill var Annie ekki eins saklaus og hún leit út fyrir að vera. Hún les um sorgir og siðferði, ástir og hefnd, reynir að finna út hvers vegna Louis sendir henni þessi bréf og gerir sér að lokum  grein fyrir því að hennar eigið líf gæti verið efni næsta kafla þessarar átakanlegu sögu.

Í trúnaði er flókin skáldsaga; samskipti persóna eru snúin, flakkað er fram og til baka á tímabilinu frá 1933 til 1975 og inn í sögu persónanna fléttast saga síðari heimsstyrjaldar. Hér er saga inni í sögu, saga þar fyrir innan, utan um og allt í kring og allar tengjast þær með einum eða öðrum hætti þótt sum tengslin séu til að byrja með ósýnileg. Bókin er geysivel skrifuð og raddir allra sögumanna, Camille, Louis, Annie og hinnar óhamingjusömu madame M., fá að njóta sín á þann hátt að lesandinn finnur til með þeim um leið og hann ásakar þær. Í trúnaði er hádramatísk saga og heillandi – skáldsaga sem virkilega erfitt er að leggja frá sér.

                                        

 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.