Fullkomleikinn er óspennandi

Systurnar og myndlistarkonurnar Sara og Svanhildur Vilbergsdætur eru afskaplega ólíkar og rífast stundum eins og hundur og köttur. Það kom því ekki síst þeim sjálfum á óvart þegar þær fóru fyrir röð tilviljana að mála saman myndir þar sem þær sjálfar eru í aðalhlutverki. Þær segja að samstarfið hafi opnað nýjar gáttir og úr hafi orðið eitthvað algjörlega nýtt og ólíkt því sem þær gerðu áður.  Spássían kíkti í heimsókn á vinnustofu Söru og Svanhildar í tilefni sýningar á verkum þeirra í Listasal Mosfellsbæjar. 

Sara og Svanhildur eru myndlistarkennarar og útskrifuðust úr MHÍ árin 1985 og 1994. Samstarf þeirra hófst á Menningarnótt árið 2010. „Þá var Sara fengin til að taka þátt í gjörningi sem kallaðist Ísafold,“ rifjar Svanhildur upp. „Þetta var sjö metra langur refill með mynd af Íslandi sem var unnin af sjö listamönnum. Hver listamaður fékk einn landshluta og einn meter til að vinna með. Sara átti að mála Vestfirðina og hún bað mig að aðstoða sig. Annars hefði mér aldrei dottið í hug að gera eitthvað svona. Sara hafði verið að mála, haft opið hús og verið ófeimin við að fólk fylgdist með henni. Ég hafði hins vegar aldrei treyst mér í slíkt. Mér fannst allt þurfa að vera svo fullkomið og ef ég fékk hugmynd þá slátraði ég henni næstum áður en hún varð til því hún væri ekki nógu góð. Ég hélt því að ég yrði stressuð þarna, en það varð svo alveg öfugt. Sara mætti á undan mér og þegar ég kom var hún að fara á taugum svo ég varð alveg sallaróleg. Þetta er bara spurning um Ying og Yang.“

Systur Menningarnótt

Sara hlær og útskýrir að þegar hún hafi byrjað á því sem átti að vera Vestfjarðarkjálkinn þá hafi undan penslinum komið eitthvað sem líktist frekar Rúmeníu. „Og þarna var fullur salur af fólki að horfa á.“ Svanhildur tók því við stjórninni. „Allt í einu skipti allt þetta fólk mig engu máli, ég tók bara að mér þetta hlutverk. Við gleymdum okkur gjörsamlega, enda þurftum við að hamast við að klára þetta á klukkutíma, hvor ofan í annarri, og í hamaganginum var ég farin að stíga ofan í málninguna sem við notuðum.“

 „Þetta var menningarnótt svo hún mætti náttúrulega í sparigallanum,“ skýtur Sara sposk inní. „Bara einhverju svörtu tjullpilsi. Og maðurinn hennar var ekki aðeins farinn að taka af henni skóna og þrífa þá heldur halda pilsinu hennar svo það slettist ekki á það.“

Þegar tíminn var búinn og systurnar stigu nokkur skref til baka sprungu þær svo af hlátri. „Þarna var til dæmis harmoníkuleikari á skuttogara að sigla út Ísafarðardjúpið og það átti að standa lundi á öxlinni á honum en hann stóð bara lárétt út úr handleggnum á honum,“ segir Sara. „Vestfjarðarkjálkinn var auðvitað kolvitlaus og við vorum vissar um að Vestfirðingar yrðu alveg brjálaðir yfir því að það höfðu dottið út heilu firðirnir hjá okkur svo við ættum ekki afturkvæmt á heimaslóðirnar, en við erum frá Ísafirði. En þetta var samt svo gaman og varð til þess að við fórum að kasta á milli okkar hugmyndum og fórum að hittast hérna á vinnustofunni uppi á Korpúlfsstöðum og mála eitthvað saman.“

 

GOLF, FORSETAHJÓN OG DVERGAR
Sara og Svanhildur byrjuðu á því að sækja myndefni í fréttir og slúður líðandi stundar. Korpúlfsstaðir eru auðvitað staðsettir á miðjum golfvelli og á þessum tíma var Tiger Woods mikið í fréttum svo þær ákváðu að taka hann og golfið fyrir. „Okkur fannst golf svo fáranlegt,“ segir Svanhildur. „Við skildum ekki þetta tungumál, „sex undir pari“ og „fugl“ og svoleiðis. Fyrsta myndin var einmitt „Fugl undir pari“, þar sem parið er forsetahjónin sem höfðu á sínum tíma beðið um tilfinningalegt svigrúm - sem þau fengu í aukaplássi á striganum. Á þeirri mynd má einnig finna Eyjafjallajökull og svo vildu einhverjar ævintýrapersónur koma líka, en við höfum sótt mikið í ævintýrin og listasöguna.“

Fljótlega fór svo þeirra persónulegi reynsluheimur að setja meira mark sitt á verkin. Svanhildur segir að þar hafi eitt leitt af öðru. „Söru fannst konan á myndinni af Tiger Woods líkjast mér. Það gaf tóninn.“ Fyrsta sjálfsmyndin var „Sjálfsmynd með könnu og pönnu“, og sýnir hún áhugamál þeirra. Næsta mynd sýnir þær svo spá í það hvað þær ætli að mála næst, með þá fyrstu í bakgrunni. „Þetta er mynd í mynd og í kjölfarið fylgdi mynd í mynd í mynd og svo enn ein þar sem við erum við að mála mynd af mynd í mynd í mynd.“ Vinnuferlið sjálft var þannig dókúmenterað gegnum málverkin, en verkin mála þær ætíð saman. Aðspurðar um hvort svona samvinna eigi sér hliðstæðu í listasögunni sagði Svanhildur: „Við vitum ekki til þess, höfum googlað og ekki fundið neitt og köllum hér með eftir vitneskju frá þeim sem vita um svona samvinnu.“

 

VEISLAN Í FARANGRINUM
Sýningin sem opnar í dag í Listasal Mosfellsbæjar heitir Veisla í farangrinum og er afrakstur af vinnuferð Söru og Svanhildar til Danmerkur. „Við sóttum innblástur í upplifanir okkar þar og unnum úr efninu þegar við komum heim. Þegar við fórum út vorum við þó með eitt sex fermetra verk í vinnslu í farteskinu; mynd af fjölskyldu okkar, foreldrum, systkinum, börnum, mökum og afkomendum. Við höfum áður málað syni okkar inn á málverk, og eiginmennirnir eru þarna einhvers staðar líka, en aðrir fjölskyldumeðlimir voru farnir að rukka okkur um það hvenær við kæmum með mynd af þeim svo við ákváðum að klára þetta bara í einni mynd. Þá er það frá,“ segja þær og hlæja. Þær segjast þó ekkert vita um það hvort fjölskyldan verði ánægð með útkomuna. „Þau hafa ekki fengið að sjá verkið ennþá þótt þau viti af því. Við viljum ekki að þau setji lögbann á þetta!“

 Sysfjol (800x 434)

 

L0SAÐI UM SPENNUNA
Það er mikill húmor í myndum þeirra Söru og Svanhildar og þær segja það koma af sjálfu sér. „En það er líka nóg af drama undir niðri,“ bæta þær við. Hugmyndirnar kvikni náttúrulega og eins og af sjálfu sér. „Við erum með skissur, gerum alls konar útfærslur og veltum þessu heillengi á milli okkar áður en við byrjum,“ segir Sara. „Eftir að við byrjum að mála gerum við líka miklar breytingar áfram.“ Þótt undarlegt megi virðast eru þær aldrei ósammála um slíkar breytingar. „Þó vinnum við mjög ólíkt. Svanhildur er nákvæmari, en ég er meiri brussa með pensilinn. Hún er svo meiri brussa á öðrum sviðum. Við vegum hvor aðra upp. Ég hef aðeins fínpússast og hún þorir að gera eitthvað sem ekki er fullkomið. Það er náttúrulega allt svo ófullkomið í kringum okkur og við öll svo breisk. Fullkomleiki er í raun mjög óspennandi.“

Svanhildur tekur undir það. „Þetta byrjaði líka þannig, fyrsta verkið okkar var svo ófullkomið. Það var ekki einu sinni hægt að velta sér upp úr smáatriðum, þetta var allt svo vitlaust og fór svo langt yfir mörkin að það var bara fyndið. Við erum mikil kvíðabúnt og tilfinningaverur en þarna einhvern veginn losnaði um kvíðann og spennuna. Lífið er ekki svo alvarlegt, og það er svo skemmtilegt að geta bara leikið sér. Ef eitthvað er ófullkomið í myndunum, til dæmis hendur sem virðast vera vanskapaðar, þá erum við ekkert að laga það, það verður bara að vera þannig. Stundum erum við að mála okkur sjálfar og þá birtist kannski andlit á einhverjum allt öðrum. Og stundum leyfir maður bara því andliti að vera. Á einni mynd er ég til dæmis alveg eins og ein vinkona mín. Ég er ekkert að breyta þvi. Þá bara vill hún vera þarna. Maður finnur það oft í gegnum svona vinnu hvernig allt passar bara. Eftir á sér maður oft samhengi þar sem ólíkir þættir falla saman eins og flís við rass. Og það gerist bara í orkunni á meðan við vinnum. Við köstum á milli okkar hugmyndum og þar sem við erum svo ólíkar vinnum við svona vel saman; önnur fær hugmynd og hin byggir ofan á þannig að einn plús einn verður meira en tveir. Og við eigum núna stóran bunka af hugmyndum sem við eigum eftir að vinna úr.“

 

ANNARS KONAR ORKA
Eitt af því sem einkennir myndir Söru og Svanhildar er einmitt mikil og  jafnvel óróleg orka og þær viðurkenna að samstarfið sé líka þerapískt. Þær ræða líka mikið saman á meðan þær mála og eiga mun meiri samskipti en áður. „Við erum ennþá ólíkar en höfum slakað á varðandi það,“ segir Svanhildur. „Vegna þess að þetta gengur svona vel sættum við okkur betur við að við erum eins og við erum og að það þýðir ekkert að vera pirraðar á því. Maður verður bara að sætta sig við það og nýta það.“ 

„Þegar við erum tveir ólíkir hugar að vinna saman þá opnast fleiri gáttir,“ segir Sara. „Ég er líka að vinna með  pappamassafígúrur. Þetta er skemmtilega ólíkt og ég er miklu ánægðari, miklu fullnægðari sem listamaður, þegar ég vinn svona á tveimur ólíkum sviðum. Það er ekkert hægt að líkja þessu saman. Enda mála ég allt öðru vísi þegar ég mála ein og Svanhildur líka.“

Svanhildur tekur undir það. „Fólk sem séð hefur myndir eftir okkur báðar og sér svo þessi verk finnst þau hvorki í mínum stíl né hennar. Þetta erum við báðar og meira en það. Það verður til eitthvað nýtt.“ Og þær segja ekkert annað koma til greina en að halda samstarfinu áfram.  „Já, allar þessar hugmyndir mála sig ekki sjálfar.“

 Systur Nef (427x 640)

 

Árið 2011 kom til samstarfs við Söru og Svanhildi bókmenntafræðingurinn Eiríksína kr. Ásgrímsdóttir en hún hefur tekið upp heimildamyndbönd um samvinnu þeirra systra. Á sýningunni á Bókasafni Mosfellsbæjar verða tvö vídeó frá vinnuferlinu í Danmörku á síðasta ári. Á vefsíðu Söru og Svanhildar má sjá myndbönd sem hún hefur gert með viðtölum við þær systur. Þar má einnig finna fleiri myndir eftir þær.

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.