Ljóðgrænan og framrásin

Við upphaf lesturs á Tíma kaldra mána virðast ljóðin ósköp venjuleg. Þarna eru einfaldar og fallegar myndir dregnar upp sem tengast náttúrunni og manninum. Það er ekki fyrr en komið er inn í hálfa bók að skyndilega fara þessa myndir að falla saman og tengjast með hárfínum strengjum. Minni á borð við tímann og náttúruna kallast á við hugmyndir um ljóðlistina og hvoru tveggja er stillt upp andspænis sinnuleysi nútímans.

Bókinni er skipt í þrjá kafla. Sá fyrsti kallast Ljóðgræna og þar eru dregnar upp hliðstæður með náttúru og ljóðlist. Ljóðmælandi neytir náttúrufegurðar, veltir fyrir sér framrás tímans og stöðu sinni gagnvart náttúrunni og alheiminum. Maðurinn má sín lítils gagnvart náttúrunni og verður uppvís að heimsku, vanþekkingu og sjálfselsku. Afstöðu höfundar má svo sjá í hnotskurn í ljóðinu „Ósk“.

Ljóðrænu,
-ljóðgrænu.
Í stað
vélrænu. (23)

Ljóðinu er stillt upp innan náttúrunnar og fundin samsvörun með henni og ljóðinu og náttúran síðan notuð sem uppspretta sköpunar. Kaflanum lýkur þegar sáðning hugans hefur farið fram: „Örkin er hvítur akur / Orðin, fræin svörtu / sem í hann er sáð“ (25).

Næsti kafli heitir Apríkósugarðurinn og þar leggur ljóðmælandi land undir fót og kynnist margbreytileika listsköpunar í náttúrunni í fjarlægum heimshornum. Á þessu stigi er ekki laust við að gæti ákveðins naívísma í lýsingunum. Náttúran er fögur og gjöful og hinn hvíti vestræni forréttindatúristi dáist að yfirborði hennar. Hann, sem ljóðskáld, finnur til samkenndar með ólæsa veiðimanninum sem yrkir ljóð með veiðimennsku sinni, með regninu sem skerpir fegurð heimsins og með þröstunum sem marka nýfallinn snjó ljóði sínu í leit að korni. Þessi fallegi heimur verður frekari uppspretta ljóðlistar, hann sáir nýjum fræum og endar kaflann á uppskerunni: „Nú verða ljóðin til / hvert á / fætur öðru // Það þýðir aðeins eitt: // Það er tekið / að hausta. (45)

En fæðing ljóðanna dregur hann ofan í dýpið. Þriðji og síðasti kaflinn, Um myrkurskóginn, lýsir ferðalagi í djúpi hafs og skógar þar sem tregi, raunir, ótti og þunglyndi ráða lögum og lofum. Ýjað er að því að sambandsslit séu uppspretta þessa ástands  sem fær lesandann til að endurhugsa alla túlkun á fyrri ljóðum. Þetta gerist reyndar aftur og aftur í bókinni og er jöfnum höndum frústrerandi og skemmtilegt. Hvert nýtt ljóð setur eldra ljóð í annað samhengi og nýir fletir verða til. Ástandið fer að minna á skilgreiningar úr kenningum strengjafræði: „ Í strengjafræðinni eru [...] aðeins örfáar gerðir af strengjum, jafnvel aðeins ein, og hinar ýmsu öreindir koma fram sem mismunandi sveifluhættir. Það er vel þekkt úr sígildri eðlisfræði að mismunandi tónar gítarstrengs svara til sveifluhátta hans og má segja að öreindir, eins og rafeindir, ljóseindir eða kvarkar, séu allar mismunandi tónar á einum og sama grundvallarstreng náttúrunnar.“[1] Á sama hátt verður Tími kaldra mána eins og strengur þar sem tími, rúm, sköpun og mannleg upplifun framkalla mismunandi tóna í takt við einn grundvallarhjartslátt náttúrunnar. Og það skýrir kannski þá óljósu tilfinningu fyrir undirliggjandi samhengi sem svo erfitt er að festa hönd á.?

Bókin endar í óvissu og engin niðurstaða fæst í þessar vangaveltur. Hugurinn endar í híði þar sem myndmál kvölds, kulda og vetrar verður ráðandi í síðustu ljóðunum.

Frosið tungl

Enn
eru sólir

sem lýsa
upp vetrarbrautir
hugans

enn er
höfuð mitt

frosið tungl. (78)

Engar fórnir, engir brunnar geta læknað þurrkinn  – aðeins náttúran sem bíður síns tíma, gleymir engu og lætur ekki stjórna sér.

Hvernig er hægt að leggja mat á ljóðabók? Hún annað hvort snertir við þér eða ekki og upplifun hvers lesanda einstök. Það er þó hægt að dást að því hversu vel tekst að framkalla einfaldar myndir sem bjóða í sífellu upp á nýja túlkun og fá lesendur til að endurhugsa - og endurlesa - það sem áður virtist augljóst. 

 

 


[1] Lárus Thorlacius: „Hvernig hljómar strengjakenningin og hver er hin sennilegasta minnsta eining?“,  Vísindavefurinn, 1. mars, 2000. Sótt 9. ágúst.2013 af http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=171

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.