Í sól og sumaryl eru framin morð

Svikalogn, eða I de lugnaste vatten (2008) eins og sagan heitir á frummálinu, er frumraun hinnar sænsku Vivecu Sten á sviði glæpasagna og er fyrsta bókin í röð bóka sem allar gerast á eyjunni Sandham í Svíþjóð en þar hefur höfundurinn einmitt dvalið öll sumur síðan árið 1977. Á Sandham búa aðeins um 120 eyjaskeggjar en á sumrin leggja 3000 sumargestir eyjuna undir sig og eyjan er einna þekktust fyrir að vera skútumiðstöð Svíþjóðar og heimili hins konunglega sænska skútufélags (KSSS). Sumargestir, skútur, sól og sumarylur koma mikið við sögu í Svikalogni.

Vivecea Sten hefur verið kölluð hin nýja Camilla Läckberg eða hið minnsta verðugur keppinautur hennar, enda eru þær báðar sænskir glæpasagnahöfundar sem skrifa sögur sem gerast á ákveðnum, afskekktum stað í Svíþjóð og fjalla um par sem leysir glæpinn. Í Svikalogni eru það æskuvinirnir Thomas Andreasson, lögreglumaður, og vinkona hans, lögfræðingurinn Nóra, sem deila sviðsljósinu með glæpamönnum og fórnarlömbum þeirra.

Sagan byrjar á fremur ógeðfelldan hátt. Á ströndinni í Sandham er maður úti með hund sinn þegar hann finnur skyndilega megnan óþef og í fjörunni liggur eitthvað:

Hann beygði sig niður til að bægja hundinum frá og sá þá að þetta var gamalt fiskinet fullt af slýi, þara og þangi. Allt í einu áttaði hann sig á því hvað þetta var.

Út úr öðrum enda netsins stóðu tveir berir fætur. Á þá vantaði flestar tærnar. Kjúkurnar voru það eina sem stóð út úr því sem eftir var af grænleitu skorpnu holdinu.

Honum varð skyndilega óglatt. Og áður en hann fékk við neitt ráðið umhverfðist maginn í honum. Bleik gusan stóð út úr honum. Hún slettist á skóna hans án þess að hann tæki eftir því (10).

Lögreglan er kölluð til og þar með er úti um sumarleyfi rannsóknarlögreglumannsins Thomasar Andreasson sem hafði ætlað sér, eins og vant er, að eyða sumrinu í og í kringum Sandham. Thomas er fjallmyndarlegur maður milli þrítugs og fertugs, „verulega herðabreiður og stæltur eftir margra ára handboltaiðkun“ (24), með ljóst hár og blá augu og heilir níutíu og fimm sentimetrar á hæð. Thomas er einkar viðkunnanleg persóna. Hann er jákvæður, bóngóður, duglegur og nokkuð skemmtilegur þótt hann sé enginn trúður og deili fáu persónulegu með vinnufélögunum. Annars myndi honum væntanleg fyrirgefast eitthvert fálæti þar sem ekki er mjög langt síðan þriggja mánaða dóttir hans og þáverandi konu hans, Helenu, dó vöggudauða. Í kjölfar andláts Emiliy litlu skildu hjónin en þegar sagan hefst er Thomas búinn að ná sér þokkalega eftir áfallið og í bókinni virðist jafnvel örla á upphafi nýs ástarsambands. Lesendur fá væntanlega að fylgjast með þróun þess sambands í næstu bók og sömuleiðis með hjónabandserjum Nóru, bestu vinkonu Tómasar, og eiginmanns hennar, Hendriks, sem er óþarflega stjórnsamur og fær litla samúð lesenda. Nóra reynir eftir megni að vera til staðar fyrir Thomas og kemur honum til þónokkrar aðstoðar við lausn glæpsins – og lendir sjálf í miðri hringiðu hans og í sannkallaðri lífshættu.

Rúmri viku eftir líkfundinn á ströndinni finnst annað lík á gistiheimili í eynni og ekki löngu síðar rekur annað lík á land, það sem eftir er af ólánsömum eyjaskeggja. Sagan fer hratt af stað og rígheldur athyglinni og jafnvel þótt ég hafi getið upp á hinum raunverulega morðingja alltof, alltof snemma var bókin þrælspennandi auk þess að vera skemmtilega skrifuð og lipurlega þýdd. Sögusviðið skemmir heldur ekki fyrir. Það er gaman að lesa um sólbrúna Svía sem sigla um fjörðinn á skútunum sínum, háma í sig nýveiddan fisk og baða sig í sjó og sól á milli þess sem morð eru framin og morðmál eru leyst. Heilmikið púður fer í að kynna helstu persónur og leikendur til sögunnar, enda um að ræða fyrstu bókina af tíu í Sandham-seríunni en nú þegar eru sex bækur komnar út á sænsku. Camilla Läckberg má sannarlega vara sig því miðað við Svikalogn er Viveca Sten bæði betri penni en landa hennar Läckberg og flinkari að búa til spennandi fléttu. Ég bíð spennt eftir næstu íslensku þýðingu.                                                                                                                                     

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.