Fyrir daga fjarskiptamastranna

Eystrasölt eftir Tomas Tranströmer kom fyrst út í heimalandi hans, Svíþjóð, árið 1974 og hefur bókin síðan verið þýdd á að minnsta kosti ellefu tungumál. Verkið er eitt langt ljóð, byggt á endurminningum Tomasar frá æskuárum sínum sem hann eyddi við sænska skerjagarðinn. Bókin var þýdd í mörgum löndum í tilefni þess að Tomas hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2011. Íslenska þýðingin var viðhafnarútgáfa og fylgdi henni upptaka af lestri þýðandans.

Verkið er hlaðið fortíðarþrá ásamt því að taka á ástandinu í Svíþjóð og víðar á tímum kalda stríðsins:


Það er stríðið
Það eru staðir þar sem þjóðfélagsþegnarnir eru undir eftirliti,
Þar sem hver hugsun hefur neyðarútgang,
Þar sem á það reynir til hlítar við samræður í vinahópi hvað vinátta er (12).

 

Viðfangsefni Tomasar eru einkum mörkin á milli landa, manna og tíma. Hann notar kærar minningar um afa sinn og ömmu sem teikniborð til að draga þessi skörpu skil:

Vindurinn fer um furuskóginn. Hann þýtur þungt og létt.
[…]
Gömlu konunni var meinilla við þytinn í trjánum. Andlit hennar stirðnaði af hugarangri þegar hvessti:
[…]
Maður gengur lengi og leggur við hlustir og kemur þangað sem landamærin opnast
eða öllu heldur
þar sem allt verður landamæri. Opið svæði sökkt í myrkur (11).

Tomas myndar samsvörun í verkinu á milli upphafs þess og endis en það hefst á, og því lýkur með, frásögn. Fyrst segir ljóðmælandinn frá því þegar afi hans lóðsaði skip yfir Eystrasaltið og verkinu lýkur með frásögn af uppvexti móðurömmu hans. En Tomas notar einnig andstæður til að skapa spennu í verkinu. Upphafsorð verksins - „Það var fyrir daga fjarskiptamastranna“ (7) - skapa tilfinningu fyrir löngu liðinni tíð sem skáldið síðan vefur inn í samtíma sinn með hugrenningum um stríðið. Framvinda ljóðsins er hæg, ekki síst vegna þess að mikið er af auðum síðum í bókinni sem hægir á lestrinum og um leið á upplifuninni á verkinu.

Lítið er um beinar lýsingar, en Tomas lýsir skírnarfonti í versi þrjú mjög ítarlega og í þeirri lýsingu felst mesta hreyfingin í öllu verkinu. Heródes situr við borð á meðan eldaður hani flýgur upp og gelur, fólk þyrpist um nýfæddan Jesús og fótatak gellur við, þrátt fyrir að vera greypt í stein. Notkun hans á andstæðum kemur skemmtilega fram á þessum stað í verkinu en á eftir lýsingunni á steinmyndinni kemur lýsing á ljósmynd og þar er mjög mikil kyrrð, þrátt fyrir að ljósmyndin sé af fólki en steinmyndin af biblíuversi. Þetta sýnir vel hæfni Tomasar sem skálds og er eitt af fallegri andartökum í verkinu.

Myndmál verksins er mjög grípandi, skáldið notar óvenjulegar lýsingar til að fanga lesandann og vekja hann til umhugsunar:

Hið þaulhugsaða stjörnuhvolfslíkan hverfist. Linsurnar stara í sortann.
Næturhimininn er fullur af tölum, og þeim er mokað
inn í blikandi skáp,
húsgagn
sem í býr sama orka og í engisprettunni sem étur hvert stingandi strá
     af hektara lands í Sómalíu á hálftíma (20).

Þetta sérstaka myndmál skreytir allt verkið en rétt fyrir lokahluta bókarinnar bregður Tomas upp mynd af tónskáldi sem fær heilablóðfall, missir málið og skilning á umhverfinu en heldur áfram að semja tónlist. Það er engu líkara en að Tomas Tranströmer hafi séð fyrir sína eigin framtíð en árið 1990, sextán árum eftir að Eystrasölt kom fyrst út, fékk hann sjálfur heilblóðfall þar sem hann missti málið, en hélt ótrauður áfram með skriftirnar.

Eystrasölt er sérstakt verk, þar sem ólíkir tímar renna saman í einn texta. Það hefur sérstöðu meðal verka hans fyrir þær sakir að Tomas notar hér meiri prósa, og fleiri orð, en í nokkru öðru verki. Flest verkin hans eru hefðbundnari ljóð, jafnvel hækur. Þetta verk stendur því nokkuð eitt og sér, þótt að það sýni sterk höfundareinkenni í spöru, en skörpu, myndmáli og persónulegum efnistökum. Tónlist er Tomasi líka mikilvæg og segja má að verkið sé eitt allsherjar tónverk í orðum, þar sem þættirnir sex spila saman. Eflaust kunna aðdáendur Tomasar betur að meta verkið en þeir sem lesa hann í fyrsta sinn, en sérkennilegar lýsingar og myndmál verksins ættu að ná til flestra ljóðaunnenda, ekki síst þeirra sem hafa áhuga á verkum frá þessum tíma.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.