Samliggjandi gleði frá morgni til kvölds

 Agnarlitlar bókahillur, stútfullar af bókum af öllu tagi, hafa vakið mikla athygli á Amtsbókasafninu á Akureyri í sumar. Um er að ræða einstök myndverk, eins konar þrívíða mínískúlptúra, eftir Guðlaug Arason. Hann býr til hverja bók í þessum litlu bókasöfnum og nostrar við hvert smáatriði; sagar bækurnar úr viði, minnkar bókakápur niður í rétt hlutföll, prentar út og límir á viðeigandi örbók. „Hársbreidd er stór eining hjá mér,“ segir hann kankvís. „Enda er ég með fínustu verkfærin, nota stækkunargler, flísatöng og góð gleraugu eins og úrsmiðir nota.“

 Ga8 (1)

 


GENGUR Á RÖÐINA Í BÓKASAFNINU SÍNU
Sýningin á Amtsbókasafninu hefur slegið í gegn og þegar Spássían hringdi norður í myndlistarmanninn sagðist hann ekki geta sagt annað en að viðbrögðin hafi verið góð. Það sé gaman að sjá hversu mikla gleði verkin vekja hjá fólki. En hver var kveikjan að þeim? „Ja, hvernig fæðast hugmyndir; hvaðan tekur maður þessi ósköp? Þetta er fyrst og fremst spurning um að framkvæma hugmyndirnar sem maður fær. Ég hef alltaf verið að búa til bækur; mála þær, binda þær inn, skrifa þær, jafnvel höggva þær í stein. Ég á líka orðið fyrirferðarmikið og þungt bókasafn, flyt oft og þarf marga pappakassa í hvert skipti. Þar sem ég bjó síðast, í Sviss, var ekki pláss fyrir allar bækurnar og ég var farinn að troða þeim upp undir loft. Ég þurfti einu sinni að teygja mig í bók sem var neðst í stafla uppi undir lofti og nota við það stiga. Þá hugsaði ég með mér að þetta gengi ekki lengur, ég yrði að minnka safnið. Þá hafði ég um tíma verið að velta því fyrir mér að búa til litlar bækur og þetta varð til þess að ég fór af stað. Ég gekk bara á röðina í bókasafninu mínu og byrjaði á að gera eftirlíkingar af Íslendingasögunum sem ég keypti allar þegar ég var 18 ára. Ég ætlaði svo að láta gott heita en það gekk ekki - ég varð að halda áfram. Ég var að skrifa skáldsögu þegar ég byrjaði á þessu en þetta ýtti því til hliðar og ég hef ekkert gert af viti í henni síðan.“

 

Ga1 (1)


Guðlaugur Arason hefur skapað ótal bækur og m.a.
skrifað
ljóðabókina Blint í sjóinn og skáldsögurnar
Pelastikk,
Hjartasalt, Sóla Sóla, Eldhúsmellur,
Víkursamfélagið og
Vindur, vindur vinur minn.

 

ALDREI UNNIÐ JAFN MIKIÐ
Guðlaugur segist hafa vanið sig á að sofa lítið og að hann vinni aldrei minna en 14 tíma á sólarhring. Hann hafi þó aldrei unnið jafnmikið og síðustu fjögur ár, eða eftir að hann byrjaði á þessu verkefni. „Þetta er samliggjandi gleði frá morgni til kvölds. Ég nota timbur, hef fyrirmyndirnar til hliðsjónar og bý til bækurnar í réttum hlutföllum - reyni yfirleitt að hafa hlutföllin 1:12, það er stærðin sem hefur hentað mér best. Bækurnar mega ekki vera mjög litlar, þá ekki hægt að lesa á þær en minnstu bækurnar taka mesta tímann - svona eins og lítil börn, þau taka ansi mikinn tíma.“ Hann reynir að hafa eftirlíkingarnar sem nákvæmastar en viðurkennir að hann svindli stundum pínulítið á þynnstu bókunum. „Sumar bækur, ljóðabækur sérstaklega, eru með þunnum kili og svo smáu letri að það rennur út í eitt, en ég reyni að hafa þetta þannig að hægt sé að rýna í titlana. Hjá mér er hver bók gefin út í 15-20 eintökum, það er fyrsta útgáfa, en ef ég geri aðra útgáfu getur hún verið aðeins öðruvísi, ég kannski lagfæri um millimetra hér og þar. Ég er kominn með vissa þekkingu og er búinn að læra ákveðið handverk en þá kemur bara eitthvað annað sem ég vil læra að gera, svo vegurinn er langur framundan. Nú er ég að flytja til Íslands og sá efniviður sem ég hef sætt mig við að nota, eins og pappír og lím, fæst ef til vill ekki hér. Það verður dálítill höfuðverkur að finna eitthvað nýtt, því það er alls ekki sama hvaða efni er notað. Verkin eru gerð til að standa. Þau eru til dæmis öll olíuborin með sérstakri olíu sem verndar pappírinn frá sólarljósi - og á að halda jafnlengi og Móna Lísa ef marka má framleiðandann. En sú olía fæst ekki hér svo nú þarf ég að láta smygla henni til mín.“

 

Ga2 (1)


TILFINNINGALEG TENGSL
Guðlaugur er stundum spurður að því hvort hann byrji á því að gera skissur af verkunum, en svo er ekki. „Þetta er tilfinning hverju sinni; sumt er stílhreint, í öðrum verkum er algjör kaos. Ég byggi inn í kassa og verkin einhvern veginn fæðast í huganum út frá því efni sem ég er með í höndunum í það og það skiptið. Ég hef til dæmis verið að leika mér með að finna út hvað ég get leyft mér með dýpt í myndum sem hanga á vegg. Því þótt dýptin sé skemmtileg getur verkið endað eins og risastór gömul borðtölva sem skagar fram úr veggnum. Þetta hefur í raun verið fjögurra ára þróunarferli; að finna rétta pappírinn, rétta límið, rétta aðferð, en ég er orðinn nokkuð dús við útkomuna núna – þótt ég sé auðvitað alltaf að bæta og breyta. Ég verð að því næstu áratugina. Mér leiðist ekki, get sagt þér, og hef hlegið mikið. Svo mynda ég tilfinningaleg tengsl við verkin. Sumar bækurnar finnst mér svo fallegar að þegar þær eru tilbúnar tími ég varla að setja þær inn í verk og fela inn á milli annarra bóka.“

Hann segir að það hafi einnig verið merkilegt að upplifa viðbrögð annarra við verkunum. „Ég hef aldrei sýnt þau áður, dró það alltaf því ég vildi sýna þetta hér heima. Svo ég renndi blint í sjóinn og það er gaman að upplifa viðbrögðin. Ein kona sem keypti mynd sagði að hún væri nákvæmlega eins og bókasafnið heima hjá henni, sömu bækurnar og allt. Önnur sagði um verk þar sem hillurnar voru allar skakkar, bækurnar á skjön og allt í óreiðu, að þetta væri alveg eins og bókasafnið hennar. Margir Íslendingar eiga sérstakt og náið samband við bækur, svona miðað við aðrar þjóðir sem hef kynnst. Kannski frekar þroskað fólk en ungt fólk, en það á eftir að koma aftur.“

 

Ga7 (1)


AÐEINS HÁLFNAÐUR
Sjálfur neitar Guðlaugur því ekki að hann myndi öðruvísi samband við bækurnar sínar þegar hann vinnur með þær á þennan hátt. „Ég er nú hræddur um það. Enda hef ég lesið allar bækur sem ég á og er þeirrar náttúru að allt sem ég les verð ég að eiga. Sumar bækur hef ég því dandalast með síðan á unglingsárunum en ekki lesið síðan þá, bara pakkað þeim upp og niður. Þegar ég byrja að vinna með einhverja bókina velti ég henni stundum fyrir mér og rifja upp hvað í henni stóð, hvað höfundurinn var eiginlega að fara með þessu öllu. Sumar þeirra þarf ég að lesa aftur og ein liggur fyrir framan mig einmitt núna. Það er Sultur, sem ég las í menntaskóla og fannst þá afspyrnu leiðinleg. Þessi  bók hefur alltaf staðið í hillu hjá mér en nú tók ég hana fram, las hana þrisvar og finnst hún alveg yndisleg. Enda hafa fáar bækur hér í hinum vestræna heimi haft jafnmikil áhrif á höfunda og þessi bók.“

Sýningin á Amtsbókasafninu stendur út ágústmánuð en sköpun lítilla bókasafna heldur þó áfram. „Ég er ekki búinn með bókasafnið sem ég á. Það var aðeins helmingur af bókunum uppi í hillu þegar ég byrjaði, hitt var allt í kössum. Einmitt núna er gámurinn með bókunum mínum staddur einhvers staðar á leiðinni milli Færeyja og Íslands og ég hlakka mikið til að komast í kassana.“

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.