Forboðnar sögur – Maurice eftir E.M. Forster

Rétt fyrir upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar skrifaði breski rithöfundurinn E.M. Forster skáldsöguna Maurice. Ástarsögu um ævi og örlög titilpersónunnar sem reynist vera samkynhneigð. Bókin kom hins vegar aldrei út á meðan Forster var á lífi því umfjöllunarefni hennar braut beinlínis í bága við lög. Á þeim tíma var samkynhneigð í Bretlandi refsivert athæfi og skuggi Oscars Wildes og örlaga hans lá yfir þeim ungu mönnum sem voru að vaxa úr grasi.

Edward Morgan Forster fæddist árið 1879 og ólst upp hjá einstæðri móður. Faðir hans dó úr tæringu þegar hann var innan við eins árs. Hann var bráðgáfaður sem barn en ofverndaður og ofdekraður af móður sinni og ömmu. Alls gaf hann út fimm skáldsögur á meðan hann lifði ásamt ótal greinum og greinasöfnum. Hann starfaði lengi vel sem kennari og fræðimaður og var hluti af hinum fræga Bloomsbury hóp en í honum voru m.a. Virginia Woolf og Lytton Strachey. Hann ferðaðist mikið, m.a. um Ítalíu, Egyptaland og Indland og hafði sú reynsla töluverð áhrif á skrif hans. Á fjórða og fimmta áratugnum starfaði hann sem umsjónarmaður þátta á BBC og gegndi heiðursstöðu við Cambridgeháskóla þar sem hann bjó jafnframt til æviloka.

Forster
E.M. Forster (1879-1970)

Maurice er ekki fyrsta sagan sem tekur á samkynhneigðri ást – né sú fyrsta sem kemur út. Árið 1893 kom út, án þess að höfundar væri getið, skáldsagan Teleny sem rakti dauðadæmt ástarævintýri fransks hefðarmanns og ungversks píanista. Sagan þótti svo vel skrifuð að hún hefur gjarnan verið eignuð Oscar Wilde þótt almennt sé talið að hún sé höfundarverk margra. Ólíkt Maurice er Teleny hins vegar klámfengið verk og var það gefið út sem slíkt. Sérstaða Maurice fólst í því að hún er í senn skörp samfélagsrýni á stéttarviðhorf og væntingar og tilraun til að sýna fram á að ástarsambönd karlmanna geti líka fengið farsælan endi.

Aðalpersónan, Maurice Hall, er ungur millistéttarmaður sem verður ástfanginn af skólafélaga sínum, Clive Durham, eftir að sá síðarnefndi játar honum ást sína. Samband þeirra er í alla staði  upphafið og siðprútt þótt þeir fari leynt með það. Maurice er meðalgreindur maður með óljósar hugmyndir um þrár sínar og langanir á meðan Clive, sem tilheyrir hærri stétt þjóðfélagsins, er skarpskyggn og þykist sjá í gegnum blekkingarvef samfélagsins. Þeir hrífast af hinum gríska hugmyndaheimi um ástir karlmanna og afneita kreddum kirkjunnar og finna þannig sambandi sínu hljómgrunn. Þeir sækja í félagsskap hvors annars en á algjörlega siðsömum nótum, án nokkurrar líkamlegrar snertingar og fjótlega án ástarjátninga því þeir töldu sig hafa sagt allt sem þurfti að segja.

Clive hafði sótt í þessa átt frá því að hann öðlaðist skilning á grísku. Ástin sem Sókrates bar til Fædons var honum innan seilingar, ástríðufull en samt hófstillt, líkt og aðeins fágaðri manngerðir geta skilið, og hjá Maurice fann hann manngerð sem var ekki aðeins fáguð heldur einnig viljug á þokkafullan hátt. Hann leiddi sinn ástkæra upp þröngan og fagran stíg, hátt yfir hyldýpi á báða bóga. Þannig héldi það áfram fram að lokamyrkrinu – hann gat ekki séð nokkra aðra ógn – og þegar það féll hefðu þeir í öllu falli lifað til meiri fullnustu en nokkur dýrlingur eða nautnaseggur, og hefðu tileinkað sér til hins ítrasta allt það göfuglyndi og sætleika sem heimurinn bauð upp á. Hann uppfræddi Maurice, eða öllu heldur andi hans uppfræddi anda Maurice, því þeir sjálfir urðu jafningjar. Hvorugur hugsaði „Er ég leiddur; er ég að leiða?“ Ástin hafði kippt honum út úr hinu hversdagslega og Maurice úr fáti svo að tvær ófullkomnar sálir gætu snert fullkomnun. (Maurice, 91)

Vel gengur í nokkur ár og engan grunar neitt. Skyndileg hvörf verða svo í lífi þeirra þegar Clive vaknar einn góðan veðurdag breyttur maður. Hann reynir að halda sambandi þeirra gangandi en þykist nú vera algjörlega afhuga karlmönnum og er farinn að veita konum aukna eftirtekt. Í kjölfarið trosnar upp úr sambandinu, Clive kvænist konu og Maurice reynir að halda lífi sínu áfram eins og ekkert hafi í skorist. En þótt yfirborðið sé slétt og fellt krauma vonbrigðin og óánægjan undir niðri:

Í fyrstu var hann stoltur af sjálfstjórn sinni: hélt hann ekki mannorði Clives í hendi sér? En hann varð sífellt biturri og óskaði þess að hann hefði öskrað á meðan hann hafði orku til þess og rifið niður lygavefinn. Hvaða máli skipti það þótt hann væri málinu tengdur? Fjölskylda hans og staða í samfélaginu hafði ekki skipt hann nokkru árum saman. Hann var útlagi í dulargervi. Ef til vill höfðu, á meðal þeirra sem létu sig hverfa aftur til náttúrunnar í gamla daga, verið til tveir menn eins og hann – tveir. Stundum leyfði hann sér að dreyma. Tveir menn gátu boðið heiminum birginn. (Maurice, 120)

Tíminn læknar öll sár og smám saman nær Maurice nokkurs konar þokukenndu jafnvægi í lífi sínu og sér fram á að halda því áfram einn síns liðs til dauðadags. Clive hefur tekið við hlutverki sínu sem herragarðseigandi og upprennandi stjórnmálamaður og með talsverðu samviskubiti býður hann Maurice í heimsókn. Dvöl Maurice á sveitasetrinu reynist honum kvöl. Durhamhjónin taka ekki eftir neinu og eiginkona Clives er sannfærð um að Maurice sé ástsjúkur eftir einhverri stúlku í borginni. Í reynd hefur Maurice tekið þá ákvörðun að reyna að læknast og hafið að sækja tíma hjá dáleiðandanum Lasker Jones sem á að koma eðli hans á réttan kjöl. Á sama tíma hefur hann vakið athygli veiðivarðarins á staðnum, ungs manns að nafni Alec Scudder, sem sér strax í gegnum hann. Þegar Alec skríður í gegnum glugga hjá Maurice eina nótt eru örlög þeirra beggja ráðin. Smám saman ná þessir ólíku menn saman og Maurice upplifir í fyrsta skipti ást á sál jafnt sem líkama – ást sem hann öðlaðist aldrei með Clive. Alec á bókað far til Argentínu ásamt fjölskyldu sinni þar sem hún ætlar að hefja nýtt líf en fórnar því til að vera með Maurice. Saman munu þeir leysa sig undna fjötrum samfélagsins og hverfa inn í opna arma náttúrunnar þar sem ástin nær að blómstra óhindrað.

MAURICE-008

 

UPPSPRETTA SKÖPUNAR
Árið 1913 heimsótti Forster þorpið Millthorpe þar sem vinur hans Edward Carpenter bjó. Carpenter þessi var mikils metinn sérvitringur og fyrrum prestur og þekktur fyrir óvenjulegar skoðanir. Hann yfirgaf stöðu sína við Cambridge háskóla eftir að hann missti trúna, setti upp grænmetisrækt í Millthorpe og afneitaði kjöti og áfengi. Þar gat hann unnið í náttúrunni og sinnt húmanískum skrifum sínum. Hann var ötull talsmaður réttinda samkynhneigðra og þegar Forster kynntist honum var hann kominn um sjötugt og bjó með manni sínum til margar ára, George Miller. Sá hafði verið verkamaður þegar þeir kynntust og var nokkuð yngri en Carpenter. Þótti samband þeirra bein ögrun við tíðarandann undir lok 19. aldar. Lög gegn samkynhneigð karla höfðu skömmu áður verið hert svo um munaði og fékk rithöfundurinn Oscar Wilde að súpa seyðið af þeirri lagasetningu. Í skrifum sínum var Carpenter þó nógu klókur til að draga úr líkamlega þætti sambandsins og studdist mikið við Samdrykkju Platons og hugmyndirnar sem koma fram þar um andlega ást. Samband Carpenters og Millers varð grunnurinn að sambandi Maurice og Alec í skáldsögunni en saman urðu þeir einnig kveikja hennar.     

491469874
George Miller og Edward Carpenter

Það hlýtur að hafa verið við aðra eða þriðju heimsókn mína í helgidóminn að neistinn var tendraður og hann og félagi hans, George Merrill, höfðu saman stórkostleg áhrif á mig og snertu hina skapandi lind. George Merrill snerti einnig bakhluta minn – létt og rétt fyrir ofan þjóhnappana. Ég held að hann hafi gert það við flesta. Tilfinningin var óvenjuleg og ég man hana ennþá líkt og ég man eftir staðsetningu tannar sem löngu er horfin. Hún var í senn bæði sálræn og líkamleg. Hún virtist sökkva beint í gegnum mjóhrygginn og að hugmyndunum án þess að snerta við hugsunum mínum. Ef svo var í reynd raunin hafði athöfnin verið í fullkomnu samræmi við jógadulspeki Carpenters og færði sönnur fyrir því að á þessu augnabliki hafði hugmynd mín komið undir.

Ég fór síðan aftur til Harrogate, þar sem móðir mín var undir læknishendi og byrjaði strax að skrifa Maurice. Engin önnur bóka minna hófst á slíkan hátt. Heildaruppdrátturinn, persónurnar þrjár, hin farsælu endalok fyrir tvær þeirra, steyptust inn í penna minn. (E.M. Forster – a life, 217)

Sú jógadulspeki sem Forster vísar í á upphaf sitt hjá Platoni – í ræðu Sókratesar í Samdrykkjunni. Eftir miklar vangaveltur heimspekinganna um andlegar og líkamlegar ástir kemst n.k. niðurstaða í málið: Þeir sem eru frjóir á líkamlega vísu hneigast til kvenna og sækjast eftir að skapa sér ódauðleika og orðstír í gegnum afkomendur. En þeir sem eru frjósamir á sálinni sækjast eftir að geta af sér visku og dyggð. Þeir laðast að því sem fagurt er og þegar þeir hitta fyrir fagra sál er aðdráttaraflið þeim mun meira.

Með því að snerta hinn fagra, að ég hygg, og vera návistum við hann getur hann afkvæmið sem hann hefur gengið með svo lengi. Hann minnist hins, hvort sem hann er nær eða fjær, og afkvæmið næra þeir í félagi. Svo slíkir menn eiga miklu meira samneyti hver við annan en foreldrar barna og traustari vináttu, enda eiga þeir saman fegurri og óforgengilegri börn! Hver maður kysi fremur að eignast slík börn en hin mennsku og liti öfundaraugum til Hómers og Hesjóðs og annarra góðskálda: þau láta eftir sig afkvæmi sem megnað hafa að geta skáldunum ódauðlega frægð og orðstír af því að þau eru sjálf ódauðleg. (Samdrykkjan, 119)

Þótt sagan um Maurice hafi verið tilbúin árið 1914 eyddi Forster næstu áratugum í ýmsar vangaveltur varðandi þessa frásögn sem stóð honum svo nærri. Honum var umhugað um að þarna væri rétt að verki staðið; að sögunni væri gerð sanngörn skil. Þótt útgáfa kæmi ekki til greina fengu ófáir vinir og kunningjar Forster að lesa hana og gefa álit sitt.  Stuttu eftir að Forster lauk við Maurice tók hann til við að sýna vinum sínum bókina en varfærnislega þó. Jákvæðar undirtektir voru honum gríðarlega mikilvægar þótt viðtökur hafi verið misjafnar. Forster sýndi einnig Lytton Strachey bókina og bjó sig undir harða gagnrýni. Strachey kom honum á óvart með því að vera mjög hrifin af henni en setti þó út á einstaka þætti sem Forster reyndist vera sammála  og tók tillit til við endurskrif. Einn slíkur þáttur var eftirmáli sem gerist nokkrum árum síðar og segir frá því þegar Kitty, systir Maurice, rekst á hann og Alec úti í skógi í hamingjusamri sambúð, úr öllum tengslum við umheiminn og samfélagið. Þarna þótti flestum Forster taka beygju út í hreina fantasíu og var eftirmálanum fljótlega fargað.

 

ENDURSKRIF
Maurice reyndist vera bók sem fylgdi Forster alla tíð. Flestir vinir hans fengu að lesa handritið (þó ekki Virginia Woolf en Forster leist ekki á ótrausta geðheilsu hennar) og ófáir komu með uppástungur að endurskrifum. Einn af þeim sem fékk handritið í hendur var rithöfundurinn Christopher Isherwood sem lýsir fundum þeirra Forsters svo árið 1933 í sjálfsævisögu sinni Christopher and his kind:

Á þeim tímapunkti sýndi Forster Christopher handritið af Maurice. Christopher fannst það mikill heiður, auðvitað, að fá að lesa það. Gamaldags orðalagið truflaði hann hér og þar. Þegar Alec talaði um kynlíf með Maurice sem „deilingu“, gretti hann sig og spriklaði með tánum af vandræðakennd. En samt var undrið við skáldsöguna það að hún skyldi hafa verið skrifuð þegar hún var skrifuð; undrið var Forster sjálfur, fangi í frumskógi fordóma áranna fyrir stríð, að hann skyldi setja þessar óhugsandi hugsanir niður á blað. Og kannski hlusta, við og við, til að auka kjarkinn hjá sjálfum sér – á fjarlægt högghljóð brautryðjendanna Edwards Carpenter og George Merrill, þar sem þeir stækkuðu sitt eigið skógarrjóður umbúðarlaust. (Christopher and his kind, 99)

Maurice var að mati Isherwood bæði æðri og óæðri öðrum skáldverkum Forsters. Honum þótti sagan ekki eins mikið listaverk heldur skara framúr hvað einlægni varðaði. Þannig stóð hún höfundinum nær og var skrifuð af einskærri ástríðu og sem snerti gífurlega við Isherwood við fyrsta lestur. Stærsta vandamálið varðandi bókina fólst í endinum. Isherwood bendir á að farsæl endalok hafi verið þau einu sem komu til greina því Forster hafði skrifað bókina með það fyrir augum að að árétta að slíkur endir væri mögulegur fyrir samkynhneigða. Hann tók tillit til ýmissa gagnrýnispunkta en endirinn skyldi alltaf fá að halda sér. Þó sá hann ástæðu, árið 1958, til að endurhugsa hann. Eftir að Forster eyddi eftirmálanum endaði sagan á því að Maurice horfir á eftir báti Alecs Scudder þar sem það siglir til Argentínu – án Alecs innanborðs – og nýr sér að Englandi með von í hjarta. Einn lesandi bar upp spurninguna um hvernig Maurice ætti að fara að því að finna Alec aftur.

Þetta atriði olli Forster áhyggjum og næsta árið eða svo gerði hann gagngera endurskoðun á endinum og bætti við kafla þar sem Maurice kemst heill á húfi í faðm Alecs. Hann hafði aldrei í hyggju að gefa bókina út á sinni lífstíð og var nú ekki viss um að hana bæri nokkuð að gefa út. Honum fannst hún gamaldags og „óljós í frásögn sinni.“ Einnig höfðu einn eða tveir kunningjar sem hann hafði nýlegt sýnt bókina verið frekar áhugalitlir. (304)

Forster lést árið 1970 og ári síðar kom Maurice loks út. Árið 1972 kom einnig út smásagnasafn sem innihélt opinskáar sögur hans um samkynhneigð. Árið 1979 birtist síðan tveggja binda ævisaga eftir P.N. Furbank þar sem farið var ítarlega yfir ævi Forsters og ekkert dregið undan. Allar þessar (samkynhneigðu) opinberanir höfðu þau áhrif að orðspor Forster beið talsverða hnekki. Ein afleiðing þess að Maurice var gefin út eftir dauða hans hefur verið sú að sögunni hefur oft ekki verið gert jafn hátt undir höfði og hinum verkum Forsters og sumir fræðimenn hunsað hana með öllu. Það viðhorf hefur þó breyst í seinni tíð og má sjálfsagt þakka það bæði breyttum tíðararanda sem og listilega gerðum kvikmyndaútgáfum af verkum Forsters.

L _93512_944be 104

 

AÐRAR SÖGUR
Kvikmyndin eftir sögunni kom út árið 1987 í leikstjórn og framleiðslu James Ivory og Ismail Merchant. Þeir höfðu þá nýlega lokið við að kvikmynda A room with a view og eftir góðar viðtökur voru þeir ekki í vafa um hvaða verkefni lægi næst fyrir þeim. Sú útgáfa sem birtist í kvikmyndaformi fylgir bókinni mjög nákvæmlega og hafa heilu samtölin skilað sér á tjaldið nokkurn veginn óbreytt. Þó er gerð ein mikilvæg breyting á söguþræðinum. Sá Clive sem birtist í myndinni verður ekki fyrir skyndilegri hugarfarsbreytingu heldur tekur hann meðvitaða ákvörðun um að snúa við blaðinu – rekinn áfram af ótta við uppgötvun. Hann er ekki tilbúinn að leggja stöðu sína og mannorð í sölurnar fyrir óvissa framtíð með Maurice. Kvikmyndagerðarmennirnir gátu engan botn fengið í hugarfarsbreytingu á borð við þá sem Forster lýsir í sögunni og bættu því við persónunni Risley sem kemst í kast við lögin sökum samkynhneigðar. Sú hneisa sem Risley stendur frammi fyrir hræðir Clive nógu mikið til að hann afneitar öllu því sem á undan hefur gengið. Ólíkt persónunni í bókinni hefur þessi Clive val og hann kýs að afneita sínu innra eðli.

Maurice3

Forster gerði nokkar atlögur að hugmyndinni um ástarsambönd manna af mismunandi stéttum. Smásagan „Arthur Snatchfold“ var skrifuð árið 1928 en líkt og Maurice kom hún ekki út fyrr en eftir dauða Forsters, í smásagnasafninu The life to come sem innihélt ófáar sögur um samkynhneigð. Í sögunni er Herra Richard Conway í heimsókn á hefðarsetri vinnufélaga síns og hyggur á smá morgunskemmtun með mjólkurpóstinum. Kynni þeirra reynast hin ánægjulegustu og lýkur með því að Herra Conway lætur mjólkurpóstinn fá smá peninga sem þakklætisvott. Mjólkurpósturinn, Arthur Snatchfold, tekur við honum með semingi og síðan skilja leiðir. Nokkrum mánuðum síðar á Herra Conway fund með starfsfélaga sínum og kemur þá upp úr dúrnum að vitni hafði verið að fundum félaganna og var Arthur Snatchfold handtekinn í kjölfarið. Ekki hjálpaði það málflutningi hans að lögreglumaður hafði orðið vitni að peningagjöfinni. Hann hafði þó ekki sagt til ástmanns síns og lagt sig í líma við að beina grunsemdum frá Herra Conway.

„The Other Boat“ var önnur smásaga sem skrifuð var á árunum 1958-59 og birtist í sama smásagnasafni og „Arthur Snatchfold.“ Forster hafði rekist á stutta sögu sem hann samdi 40 árum áður, um breska ekkju sem er á siglingu heim til Englands ásamt börnum sínum. Börnin, undir forystu elsta drengsins, Lionels, vingast við ungan indverskan dreng sem þau kalla Kókshnetu og saman þeytast þau um þilfarið í ýmsum skrítnum leikjum. Móðirin verður gröm og lætur reiði sína og biturð bitna á Kókoshnetu. Forster hafði gaman af sögunni og velti því fyrir sér hvað myndi gerast í kjölfarið. Hvað ef Lionel og Kókoshneta hittust 10 árum síðar á öðru skipi? Hvernig yrði sambandi þeirra háttað? Úr varð átakanleg saga um ást sem fer forgörðum. Sambandið endar á því að Lionel drepur Kókoshnetu og fleygir sér fyrir borð.

Forster hafði látið skáldskap sitja á hakanum um all langt skeið og einbeitt sér m.a. að ættar- og ævisögum en fann nú aftur neistann við ritun þessarar sögu. Hann var spenntur fyrir harmleikjaforminu sem honum fannst auðveldara að skrifa inn í en gamanleiki og hið harmræna og íróníska þema frásagnarinnar mun áhugaverðara en frelsunarþemað sem finna mátti í Maurice. Hinn fullorðni Kókoshneta var flókin persóna með eigin þrár og vélanir ólíkt hinni frekar einföldu persónu sem Alec Scudder var. Slík persónusköpun þótti honum nú fölsk. Vissulega gat fólk veitt hvort öðru hjálparhönd en fáir einstaklingar ráða úrslitum í örlögum annarra.

Ævisöguritarar Forsters hafa bent á smekk hans fyrir lægra settum mönnum og má sjá vísi að því í allmörgum af sögum hans. Þeir menn sem hann laðaðist að og átti samneyti við báru honum í öllu falli vitni. Þarna spilaði stéttarvitund Forsters stóran þátt. Skáldsögur hans taka margar á þeim raunverulega eða ímyndaða mun sem talinn var vera – og er jafnvel enn talinn vera - á milli stétta í Bretlandi, og á tilraunum til að brúa það bil. Í „Arthur Snatchfold“ fær sambandið aðeins að lifa stutta stund, í skóginum og fjarri siðmenningunni sem er fljót að brjóta sér leið að því og beygja að lögum sínum.  

 

ÆVILOK
Forster sótti innblástur fyrir bækur sínar í líf sitt og umhverfi. Ferðalag hans til Feneyja ásamt móður sinni varð honum mikill innblástur fyrir sögurnar Room with a View og Where Angels Fear to Tread. Aðalsöguhetja þeirrar fyrrnefndu, Lucy Honeychurch, er byggð að miklu leyti á honum sjálfum enda var persónan karlmaður í allra fyrsta uppkasti sögunnar. Ástmögur hennar, Emerson – ungi maðurinn sem kemur inn í líf hennar sem ferskur andblær og umturnar því -  virðist Forster hafa hins vegar byggt á vini sínum H.O. Meredith en hann þótti einnig greinileg fyrirmynd að Clive.

Árið 1930 – þá 51 árs - kynntist Forster ungum lögreglumanni, Bob Buckingham. Hann var 28 ára og af fátæku fólki kominn en gáfaður og vel lesinn og þeir Forster urðu fljótt góðir vinir. Ekki er ljóst hversu nánir þeir voru – Forster lét í veðri vaka að samband þeirra hafi verið innilegra en Buckingham vildi viðurkenna – en það reyndist verða það samband sem veitti honum mesta hamingju. Fljótlega eftir að þeir kynntust giftist Buckingham konu að nafni May Hockey og virtist sú snuðra hafa verið frekar lítilvæg í sambandi þeirra. Þeim May og Forster varð ágætlega til vina og þótt þau hafi á köflum bitist um tíma Bobs upplifði Forster í fyrsta skipti á ævinni alvöru hamingju. Mörgum árum síðar kulnaði sambandið þegar Buckingham virtist loksins gera sér grein fyrir samkynhneigð Forsters. Kom þessi hugljómun hans flestum öðrum á óvart þ.á.m. eiginkonu hans sem vissi ætíð af henni og verður að teljast frekar ótrúlegt að jafn skarpur maður og Buckingham annars var skyldi ekki sjá það sem allir aðrir sáu. Forster var þá orðinn mjög aldraður og nokkuð erfiður í umgengi og telur ævisöguritarinn Furbank að Buckingham hafi verið að reyna að ýta pirrandi gamalmenni frá sér. Eiginkona hans neitaði hins vegar að slíta sambandi við Forster og tilkynnti að hann myndi alltaf eiga vísan samanstað hjá þeim. Sambandið endist því í einhverri mynd til æviloka Forsters og hann lést á heimili þeirra 91 árs að aldri – haldandi um hönd May Buckingham.

 

VALD HINS ÓNEFNDA
Forster hélt samkynhneiðs sinni alla tíð út af fyrir sig. Nánustu vinir vissu hvað klukkan sló en hvað almenning – og móður hans - varðaði var hann staðfastur piparsveinn. Hann var grandvar gagnvart lögum og samfélagsáliti en ekki haldinn neinum blekkingum um eðli sitt. Eftir síðustu yfirferð á Maurice í kringum 1960 var hann loksins sáttur við útkomuna en sá ekki lengur tilgang með útgáfunni. Í fyrsta lagi gat hann ekki hugsað sér að hún yrði gefin út á meðan hann væri á lífi og í öðru lagi fannst honum hún vera orðin alltof gamalsdags – enda hátt í 50 ár liðin síðan skrif hófust. Tíðarandinn hafði breyst mikið, líkt og hans eigin viðhorf. Samkynhneigð karla var ennþá refsivert athæfi en umræðan hafði opnast mikið. Á þeim tíma er Maurice var skrifuð var umræðan um samkynhneigð í Bretlandi að mestu leyti þögguð en hún kraumaði engu að síður undir niðri. Bretar töluðu þá gjarnan um „the love that dare not speak its name“ – ástina ónefnanlegu – og varð hún þar með hluti af umræðunni í ónefnanleika sínum. Hvorki Maurice, Clive né Alec kunna að koma orðum að eðli sínu – aðeins dáleiðandinn, Herra Lasker Jones, gerist svo djarfur enda er hann gagnkynhneigður og þarf ekki að óttast að gefa hugmyndinni vald með því að nefna hana réttu nafni– en hún á þrátt fyrir það sinn stað í orðræðunni eða öllu heldur orðræðuleysinu. Forboðnar sögur verða jú fyrst að vera til svo hægt sé að banna þær.

 

Unnið upp úr útvarpsþætti sem gerður var fyrir RÚV og frumfluttur 18. apríl 2010.

 

HEIMILDIR

Christopher Isherwood,  Christopher and his kind : 1929-1939, London, Methuen, 1978.
E.M. Forster, Maurice, London, Penguin, 2000.

P.N. Furbank, E.M. Forster - a life, London, Secker and Warburg, 1977-1978. 
Platon, Samdrykkjan, Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 1999.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.