Strákastúss og kúkabrandarar

Ekki þessi týpa er fyrsta bók höfundarins, Bjargar Magnúsdóttur, og eins og kápan gefur sterklega til kynna er um skvísubók að ræða. Kápan er túrkisblá og gul og framan á henni eru fjórar klippimyndir af kvenlíkömum sem væntanlega tákna hver um sig eina af aðalpersónum bókarinnar en eru um leið nógu ópersónulegar til að lesandi geti séð sjálfan sig í einhverri þeirra. Í myndunum endurspeglast líka „landslagið“ í 101 Reykjavík þar sem stór hluti sögunnar fer fram.

Saga Bjargar er vinkonusaga enda fjalla skvísusögur oftar en ekki um hóp vina, oftast vinkvenna. Meðal þeirra frægustu er Dagbók Bridget Jones, fyrirmynd margra skvísubókahöfunda, og svo vitaskuld vinkonurnar í Beðmálum í borginni. Fleiri skvísubókahöfunda má telja til eins og Jill Mansel og Sophie Kinsella. Af íslenskum bókum má telja til Dís, sem var skrifuð af vinkonuhóp, Makalaus og Lýtalaus eftir Tobbu Marínósdóttur og Korter eftir Sólveigu Jónsdóttur. Það mætti jafnvel seilast enn lengra aftur og telja bækur Snjólaugar Bragadóttur til forvera íslenskra skvísusagna – þótt húmorinn hafi skort í þeim bókum var nóg af víni, veseni, drama og ástarbrölti. Fyrirmyndir Bjargar eru því fjöldamargar en því miður er Ekki þessi týpa ekki meira en meðal vinkonusaga og varla það.

Vinkonurnar eru fjórar talsins, Bryndís, Regína, Inga og Tinna, en hver og ein er  málpípa ákveðinna skoðana eða viðhorfa – þetta eru ákveðnar týpur: Femínisti, SUS-stelpa, uppi í Grafarholti og fögur listaspíra. Allar nema hreinlætisóða Grafarholtspían eru á lausu, allar standa þær í strákastússi. Hver persóna fær sérmerkta kafla þar sem hún og hennar skoðanir eru í forgrunni en þótt stúlkurnar séu ólíkar hljóma raddirnar ósköp keimlíkar og oft er erfitt að átta sig á því hvaða persóna talar hverju sinni, einkum framan af. Annars virkar þessi frásagnamáti ágætlega og gerir bókina mun áhugaverðari en ef sjónarhornið væri aðeins hjá einni persónu auk þess sem saga hverrar persónu er varla nógu spennandi til að halda uppi heilli skáldsögu.

Skvísusögur eru formúlubækur og aðalsmerki þeirra er ekki flókin eða djúp persónusköpun – þótt vissulega takist sumum höfundum að galdra fram eftirminnilegar og áhugaverðar persónur. Skvísubækur nærast miklu frekar á húmor og dramatík. Stúlkurnar fjórar eltast allar við eða eru eltar af strákum en ástarbröltið er ekki mjög spennandi. Er þessi of ungur til að hún geti verið með honum? Er hinn kannski hommi, úr því hann bakar bananabrauð fyrir hádegi? Er þessi of hallærislegur til að sofa hjá? Og hvað með þennan, of háður mömmu sinni? Séð utan frá virðast vandamál aðalpersónanna ekki sérlega mikilfengleg en allir sem einhvern tíma hafa staðið í stráka- eða stelpustússi vita að málefni hjartans eru hverri manneskju mikið átakamál. Vandamálið hér er hins vegar að sagan ristir það grunnt og það lítið er kafað í persónurnar að lesandanum er nokk sama um afdrif þeirra.

Bryndís, Regína, Inga og Tinna tala þó ekki aðeins um stráka heldur greinir þær líka á um femínisma, jafnrétti, stjórnmál og hin ýmsu samfélagsmál og er þá ein persóna málpípa ákveðinna skoðana eða hóps í samfélaginu. Skoðanir þeirra eru ákaflega ólíka og það er erfitt að átta sig á því hvernig þær hafa lafað saman sem vinkonur árum saman þar sem þær geta varla átt í fimm mínútna samræðum án þess þær breytist í rifrildi. Raunar útskýrir Regína þetta fyrir lesendum: „Annað fólk skilur ekki samskiptamáta okkar sem felst í meginatriðum í því að skjóta á hvor aðra. Þannig sýnum við væntumþykju. Við elskum að hata hvora aðra. Eða svona þola ekki hvora aðra“ (98). Þessi skoðanaskipti vinkvennanna eru ansi hressandi þótt stundum renni rifrildin út í sandinn – en rifrildi gera það kannski oft í raunheimi líka.

Ef ég man rétt byrjaði Lýtalaus, önnur skáldsaga Tobbu Marínósdóttur um erkiskvísuna Lilju, á túrbrandara þar sem aðalpersónan byrjaði á túr fyrir framan nokkuð stóran hóp fólks. Ekki þessi týpa byrjar líka á brandara og það er kúkabrandari. Regína hefur dregið fordómafullan útvarpspistlahöfund frá Selfossi heim af djamminu, rennt honum upp í rúm og sofið hjá honum en er nú, í daufri morgunskímunni, rokin til vinnu og hefur skilið meðleigjanda sinn, Bryndísi, eftir með prinsinn sem nú er búinn að kúka í klósettið sem neitar að sturta niður. Bryndísi er ekki skemmt: 

Mig langar svo innilega ekki að díla við þetta. Ísköld tilfinning lengst ofan í maga hreiðrar um sig. Spennuhnúturinn hleður utan á sig, hríslast um líkamann og ég þarf að gubba. Held ég. Ef þetta er hljóð í klósettburstanum er þessi dagur að verða verri en ég hafði séð fyrir. Þegar maður tekur upp klósettbursta í ókunnugum húsum er það venjulega vísbending um að maður hafi gert eitthvað sem enginn ætti að komast upp með. Allavega ekki í dagsbirtu í lýðræðisríki. Já, einmitt. Auðvitað er vandamálið líka fólgið í hversu lélegur sturtarinn er á klósettinu en það er aukaatriði. Hann á ekki að koma sér í þessa aðstöðu. Bara alls ekki (6-7). 

Líkamleg viðbrögð Bryndísar við salernisferðinni eru nokkuð skondnar sem og hversu afskaplega óþolandi manngerpið reynist vera en brandarinn er heldur betur dreginn á langinn – og ekki bætir úr skák þegar sami maður pissar í rúm hjásvæfunnar síðar í bókinni. Er það ekki aðeins of mikið af því góða? Sem betur fer eru fleiri fyndnar senur í bókinni sem ekki tengjast líkamlegum úrgangi, í einni drepfyndinni er meira að segja að finna garðálf!

Ekki þessi týpa er sæmileg skvísusaga. Persónusköpun ristir grunnt, vandamálin sem persónurnar glíma við eru ekki sérlega áhugaverð, lausnirnar heldur yfirborðskenndar og húmorinn hittir ekki alltaf í mark. Ég spurði mig stundum að því hvort um væri að ræða einskonar ádeilu á bókmenntaformið, hvort höfundur væri meðvitað að reyna að draga fram það sem svo margir kalla „galla“ skvísubókahefðarinnar, þ.e. gegndarlausa áhersluna á hitt kynið, kynlíf, áfengi, útlit og dramatík, en ef svo væri hefði væntanlega þurft að ganga enn lengra en gert er og sleppa samtalsköflunum þar sem deilt er um hin ýmsu samfélagsmein. Það er þó aldrei að vita nema vinkonurnar fjórar þroskist og breytist og birtist lesendum í fleiri – og betri – bókum.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.