Sjarmi eins og í gömlu píanói

„Ástin er það sem þú vilt að hún sé,“  segir í verkinu Blik sem leikhópurinn Artik frumsýndi í Gamla bíói síðastliðinn sunnudag. Leikritið er eftir breska leikskáldið Phil Porter í þýðingu Súsönnu Svavarsdóttur og hefur verið lýst sem myrkri, óvenjulegri og skondinni ástarsögu. Alls verða sýndar fjórar sýningar í Gamla bíói en lokasýningin verður sunnudaginn 15. september. Blik (BLINK á frummálinu) er nýtt verk en það var frumsýnt á Edinborgarhátíðinni í ágúst 2012 þar sem það hlaut góðar viðtökur.

„Þetta er síðasta verkið sem sýnt verður í Gamla bíói áður en það verður leigt undir starfsemi Borgarleikhússins,“ segir leikstjórinn, Unnar Geir Unnarsson en leikarar er Jenný Lára Arnórsdóttir og Hafsteinn Þór Auðunsson. Grímur Gunnarsson sér um tónlist í sýningunni. „Ég hef alltaf verið heillaður af sal Gamla bíós sem leikhússal,“ segir Unnar Geir. „ Hann hefur gamaldags, klassískt yfirbragð sem  hjálpar við að halda utan um þennan heim, gera hann breskari.“ Verkið hefur ekki verið staðfært enda segir Unnar Geir að það myndi ekki virka því efnistökin eru of tengd bresku samfélagi.

„Kveikjan að valinu er sú að Jenný hefur alltaf haft áhuga á nýjum breskum verkum, sérstaklega þeim sem flutt hafa verið á Edinborgarhátíðinni. Það tók mig hins vegar þó nokkurn tíma að samþykkja þetta verk. Blik er ekki leikrit sem maður samþykkir einn, tveir og bingó. Þetta er vissulega ástarsaga en þó ekki eins flestar ástarsögur því hún fer ekki hefðbundnar leiðir. Leikritið virkar skrítið þegar maður er bara með orðin á blaði fyrir framan sig en um leið og maður fer að kynnast persónunum fer maður að skilja hvernig þau bregðast við aðstæðum. Ef maður þekkir og skilur karakterana verður verkið fyndið og heimspekilegt. Ef maður gerir það ekki verður það sorglegt og kjánalegt. Vonandi skilar það sér í uppfærslunni. Þegar við fórum að æfa og segja setningarnar komumst við að því að verkið er meinfyndið og þegar tónlistin bættist við kom litur inn í sýninguna þannig að karakterarnir urðu skyndilega fólk sem þú vildir kynnast.“ Unnar Geir segir leikritið búa yfir nokkurs  konar „indý sjarma“. „Það er svolítið eins og bresk útgáfa af Amelie; með breskum húmor en samt sjarma eins og í gömlu píanói.“

 

Bliklitil

 

Þetta er önnur uppfærslan sem leikhópurinn Artik stendur fyrir. „Við Jenný Lára stofnuðum Artik en upphafið að samstarfinu var uppfærsla á Hinum fullkomna jafningja eftir Felix Bergsson sem sett var upp í nóvember 2012 á Norðurpólnum.“ Unnar  Geir sá um leik en Jenný  leikstýrði – öfugt við fyrirkomulagið nú. „Það er í okkur báðum að við vitum ekki í hvorn fótinn hvið eigum að stíga. Hvort við eigum að vera leikstjóri eða bara leikari – eða hvort við náum að sameina þetta tvennt.“ Seinna bættist svo Hafsteinn við hópinn.  Þríeykið kynntist í leiklistarskólanum KADA (áður ASAD), eða Koga Academy of Dramatic Arts, þar sem þau voru öll í námi, þó ekki á sama ári. Hafsteinn menntaði sig í leiklist en Unnar Geir og Jenný Lára lærðu bæði leik og leikstjórn. „Það er heilmikið bras að setja upp sýningar  á eigin spýtur. Það hefði aldrei gengið ef við hefðum ekki gott fólk til að hjálpa okkur. Uppfærslur á borð við Blik kosta jafnan tugi milljóna en við náum að gera þetta fyrir töluvert lægri upphæðir.“ En eru þau þá ekki að leggja í töluverða áhættu? „Jú, þess vegna erum við hæglát og förum varlega í verkefnin. Metnaðurinn fer í vinnuna frekar en stærðina. Við setjum orkuna og tímann í að vinna sýninguna og halda hinu innan skynsamlegra marka. Við lítum á þessa vinnu og þessa menntun sem fjárfestingu til framtíðar – og erum meðvituð um að það tekur tíma að fá borgað til baka.“

Sýningartíminn á Bliki í Gamla bíó er knappur – aðeins ein vika – en Unnar Geir segir þetta vera sýningu sem auðvelt sé að setja upp annars staðar. „Við erum aðallega að láta heyra í okkur og kynna fyrir fólki fyrir hvað við stöndum áður en við ráðumst í stærri verk.“ 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.