Þegar stríðið er búið ...

Næstum eins og ástin er fyrsta bókin eftir Ellen Feldman sem þýdd hefur verið á íslensku. Í henni tekst hún á við þau áhrif sem seinni heimsstyrjöldin hafði á samfélag sem ekki þurfti að upplifa nöturleika stríðsins í návígi.

Sögusviðið er að mestu leyti smábær á austurströnd Bandaríkjanna á árunum 1941 til 1964. Í forgrunni sögunnar eru vinkonurnar Babe, Grace og Millie, sem allar eru ungar og nýgiftar þegar Bandaríkin hefja þátttöku sína í heimsstyrjöldinni síðari og menn þeirra eru sendir til Evrópu. Tveir þeirra koma aldrei aftur og sá sem snýr heim er þjakaður af reynslu sinni. Sorgarviðbrögð Grace og Millie eru ólík og hafa sterk áhrif á börn þeirra og umhverfi. Á meðan önnur rígheldur í allar minningar um mann sinn reynir hin að gleyma öllu um fortíðina. Babe þarf aftur á móti að takast á við það að maður hennar snýr heim gjörbreyttur og langt í frá heill. Í bakgrunni eru aðrar persónur sem tengjast vinkonunum þremur og eru þær og viðbrögð þeirra notuð til að dýpka lýsinguna á samfélagslegu umróti stríðsins og áranna eftir stríð.

„Þegar stríðið er búið“ er þema sögunnar. Í upphafi er tilhugsunin um þann tíma þrungin eftirvæntingu og pörin ungu hlakka til alls þess sem þá mun bíða þeirra. En þegar ekki snúa allir heim og þeir sem það gera eru breyttir menn verður lífið að loknu stríði ólíkt því sem væntingar stóðu til. Sögupersónurnar þurfa sumar að takast á við sorgir og vonbrigði, sektarkennd yfir því að lifa og reiði í garð þeirra sem féllu. Aðrar þurfa að takast á við það að teljast enn annars flokks borgarar, þrátt fyrir að hafa gegnt herþjónustu. Sjónarhornið fylgir ýmist aðal- eða aukapersónum, vefur saman ólíka þætti og skapar þannig sterka mynd af samfélaginu og um leið breytingum sem urðu í Bandaríkjunum á þessum rúmu tuttugu árum. Aukin þátttaka kvenna í atvinnulífinu, það hvernig skil milli stétta máðust út og réttindabarátta svartra eru mikilvægir hlutar sögunnar.

Bókin er skemmtileg og áhugaverð aflestrar og veltir upp ýmsum flötum á stríði og hvers konar hugarfars- og samfélagsbreytingar það hefur í för með sér. Þetta er ekki hetjusaga um stríð eða dáðir þeirra sem í það fara, heldur hvernig það breytir lífi þeirra sem heima sitja og þeirra sem heim snúa. Að vissu leyti má segja að þetta sé þroskasaga heils samfélags. Bókin spannar mjög vítt svið sem er í senn kostur og galli og frásögnin líður fyrir það á stöku stað að reynt er að koma of mörgu að. Margir hópar eiga sinn fulltrúa í sögunni og fyrir vikið verður saga samfélagsins sterk á meðan saga einstaklinganna veikist og stakar persónur ná ekki sterkum tökum á lesandanum en verða í stað þess ímyndir fyrir hópa fólks sem hafa þurft að ganga í gegnum svipaða reynslu.

Þýðing Þórunnar Hjartardóttur er lipurlega gerð og frágangur bókarinnar er góður.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.