Fagnar fimmtíu sýningum og fimmtíu árum

Myndlistarkonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, sem hér á landi er þekktust fyrir einstaka tréskúlptúra sína af fólki og dýrum, fagnar merkilegum tímamótum næstu helgi með opnun sjö sýninga í Listagilinu á Akureyri. Þar heldur hún í senn upp á fimmtugsafmæli sitt og setur lokapunktinn við sýningaröð sem telur nú fimmtíu sýningar.

 8935182134_0ec 37ecb 13_c (1)

„Árið 2008 einsetti ég mér að setja upp fimmtíu sýningar á milli 45 og 50 ára afmælis míns,“ segir Aðalheiður. „Verkefnið nefnist Réttardagur 50 sýninga röð og þessar sjö sýningar eru lokahnykkurinn. Ég á afmæli 23. júní en sýningarnar opna klukkan 10 um kvöldið þann 22. júní og verður glaumur fram yfir miðnætti. Það verða ýmsir viðburðir í gangi, ljóðalestur, tónlist, gjörningar, tískusýning og fleira. Þetta er frábær leið til að halda afmæli og svo er alltaf gaman að ljúka ákveðnum áfanga. Þegar maður setur sér markmið er afskaplega gott að ná þeim.“

Sýningarnar fimmtíu hafa verið settar upp í öllum landshornum hér heima, en Aðalheiður hefur einnig sýnt erlendis; í Bretlandi, Danmörku, Þýskalandi og Hollandi, og að meðaltali hafa þetta verið um tíu einkasýningar á ári, sem telst nokkuð mikið. „Þetta hefur allt gengið samkvæmt áætlun og auðvitað verið gaman, krefjandi og lærdómsríkt. Það er líka skemmtilegt að kafa aðeins í þessa íslensku menningu því sýningarnar hafa allar fjallað um íslensku sauðkindina og þá menningu sem henni tengist.“

Þegar Aðalheiður er spurð hvort hún sé þá ekki orðin sérfræðingur í íslensku sauðkindinni hlær hún við. „Ég er farin að skrapa eitthvað af yfirborðinu en ég held að mér myndi ekki endast ævin til að fullkanna það viðfangsefni. Bændamenningin er sterk í íslensku þjóðarsálinni. Fólk tengist henni sterkum böndum og ég fjalla um fólkið, tengslin við sauðkindina og þetta daglega líf sem tengist sveitunum en jafnframt íslensku lífi almennt.“

8935211420_eaa 9480411_c (1)

Sýningarnar hefur Aðalheiður tengt dagatali sauðkindarinnar, eins og hún kallar það; fjallað um sauðburð á vorin og slátrun á haustin svo dæmi séu tekin. Hún hefur einnig unnið sýningar í samstarfi við aðra listamenn og skapandi fólk og segir að þá komi oft önnur og skemmtileg sjónarhorn á viðfangsefnið. „Á Akureyri tekur til dæmis fjöldi fólks þátt í sýningunum, allt listamenn sem eiga tengsl við Akureyri. Þær sýningar eru eins og yfirlit og binda saman allar þessar sýningar sem ég hef sett upp síðustu árin; Sauðburður heitir ein sýningin, Réttardagur heitir önnur, svo er Réttarkaffi, Slátrun, Fengitími, Á fjalli og Þorrablót.“

Það er viðeigandi að ljúka þessari seríu í Listagilinu, að mati Aðalheiðar, en þar hóf hún sinn feril. „Ég var með vinnustofur þar og vann þar sjálfboðastarf í fimmtán ár; aðstoðaði við uppbyggingu á húsum, tók þátt í safnakennslu í listasafninu og var listamönnum innan handar. Þetta umhverfi allt saman hjálpaði mér af stað með það sem ég er að gera. Þá er gott að geta borgað fyrir sig með því að setja upp svona stóra sýningu.“ Hún segir að gilið hafi tekið nokkrum breytingum í gegnum tíðina, eins og eðlilegt sé. „Fólk kemur og fer og það ber með sér breytingar. En eins og víðar er lítið fjármagn sett í myndlistina og auðvitað mætti hlúa betur að Listagilinu. Þegar svona fyrirbæri eins og Listagilið hafa sannað sig finnst mér eðlilegt að settur sé meiri peningur í þau af hálfu bæjarfélaga til að þau geti lifað og dafnað. Auðvitað er þetta alltaf spurning um það hvaðan peningar eiga að koma, og um forgangsröðun, en mér finnst að það mætti leggja meiri áherslu á að þarna geti verið blómlegt starf. Annars held ég að fólkið í Listagilinu sé að gera eins vel og hægt er miðað við aðstæður.“

8935205762_6661499e 8b _c (1)

Aðalheiður rekur nú heimili og vinnustofu í Freyjulundi, sem er í nágrenni Akureyrar, en nýlega keypti hún einnig gamla Alþýðuhúsið á Siglufirði. „Það er líka heimili og vinnustofa, en þar bætist við lítið gallerí sem heitir Kompan. Þar set ég upp sýningar eftir aðra listamenn og þá er opið fyrir almenning. Það er ótrúlegur menningarbragur á þessum litla bæ, Siglufirði, en kannski helst að fjölga mætti myndlistarsýningum. Þess vegna langaði mig að setja upp þetta gallerí. Ég stend einnig fyrir alls konar menningarviðburðum einu sinni í mánuði; gjörningum, fyrirlestrum og ýmsum uppákomum, en ég hef alltaf gert það jafnt og þétt í gegnum tíðina. Mér finnst það vera hluti af starfinu og ég hef aðstöðu til þess í Alþýðuhúsinu. Í Freyjulundi hef ég reyndar einnig haft opið hús í desember en það kallar á annars konar heimilishald og er ekki hægt að gera allan ársins hring.“

Þótt tréskúlptúrar Aðalheiðar hafi verið mest áberandi hér heima vinnur hún með ýmis önnur efni og aðferðir en segist alltaf fjalla um það sama; hversdagsleikann. „Þegar ég hef sýnt erlendis hef ég gjarnan verið með eitthvað annað en tréskúlptúra því það er svo dýrt að senda þá til útlanda. Hér heima nota ég hins vegar tækifærið til að sýna þá. Og auðvitað hafa kviknað nýjar hugmyndir á leiðinni sem ég þurfti að ýta til hliðar því ég vildi klára þetta verkefni. En nú verður kannski tekinn nýr vinkill og stærra skref til hliðar.“

Sýningar Aðalheiðar í Listagilinu munu standa frá 22. júní til 11. ágúst.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.