Öðruvísi kvenhetjur

Pacific Rim var svona lúmskt feminísk. Gaman að því.“ skrifaði ég á Facebook eftir að ég kom úr kvikmyndahúsi. Einn vinur minn hváði og gat ekki skilið hvernig hægt væri að segja slíkt um mynd með aðeins einni kvenpersónu sem var þar að auki sýnd sem bljúg og auðsveip. Og það er alveg rétt hjá honum. Myndin kolfellur á hinu fræga Bechdel-prófi. En henni tekst að forðast aðrar algengar gryfjur sem kvikmyndir falla alltof oft í – sérstaklega sumarhasarmyndir – og því ber að fagna. Því það er til eftirbreytni.

Nú vaknar kannski sú spurning hvers vegna ég sé að leita að feminískum áherslum í annars mjög karlmiðaðri mynd. Kannski ætti bara að afgreiða hana sem sumahasar og segja það gott? Þetta er jú kvikmynd þar sem söguþráðurinn hverfist í kringum baráttu mannkyns við risaskrímsli með hjálp vélmenna í ofurstærð. Hún tilheyrir ákveðnum flokki kvikmynda sem kallar ekki beinlínis á skarpa samfélagslega gagnrýni. En það sem er einmitt svo skemmtilegt við formúlumyndirnar er að þar getur opnast rými til að breyta út frá öðrum formúlum.

Sjá:

 1. Kvenpersónan sem um ræðir heitir Mako Mori og er leikin af japönsku leikkonunni Rinko Kikuchi. Aðalkvenhetja einnar stærstu hasarmyndar sumarsins er ekki leikin af hvítri Hollywood bombu. Það skiptir máli.
 2. Aðalkvenpersónan er róleg og skyldurækin (þegar hún er gagnrýnd fyrir að vera hlýðin segir hún: „Þetta er ekki hlýðni, þetta er virðing.“) og hún verður hrædd og ofurseld tilfinningum. Hún sýnir sem sagt eiginleika sem eru gjarnan kallaðir kvenlegir og þykja þar með óæðri en í þessu samhengi eru þeir ekki taldir henni til minnkunnar. Það er orðið næstum því að klisju að sterkar kvenpersónur séu sem kjaftforastar og snillingar í bardagaíþróttum. Ásamt því að vera fagrar auðvitað og laðast að karlhetjunni. Og það má ekki draga úr áhrifamætti slíkra fyrirmynda, því að öðru leyti hefur tilhneigingin verið að sýna konur sem hræddar og ósjálfbjarga. Stúlkur sem horfa á Indiana Jones myndirnar eru mun líklegri til að samsama sig Marion úr Raiders of the Lost Ark  en Willie Scott úr Indiana Jones and the Temple of Doom, enda er sú fyrri sjálfstætt hörkutól á meðan sú síðari vælir út í gegn. En það er hressandi að sjá  kvenhetju sem getur farið út fyrir hina algengu forskrift og samt verið sterk.
 3. Charlie

  Charlie Hunnam í hlutverki
  sínu í Pacific Rim

  Önnur aðalpersónan er kona en hún er ekki kyngerð. Flestar kvikmyndir sjá ástæðu til að undirstrika hversu flottan líkama aðalkvenhetjan hefur. Kannski kemur hún fram í nærfötum og bikiníi – kannski bara í fögrum kjól eða níðþröngum leðurgalla? Hvort heldur sem er, þá er tilgangurinn að leyfa áhorfendum að dvelja við líkama hennar og njóta sýnarinnar. Mako er aldrei sett í slíkt samhengi. Fötin hennar eru praktísk út í gegn og hún afklæðist aldrei. Á hinn bóginn er myndavélin látin dvelja við stæltan líkama mótleikara hennar þar sem hann afklæðist og hún fylgist með. Henni er falið vald augnaráðsins  sem er nær alltaf látið dvelja hjá karlmanninum.
 4. Jeager-vélunum sem notaðar eru til að ráða niðurlögum skrímslanna er stjórnað af tveimur (í einu tilfelli þremur) einstaklingum sem vinna sem ein heild. Styrkur vélarinnar felst ekki í vöðvamassa eða árásarhneigð teymisins heldur hversu vel því tekst að vinna saman. Teymið sem bjargar svo heiminum samanstendur af konu og karli. Jafn sterkum – jafn réttháum. Að auki hafa þau bæði orðið fyrir áfalli í fortíðinni sem þau þurfa að vinna úr og bæði fá þau baksögu og tækifæri til að læra og breytast.
 5. A.m.k. eitt af skrímslunum er kvenkyns og ólétt – sem kemur í ljós eftir að það leggur Hong Kong í rúst. Vissulega eru ólétt skrímsli í kvikmyndum ekki ný af nálinni (sjá t.d. Species myndirnar) en yfirleitt er þungunin römmuð á annan hátt. Þ.e. ólétta skrímslið veldur venjulega skaða í umhverfi sínu vegna þess að það er að reyna að fjölga sér og m.a. éta allt sem tönn á festir (og minnir kannski einhverja á hormónaóðar óléttar konur) en hérna er skrímslið eins og hver annar óléttur hermaður sem sendur er í stríð. Eins og ekkert sé.

Pacific Rim fellur að auki ekki í frásagnargryfjur sem eru annars alltof algengar; eins og að láta kvenpersónuna sanna að hún sé jafngóð og strákarnir (sjá t.d. Aliens) eða kalla Hong Kong skrímslið ógurlega „tík“ eða einhverjum öðrum álíka kynbundnum blótsyrðum þegar kynferði þess varður ljóst.

 

 Pacific -rim 03

 

Vandamálið við Bechdel-prófið er að það átti aldrei að vera mælikvarði á feminísk gæði kvikmynda heldur aðeins lýsa viðvarandi ástandi. Alltof sjaldan er í kvikmyndum að finna fleiri en eina kvenpersónu sem hafa nafn og tala við aðra kvenpersónur um eitthvað annað en karlmann. Það þýðir hins vegar ekki að nóg sé fyrir kvikmyndir að tikka í þessi box og sleppa algjörlega undan gagnrýni. Feministinn Kelly Sue DeConnick hefur stungið upp á „kynæsandi lampa“ prófinu (sexy lamp test): Ef þú getur tekið út kvenpersónu og sett í staðinn fallegan lampa er eitthvað mikið að. Vandamálið er að nú, eins og svo oft áður, eru konur aukaefni. Þetta er karlaheimur og þeim er aðeins leyft að vera með. Karlarnir eru eftir sem áður gerendurnir og sagan er sögð út frá þeirra sjónarhorni. Það er viðtekið lögmál í Hollywood að karlar vilji aðeins horfa á myndir um og eftir karla á meðan konur geti horft á myndir um bæði karla og konur. Því borgi sig frekar að láta myndir snúast um karlana til að hámarka gróðann. Það er vafamál hvort þessi staðhæfing er rétt (eru karlar ekki alveg eins líklegir til að fíla The Heat  þóttt þeir fái kikk út úr 2 Guns ?) og jafnvel þótt svo sé réttlætir það með hvaða hætti kvenpersónum er lýst í kvikmyndum? Réttlætir það að aðeins 10% af aðalpersónum kvikmynda eru konur? Réttlætir það að þeim er aðeins stillt upp sem skrautmunum (stundum skrautmunum sem geta skotið og barist – sjá Sin City)? Réttlætir það að kynferði þeirra er gert að háði geri þær eitthvað sem körlunum mislíkar (með orðum á borð við bitch, slut, cunt o.s.frv.)? Réttlætir það þegar þær eru afklæddar til að uppfylla einhverja glápþörf hjá karlkynsáhorfendum? Réttlætir það að þær eru næstum alltaf hvítar nema þegar handritið kallar á exótíska kvenpersónu (litaðar konur fá sjaldan að vera „venjulegar“)?

Charlie -Hunnam -Rinko -Kikuchi -Pacific -Rim

Það væri óskandi að framboðið á kvikmyndum væri slíkt að fullkomins jafnræðis gætti gagnvart kven- og karlpersónum. Á meðan karlar eru nær alltaf settir í aðalhlutverkin og þar að auki umkringdir öðrum körlum í veigamiklum hlutverkum er langt í að það gerist.  Og það gerist aldrei ef ekki verður grundvallar hugarfarsbreyting á því hvernig þær fáu kvenpersónur sem þó birtast eru sýndar. Pacific Rim virðist gera atlögu að því og Guillermo del Toro, leikstjóri myndarinnar, reyndi markvisst við að búa til persónu sem gekk gegn væntingum:

„Þegar þú segir: „Þarna er ungur, japanskur, kvenkyns flugmaður,“ ímyndar þú þér yfirleitt ofur-kynþokkafulla, léttklædda stúlku sem bleytir blússuna sína á fimm mínútna fresti, og, þú veist..“ hann setur sig í „kawaii“ stellingu og flissar. „ Ég vildi svo gjarnan búa til persónu sem stóð jafnfætis Raleigh; að það væri ekki endilega um ástarsögu að ræða, heldur væntumþykju og virðingu meðal samstarfsaðila. Það var mikilvægt að hún væri sterk og sterk á kvenlega máta. Ég vildi ekki að hún væri stúlka sem væri breytt í kynlífsdúkku eða strák – sem er venjan í hasarmyndum.“

Venjan er að „sterka“ kvenpersónan mæti á svæðið, setji sig í kynæsandi stellingu, skjóti og berji mann og annan, fái eina góða setningu  og láti sig svo hverfa á meðan karlarnir klára málið. Eins og Sophia MacDougall bendir á í grein sinni I hate strong female characters er alltof oft gripið til þessarar erktitýpu, sérstaklega í kvikmyndum, til að friða óþægilegar gagnrýnisraddir sem kvarta undan einföldum og ófrumlegum kvenpersónum. Hún er plástur á sárið. Hún er vissulega sterk en það eins og alltof margir kvikmyndaframleiðindur vilji klapp á bakið fyrir að búa til kvenpersónu sem er ekki vælandi Willie Scott týpa án þess að gera nokkuð annað. Hvað með að hún hafi persónuleika? Hafi bresti, áhugamál, kannski bólu á nefinu? Hvað ef hún er ekki aðlaðandi? Hvað ef hún er aðalpersóna jafn oft og karlarnir? Það þarf aldrei að kalla eftir þessum atriðum þegar um karlpersónur er að ræða. Hvers vegna er það svona erfitt þegar kemur að konum? 

Tumblr _mr 9nwtl TYw 1qayrlio 1_500

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.