Hinsegin bókmenntir á Hinsegin dögum

Á Hinsegin dögum sem haldnir voru 6.-11. ágúst sl. voru margir menningarviðburðir í boði, svo sem ljósmyndasýning, sögusýning á Þjóðminjasafninu, bíósýningar og tónleikar svo fátt eitt sé nefnt. Á boðstólum voru þrír bókmenntaviðburðir og þar að auki kom út bók í hátíðarvikunni sem tengist málefninu beint.

ÞERRAÐU ALDREI TÁR ÁN HANSKA
Miðvikudaginn 7. ágúst stóðu Hinsegin dagar og bókaútgáfan Draumsýn fyrir útgáfuhófi fyrstu bókarinnar í þríleiknum Þerraðu aldrei tár án hanska eftir sænska rithöfundinn Jonas Gardell. Bókin ber titilinn „Ástin“ og er nýkomin út í íslenskri þýðingu Draumeyjar Aradóttur. Hófið fór fram í Norræna húsinu og hófst á því að Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV Íslands, sagði frá þríleiknum og flutti kveðju Gardells til viðstaddra. Viðar Eggertsson sagði nokkur orð og las upp úr „Ástinni“ og Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson söng lag við ljóð Gardells, sem á íslensku nefnist „Mitt eina líf“.

Þerraðu aldrei tár án hanska fjallar um líf tveggja homma í Svíþjóð á 9. áratug síðustu aldar, ástarsambandi þeirra og glímu við alnæmi. Einar sagði í ávarpi sínu að hann vonaðist til að í kjölfar útgáfu bókarinnar á Íslandi skapaðist umræða um HIV-smit og alnæmi, sögu sjúkdómsins og þátt hans í sögu hinsegin fólks, sér í lagi homma. Þríleikur Gardells er í og með ádeila á heilbrigðiskerfið og samfélag sem einangrar smitaða einstaklinga og kemur fram við þá af stakri grimmd. Einar benti á að stór hluti af þeim samkynhneigðu karlmönnum sem fæddust á 6. og 7. áratugnum hefðu dáið fyrir aldamótin 2000 og að þetta tímabil mætti ekki falla í gleymsku.

Þriðji og síðasti hluti Þerraðu aldrei tár án hanska kom út í Svíþjóð í síðustu viku. Bækurnar hafa vakið þónokkra athygli og meðal annars hafa verið gerðir sjónvarpsþættir eftir þeim sem sýndir hafa verið í sænsku sjónvarpi. Viðar greindi enn fremur frá því að þættirnir yrðu að öllum líkindum sýndir á RÚV í vetur.

MENNIRNIR MEÐ BLEIKA ÞRÍHYRNINGINN
Í Hinsegin daga-vikunni kom einnig út bókin Mennirnir með bleika þríhyrninginn eftir Heinz Heger, sem hét réttu nafni Hans Neumann. Þýðandi er Guðjón Ragnar Jónasson og útgefandi er bókaforlagið Sæmundur. Þar segir frá ungum austurrískum manni sem var handtekinn af Gestapo árið 1939 fyrir þær sakir að hafa átt vingott við annan ungan mann, fluttur í fangabúðir og merktur með bleikum þríhyrningi til marks um að hann væri samkynhneigður. Í bókinni segir frá dvöl hins unga homma í fangabúðum nasista og hvernig hann fór að því að lifa af pyntingar og þrældóm, ekki aðeins sem fangi heldur ekki síður sem hommi en samkynhneigðir fangar voru neðstir í valdapíramídanum innan fangabúðanna. Ritdóm um bókina má lesa hér.

HALLONGROTTANS VÄNNER
Hallongrottans vänner eru sænsk grasrótarsamtök sem beita sér fyrir því að reynsla minnihlutahópa sé tjáð í bókmenntum og listum. Þau vinna einnig að því að gefa nýjum og óreyndum höfundum og listamönnum tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Hópurinn beinir sjónum sínum meðal annars að femínisma og kynjahugmyndum, hinsegin lífi og listum og gagnrýni á ýmiss konar samfélagsnorm sem tengjast til að mynda stétt, kynþætti, aldri o.fl. Eða eins og segir á heimasíðu þeirra, www.hallongrottansvanner.com: „Hallongrottans vänner vilja einfaldlega stuðla að menningarlegu lýðræði og vera flís í auga normsins“.

Eitt af því sem hópurinn gerir er að standa fyrir viðburðum þar sem höfundar og listamenn frá Norðurlöndunum koma saman, lesa upp og ræða saman. Í sumar eru þau á ferðalagi með rithöfundum sem skrifa um hinsegin málefni og skipuleggja pallborðsumræður á pride-hátíðum í Osló, Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Helsinki og Reykjavík. Á Hinsegin dögum í Reykjavík stóðu þau fyrir tveimur viðburðum, annars vegar pallborðsumræðum um hinsegin bókmenntir og hins vegar frjálslegri umræðum með áhorfendum á Ráðhúskaffi þar sem rætt var almennt um hinsegin bókmenntir, þýðingu þeirra, stöðu og fleira.

Rithöfundarnir sem komu fram voru Kristofer Folkhammar og Håkan Lindquist frá Svíþjóð, Emma Juslin frá Finnlandi og okkar eigin Kristín Ómarsdóttir. Á undan pallborðsumræðunum, sem fóru fram í Ráðhúsi Reykjavíkur fimmtudaginn 8. ágúst, lásu þau öll upp úr verkum sínum, skáldsögum, smásögum og ljóðum. Öll fjölluðu verkin á einn eða annan hátt um hinsegin veruleika eða fantasíur; allt frá tveimur mönnum sem hittast í lest í Stokkhólmi og hrífast hvor af öðrum til manns og konu sem æfa saman listina að kyssast og bregða sér í ýmis hlutverk til að þjóna fantasíum hvors annars.

Í umræðunum sem á eftir fóru var meðal annars velt upp þeirri spurningu hvort einhver þörf sé fyrir hinsegin bókmenntir og hver sú þörf sé. Öll voru skáldin sammála um að þörfin væri til staðar, til dæmis þyrftu hinsegin lesendur á því að halda að lesa um persónur sem þeir gætu samsamað sig með og reynslu sem kallast á við tilveru lesandenna sjálfra. Einnig voru þau á því að það væri mikilvægt fyrir hinsegin rithöfunda og skáld að hafa fyrirmyndir, þ.e. verk sem hægt væri að sækja í þemu og svipmyndir.

Rithöfundarnir voru flestir sammála um að koma-út-úr-skápnum sögur væru enn mikilvægar en þó væri mikilvægt að huga að annars konar þemum og efnistökum. Kristofer benti á að þegar hópar eru kúgaðir þurfa þeir að sanna sig fyrir meirihlutanum og sýna að þeir séu „nógu góðir“ en nú þegar réttindi hinsegin fólks eru orðin nokkuð góð á Norðurlöndunum sé mikilvægt að gleyma því ekki að það megi - og sé jafnvel æskilegt - að tjá reiði, vonbrigði og andspyrnu í bókmenntum og listum. Kristín nefndi réttilega að ekki hafa verið skrifaðar margar bækur um hinsegin reynslu á íslensku og þær sem voru á annað borð skrifaðar hafi oftar en ekki verið þaggaðar niður. Hver kynslóð skrifar um sína eigin reynslu, benti Kristín á, og núna þurfum við að fylla í þá eyðu sem hinsegin bókmenntasaga er.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.