Sundurtættar hugsanir kvenna – um karla

Boris er orðinn leiður á eiginkonu sinni og hjónabandinu, enda búinn að húka í því í 30 ár, og biður um pásu. Hann hefur það ágætt og er búinn að finna sér unga og fagra konu til að eyða tímanum með en Mía, eiginkona hans og aðalsöguhetja skáldsögunnar Sumar án karlmanna, bregst við með því að bæði missa vitið og tapa glórunni. Hugsanir hennar „tættust í sundur, rákust saman og geystust stjórnlaust hver um aðra þvera eins og poppkorn í örbylgjuofni“ (9). Eftir tveggja vikna legu á geðdeild og ósköp af geðlyfjum hefur Mía jafnað sig nógu mikið til að geta tekist á við hjónabandið – eða öllu heldur pásuna – og hún ákveður að fara „heim“ – til bernskuslóða sinna í smábæ í Minnesota þar sem mamma gamla býr og hún sjálf, sem er nú einu sinni verðlaunaljóðskáld, fær að kenna unglingsstúlkum ljóðlist.

Mía unir sér ágætlega í Minnesota, eða eins ágætlega og kona í ástarsorg er fær um, og fjallar Sumar án karlmanna um það hvernig hún endurskoðar eigið líf og verðmæti þess. Um leið segir frá móður hennar og vinkonum móðurinnar á elliheimilinu, unglingsstúlkunum á ljóðanámskeiðinu og ungu, einmana móðurinni í næsta húsi. Allt eru þetta konur án karlmanna: Boris fór frá Míu, karlarnir dóu frá gömlu konunum, unglingsstúlkurnar eru varla farnar að eiga vitræn samskipti við hitt kynið og unga móðirin í næsta húsi á eiginmann sem ferðast einhver ósköp (sem er raunar ágætt, hann er bölvaður fauti).

Sumar án karlmanna fjallar um tengsl á milli fólks – tengsl sem eru til staðar, voru það eitt sinn eða eru kannski uppspuni. Sum tengsl eru hreinn misskilningur, jafnvel lygi. Sum eru til góðs, önnur til ills. Í þeim öllum er að finna drauma, þrár og átök kvennanna og um leið og Mía hlustar á sögur kvennanna og fylgist með þeim endurskoðar hún eigið líf og gildi þess sem hún telur skipta sig máli. Mía sér sjálfa sig í konunum sem hún hittir. Sjálfri var henni miskunnarlaust strítt á unglingsárunum – eins og einni stúlkunni í ljóðahópnum – og þurfti að sjá af eigin framadraumum vegna eiginmannsins og móðurhlutverksins. Nú er Boris farinn og Mía sér fyrir sér að enda eins og mamma sín og gömlu konurnar í þjónustuíbúðunum.

Sumar án karlmanna er „kvennasaga“ en hún er engu að síður morandi í karlmönnum sem teygja sig inn á nær hverja síðu, í hverja hugsun sögupersóna og hafa – og hafa haft – afgerandi áhrif á líf þeirra. Og ekki er hún frumleg sem slík. Sagan um miðaldra manninn sem yfirgefur dyggu eiginkonuna fyrir ungu, fögru hjákonuna hefur verið sögð aftur á bak og áfram. Það hefur líka verið skrifað um kúgaðar eiginkonur, einmana ekkjur og hormónatrylltar unglingsstúlkur.

Það sem heillar við þessa karlfullu kvennasögu eru ekki sögurnar sjálfar heldur frásagnarformið. Sagan er uppfull af þversagnakenndum tilfinningum, óröklegu hugsanaferli og hvað eftir annað er brotið upp á formið – meira að segja með teikningum. Framsetningin er í takt við óreiðukenndar tilfinningarnar og hér mætti gjarnan grípa til frasa á borð við „kvenlegt flæði“ í skáldlegri sköpun. Oftast tekst Siri Hustvedt vel upp en ég er ekki frá því að mér finnist hin listræna framsetning stundum helst til langdrengin og yfirdrifin. Þrátt fyrir að vera vel skrifuð bók þykir mér Sumar án karlmanna allt að því klisjukennd á köflum, eins og hin brotakennda og flæðandi frásögn séu tilraun til að fela skort á dýpt í sjálfri fléttu sögunnar og persónusköpun.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.