„Getur ein manneskja borið aðra?“

Þegar dagurinn hörfar í dimmu
Varastu víkina grimmu
Sama hvað vindurinn lemur
Því börnin á bænum þau éta allt
Mannakjöt bæði heitt og kalt
Hvað sem að kjafti kemur

Gömul vísa, höfundur óþekktur

Börnin í Dimmuvík eiga ekki sjö dagana sæla. Ef satt skal segja er ekki að sjá að þau hafi upplifað einn sælan dag á sinni fremur ömurlegu ævi. Í upphafi sögu situr gömul kona í kirkju, í jarðarför bróður síns, og rifjar upp hið örlagaríka ár 1930 þegar hún var tólf ára gömul og ástandið á æskuheimilinu fór úr slæmu yfir í skelfilegt.  Ljóðið hér fyrir ofan er notað sem tilvitun fremst í bókinni og nokkurs konar einkunnarorð fyrir söguna. Lífið á smábæjum fyrr á öldum var oft djöfullega erfitt og hungur, beinkröm og ungbarnadauði hluti af hinu daglega lífi. Mörk þess sem sveipað var bannhelgi áttu það til að mást út þegar ástandið varð nógu slæmt. En ólíkt ljóðinu er Börnin í Dimmuvík er ekki saga um mannát heldur er hún er saga um örvæntingu og neyð eins og hún verður sárust.

Gamla konan ónefnda er komin á þann stað í lífinu að hún á ekkert eftir nema minningarnar. Börnin og barnabörnin eru stálpuð, eiginmaðurinn situr á elliheimili og man ekki eftir henni og vinirnir hafa látist einn af öðrum. Löngu bældar minningar bresta fram í jarðarförinni og gamla konan rifjar upp nokkrar vikur í lífi sínu. Hart er í ári, fólk fær ekki nógu mikla næringu og móðirin missir barn sem hún gengur með. Faðirinn grefur það fyrir ofan bæinn, móðirinn legst í þunglyndi og enginn talar við börnin þrjú sem þurfa sjálf að finna leið til að lifa af við þessar ömurlegu aðstæður. Sú yngsta, Hugrún, er veikluleg og illa haldin af beinkröm og það kemur í hlut hinnar 12 ára stúlku sem segir söguna að sjá um hana eftir bestu getu. Þegar farga þarf öllum búfénaði á bænum verður ástandið fyrst svart og heimilisfólkið missir eitt af öðru tök á aðstæðum. Mikil sorg og eftirsjá hvílir yfir sögunni. Strax í byrjun er ljóst að eitthvað skelfilegt hefur átt sér stað í Dimmuvík en það er ekki fyrr en á síðstu tveimur blaðsíðunum sem í ljós kemur hversu langt leidd þessi börn voru.

Bókin er stutt, aðeins 83 blaðsíður og í smáu broti. Hún er því ekki skáldsaga í fullri lengd heldur það sem kallast nóvella en slík útgáfa hefur aukist talsvert á síðustu árum. Stíllinn hans Jón Atla er knappur sem hentar vel fyrir svona stutta skáldsögu, þótt stundum virki setningarnar fremur snubbóttar en þéttar.  Sagan er vel sögð og dramatískar lýsingarnar aldrei yfirkeyrðar. Hún er sérstaklega vel uppbyggð sem verður einkum ljóst þegar hún er lesin í annað sinn. Þá opinberast hin raunverulegu einkunnarorð fyrir lesandanum. Orð sem auðvelt var að skauta framhjá í fyrstu:

Getur ein manneskja borið aðra? Ef svo er hversu lengi?


Enga vonarglætu er nokkurn tímann að finna í frásögninni sem gerir það að verkum að hún virkar stundum eintóna. Eymd sem er hlaðið ofan á eymd á það til að missa áhrifamátt sinn ef ekki er boðið upp á neitt mótvægi gegn henni. Nóvelluformið hentar slíkri frásögn vel því ef um lengri sögu væri að ræða hefði höfundur þurft að sýna fleiri blæbrigði. Börnin í Dimmuvík er því alveg passlega löng. Hún fetar kannski troðnar slóðir þegar kemur að frásögnum af vosbúð Íslendinga en hún gerir það vel og skilur eftir töluverð umhugsunarefni hjá lesendum.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.