Hún stekkur í þágu heimspekinnar

Höfundar skapa gjarnan aðstæður í bókum sínum sem þeir geta notað sem tilefni fyrir heimspekilegar vangaveltur og hér notar Sigurbjörg Þrastardóttir löngun persónu sinnar til að stökkva af svölunum heima hjá sér sem slíka uppsprettu. Það sérstaka við þessa ósk aðalpersónunnar, Alexöndru Flask, er að hún vill ekki deyja heldur er markmið hennar að stórskaða sig. Hvers konar bók er þetta, gæti lesandi spurt sig á þessum tímapunkti. Og hvers konar sársauka hefur Alexandra orðið fyrir sem veldur því að hún reiknar kirfilega út fallhraða og mið af svölunum heima hjá sér?

Markmið hennar, meðvitað eða ekki, er að umbreyta innri, ósýnilegum sársauka í ytri, sýnilegri sársauka. Alexandra er persóna sem á ekki mjög náin sambönd við annað fólk. Hún á ýmsa kunningja en það ristir frekar grunnt, af hennar hendi að minnsta kosti. Hún býr á Spáni og hefur lítið samband við fjölskylduna heima, helst hefur hún samband við ömmu Skinku í Englandi. Síðan er það Eder, sem hefði verið ástin í lífi hennar ef hann hefði ekki verið giftur og að deyja úr hvítblæði.

Þegar saga Alexöndru hefst er nokkuð liðið síðan Eder féll frá og enn lengra síðan hún yfirgaf hann án útskýringa, en hún ímyndar sér að brotthvarf hennar hafi verið af virðingu við eiginkonu Eders. Er það ástarsorg eða samviskubit sem leiðir Alexöndru í þessar sérkennilegu hugleiðingar um stökkið? Eða gat hún einfaldlega ekki hugsað sér að horfa upp á Eder visna og deyja?

Áhrif Eders á Alexöndru koma fyrst og fremst fram í því að henni finnst hún ekki lifa lífinu til fulls. Vísanir í að lifa hálfu lífi eru áberandi og ein setning í bókinni dregur ásetning hennar og líðan saman á sársaukafullan hátt: „Ég er bara að segja að líf mitt myndi ekki taka neinum stakkaskiptum þótt ég lamaðist upp að hálsi (89)“.

Alexandra gerir þó meira af því að greina annað fólk en að íhuga sitt eigið sálarástand. Lesandinn verður því sjálfur að sjá um að túlka sálarlíf þessarar ungu stúlku. Alexandra vinnur til dæmis að meistaraverkefni um ungnunnur á miðöldum og tengingar við efnið koma fram í hugleiðingum hennar og segja okkur meira um persónuna en hana grunar sjálfa. Sérstaklega myndast áhugaverður snertiflötur milli skírlífis nunnanna og platónsks sambands hennar við Eder.

Ástarsambandið í sjálfu sér er þó ekki helsta viðfangsefnið, heldur hvernig hún minnist þess og viðhorf hennar til lífsins afhjúpast á sama tíma. Frásögnin er eins konar upprifjun, þar sem sífellt fleiri minningabrot koma til sögunnar og lesandinn fræðist á sama tíma og Alexandra um það sem hefur gengið á, þar með talið það sem hún vildi gleyma.

Verk sem þetta verður að vera aðgengilegt lesandanum og Sigurbjörg notar kaldhæðni og svartan húmor, sem gerir það að verkum að bókin verður ekki of drungaleg eða sársaukafull fyrir lesendur. Strax á fyrstu síðum verksins kemur þessi húmor fram:

Ég man ekki á hvaða svölum ég sá barn á náttfötum um daginn, það var áður en ég fór að einbeita mér, en umsvifalaust flaug mér í hug að ég væri að bjarga mannslífi með framtaki mínu vegna þess að:

a) fólk hugar betur að öryggi eftir voðaatburð

b) almenn slysadreifing veraldarinnar kemur í veg fyrir að tvennt falli af svölum í sömu götu á sama ári (6).

Þrátt fyrir húmorinn og áhugaverðar hugrenningar verður bókin þó langdregin á köflum, sérstaklega þegar líður á seinni hlutann. Flókin fjölskyldumál eru nefnd aftur og aftur og imprað er á mikilvægi þeirra án þess að það verði sannfærandi. Bókin er án úrlausna og opin fyrir túlkunum, þó nær Alexandra einhvers konar bata, áður en hún flytur á nýjan stað, ef til vill til þess að lifa lífinu eingöngu til hálfs á ný.

Bókin er áhugaverð skáldsaga, þó að hún gangi ekki alveg upp í alla staði. Margar setningarnar eru ágengar, skemmtilegar og draga upp sterka mynd en heildarmyndin er ekki nógu sterk. Sigurbjörg hefur gefið út nokkrar ljóðabækur áður og kemur sá bakgrunnur skýrt fram í verkinu, sem er ljóðrænt, hnyttið og deilir á samfélagið. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.