Saga sem aldrei má gleymast

Saga mannanna með bleika þríhyrninginn - þeirra sem sendir voru í fangabúðir nasista fyrir þá sök að vera samkynhneigðir - er saga sem ekki hefur farið sérlega hátt. Þó hafa fleiri heyrt af henni í dag en fyrir 40 árum síðan þegar sú bók sem hér um ræðir kom fyrst út. Í Berlín er nú t.d. að finna minnismerki um samkynhneigð fórnarlömb nasista við hliðina á hinu stórbrotna minnismerki um gyðinga er létust í helförinni. Það fer töluvert minna fyrir því fyrrnefnda; það stendur eitt og sér og lítur við fyrstu sýn út eins og óspennandi steypukassi en þegar að því er komið er hægt að líta inn um op og sjá myndband af tveimur körlum að kyssast.

Mennirnir með bleika þríhyrninginn kom upphaflega út á þýsku árið 1972 en var nýlega gefin út í íslenskri þýðingu Guðjóns Ragnars Jónassonar. Í henni segir frá ungum Austurríkismanni sem var handtekinn af Gestapo fyrir þær sakir að hafa átt vingott við annan ungan mann, fluttur í fangabúðir og merktur með bleikum þríhyrningi til marks um að þar færi öfuguggi. Í bókinni segir frá miskunnarlausri meðferð á föngum í fangabúðum nasista; þrælkunarvinnu, svelti, pyntingum og aftökum. Einnig er varpað ljósi á valdapíramída sem mynduðust innan samfélags fanganna sjálfra, þar sem hommarnir voru neðstir í goggunarröðinni en pólitískir fangar og glæpamenn efstir. Enn fremur greinir sögumaður frá því hvernig kynlíf og vændi var leið sumra fanga – til dæmis hans sjálfs – til að gera sér lífið aðeins auðveldara, verða sér úti um auka matarskammt og komast í örlítið léttari vinnu – og minnka líkurnar á að verða teknir af lífi. 

Síðast en ekki síst varpar sagan ljósi á þær hugmyndir sem ríktu - og ríkja jafnvel enn - innan fangabúða og fangelsa um muninn á „heilbrigðri útrás“ annars vegar og sjúkri eða glæpsamlegri öfughneigð hins vegar. SS-mennirnir og þeir fangar sem höfðu völd litu á mennina með bleiku þríhyrningana sem öfugt, úrkynjað pakk en á sama tíma sáu margir þeirra ekkert athugavert við að þeir sjálfir fengju kynferðislega útrás með þeim eða öðrum föngum. Línan var dregin milli þeirra sem álitnir voru hommar og elskuðu aðra karla og „eðlilegra“ karla sem voru gagnkynhneigðir en þyrftu á kynferðislegri útrás að halda. Eða eins og sögumaður segir: „Þeirra sýn - sýn hins „eðlilega“ - var að hér væri aðeins um að ræða útrás í neyð og hún ætti ekkert skylt við hommaskap.“ (bls. 16) Hugmyndir um eðlilega karlmannlega kynþörf  annars vegar og óeðlilega þrá og ást á öðrum körlum hins vegar eru aldagamlar og þekktust til dæmis meðal Forn-Grikkja og norrænna víkingaþjóða. Í Mennirnir með bleika þríhyrninginn er þó um að ræða Evrópu um miðbik 20. aldar og því er sagan góð áminning um að þessar hugmyndir heyra ekki endilega fortíðinni til, sem og að hómófóbía er nær alltaf samtvinnuð hugmyndum um karlmennsku.

Hvorki maðurinn sem sagan er byggð á, Josef Kohout, né sá sem ritaði bókina, Hans Neumann, treystu sér til að koma fram undir nafni þegar bókin kom fyrst út enda var kynferðislegt samneyti karla enn talið glæpsamlegt í Austurríki um 1970. Samkynhneigðir menn sem lifðu af fangabúðavist og misþyrmingar nasista fengu til dæmis ekki bætur líkt og aðrir fangar. Af þeim sökum var bókin gefin út undir höfundarnafninu Heinz Heger og lengi vel héldu menn að sögumaðurinn, fanginn með bleika þríhyrninginn, hefði heitið því nafni. Allt þetta og meira til kemur fram í vönduðum eftirmála Þorvaldar Kristinssonar þar sem tilurð bókarinnar er rakin og hún sett í sögulegt samhengi.

Það er fengur að því að hafa nú aðgang að þessari bók á íslensku í handhægri kiljuútgáfu. Mennirnir með bleika þríhyrninginn er ekki bara mikilvæg heimild um helförina heldur ekki síður um sögu hinsegin fólks sem hefur oftar en ekki glatast og er að miklu leyti óskráð. Bókin kallast á þann hátt á við minnismerkið í Berlín; hún lætur lítið fyrir sér fara en minnir á sögu fólks sem þurfti að gjalda fyrir kynhneigð sína með þjáningum og jafnvel lífinu. Það var því vel við hæfi að borði með áletruninni „Mennirnir með bleika þríhyrninginn - saga sem aldrei má gleymast“ var borinn í Gleðigöngu Hinsegin daga í Reykjavík í ágúst síðastliðnum. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.