Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Á réttri hillu - fyrstu íslensku blaðakonurnar

Á réttri hillu - fyrstu íslensku blaðakonurnar

Ef tekið væri mark á fjölmiðlum sem sögulegri heimild lægi beinast við að álykta að íslenskar konur hafi ekki einungis verið óskrifandi og gert lítið sem merkilegt þótti í heila öld frá því fyrsta íslenska tímaritið kom út árið 1773. Það mætti hreinlega komast að þeirri niðurstöðu að konur hafi ekki verið til, svo sjaldgæft er að minnst sé á þær. Yfirlit um sögu fjölmiðla ýta einnig út á jaðar sögunnar þeim fjölmörgu konum sem fóru að láta til sín taka í fjölmiðlum upp úr 1880. Þetta er áhyggjuefni í ljósi þess að enn er fjölmiðlum að mestu leyti stýrt af körlum. Ætli framtíðarkynslóðir fái jafn bjagaða mynd af fortíðinni og við sitjum uppi með?

 

ERLEND ÁHRIF
Árið 1885, rúmri öld eftir að fyrsti íslenski fjölmiðillinn1 kemur fram, sjást fyrstu augljósu merki þess að konur láti að sér kveða í íslenskum fjölmiðlum, þótt einhverjar hafi áður skrifað í tímarit og dagblöð undir dulnefni, eða í erlenda miðla.

Eins og fyrstu íslensku blaðakarlarnir, sem komu fram um hundrað árum fyrr, voru fyrstu íslensku blaðakonurnar menntaðar konur sem dvalið höfðu erlendis um lengri eða skemmri tíma og kynnst þar blaðamennsku. Torfhildur Hólm skrifaði ljóð og stuttar sögur í vesturíslenska blaðið Framfara á árunum 1878 og 1879 og Vestur-Íslendingurinn Frida Sharpe (eða Hólmfríður Þorvaldsdóttir) skrifaði „allmargar greinar“ í bandarísk tímarit, samkvæmt eftirmælum um hana. Hún er sögð hafa helgað bókmenntum „alla sína bestu krafta“ og unnið að „útbreiðslu Norðurlanda bókmenta í Ameríku“.2 Sem dæmi er nefnd grein hennar um August Strindberg, sem birtist í blaðinu Critic þann 12. febrúar 1898. Líflegur inngangur þeirrar greinar og lokaorð á léttum nótum bera með sér að höfundurinn hefur gott vald á því að skrifa í blaðagreinastíl, á aðgengilegan og grípandi hátt.

Frida Sharpe var ekki sýnileg í íslenskum fjölmiðlum en í fyrsta tölublaði Dýravinarins, sem kom út árið 1885, birtist saga eftir Benedicte Arnesen Kall, og aftur birtast sögur eftir hana þar árin 1887 og 1891. Benedicte var af íslenskum ættum, dóttir orðabókahöfundarins Páls Arnesens, en búsett í Danmörku. Í Kvennablaðinu í desember 1895 kemur fram að hún hafi skrifað greinar í tímarit, ásamt margvíslegum öðrum ritsmíðum.

 

KVENNABLÖÐ
Samkvæmt bókinni Strá í hreiðrið birtist fyrsta íslenska blaðagreinin eftir konu 6. júní 1885 í Fjallkonunni, blaði Valdimars Ásmundssonar en hann átti seinna eftir að kvænast greinarhöfundinum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Bríet segist í bréfi snúa sér til hans, því stefna Fjallkonunnar gefi til kynna að hann sé frjálslyndur og menntaður framfaramaður og vísar til langrar forsíðugreinar um kvenfrelsi í öðrum árgangi Fjallkonunnar.3 Fimm dögum síðar birtist fyrri hluti greinarinnar „Nokkur orð um menntun og réttindi kvenna (eftir unga stúlku í Reykjavík)“ á forsíðu Fjallkonunnar og niðurlagið í næsta tölublaði, með undirskriftinni „Æsa“. Um viðtökurnar segir í bókinni Strá í hreiðrið:

Eitthvað hlýtur þó að hafa kvisast út hver höfundurinn væri því í [bréfi frá Bríeti] til Elísabetar [Sveinsdóttur] stendur á spássíu: „Ekki held eg að eg nenni að rita í blöðin í vetur. Eg er ekki „upplögð“ til þess og fékk líka nærri óbeit á hinni greininni því það var eins og allir undruðust að eg væri með öllu viti.“ Viðtökurnar hafa sem sagt ekki verið beinlínis hvetjandi.4
Draupnir

Draupnir var fyrsta tímaritið sem ritstýrt var af konu. Það var gefið út af Torfhildi Hólm á árunum 1891 til 1908. Efnið var frumsamdar og þýddar framhaldssögur, sannar sögur, smásögur og ljóð. Þar birti Torfhildur sögur eftir sjálfa sig. Hún gaf einnig út barnablaðið Tíbrá, sem var mestanpart sögur með boðskap, en það kom einungis út tvisvar, árið 1892 og 1893.

Bríet lét þetta þó ekki aftra sér frá því að halda opinberan fyrirlestur fyrst kvenna þann 28. desember 1887, um hagi og réttindi kvenna, og þá virðast viðbrögðin jákvæðari. Ísafold lofar frammistöðu hennar og Matthías Jochumsson þakkar fyrirlesturinn í Fjallkonunni árið 1888. Bríet og Valdimar giftust en heimili þeirra var „líka skrifstofa og afgreiðsla Fjallkonunnar“.5  Það á eflaust sinn þátt í því að árið 1895 réðst Bríet í að gefa út sitt eigið tímarit, Kvennablaðið. Á sama tíma stíga mæðgurnar Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaptadóttir á Seyðisfirði fram með tímaritið Framsókn. Líkt og Bríet var Sigríður gift ritstjóra, Skapta Jósefssyni. Björg Einarsdóttir segir beinast liggja við að álykta að Bríet og Sigríður „hafi orðið öðrum konum á sinni tíð innvígðari í heim blaða og útgáfumála“. Nefnir hún einnig að Ingibjörg Skaptadóttir muni „hafa starfað með föður sínum og síðar Þorsteini bróður sínum við Austra [sem kom út frá 1891] að allri venjulegri blaðamennsku og einnig ritstörfum“.6

Hér voru því á ferð konur sem voru þaulkunnugar fjölmiðlaútgáfu og -skrifum. Þær höfðu að auki fyrirmynd í kvennatímaritum annars staðar á Norðurlöndum og Englandi, en í Kvennablaðinu og Framsókn birtust reglulega þýðingar úr erlendum tímaritum.

 

HVAÐ ERU KVENNAMÁL? 
Að mörgu leyti eru blöð Bríetar og Valdimars, Kvennablaðið og Fjallkonan, eins og tveir aðilar í hjónabandi. Það er hjónasvipur með þeim en þau taka að sér aðskilin hlutverk hins kvenlega og hins karllega. Slík aðgreining krefst nokkuð góðrar skilgreiningar á því hvað teljist vera kvenlegt áhugasvið og Bríet setur markvisst fram skilgreiningar á því í fyrstu árgöngum Kvennablaðsins. Megináherslan er á tengsl kvenna og heimilisins:

Það hefir lengi verið sagt, að heimilin væru ríki kvennanna; því skyldum við þá ekki vilja hlynna sem bezt að þeim? Hvort sem við erum giftar eða ógiftar, verður það þó jafnan ofan á, að við erum húsmæður, mæður, dætur eða vinnukonur. Allar vinnandi okkur sjálfum og öðrum gagn beinlínis og óbeinlínis. Engin okkar neitar vist því, að flestar af okkur bæði ríki og kjósi helzt að ríkja á heimilunum, án þess þó við könnumst við að okkur sje ekki leyfilegt að líta út fyrir bæjardyrnar, eða að við höfum ekki rjett eða hæfileika til að gegna fleiri störfum.7

Í blaðinu eru jafnan greinar um hannyrðir og heimilisiðnað, þýddar framhaldssögur sem bera oftar en ekki boðskap um göfugt hlutverk húsmæðra, greinar um uppeldismál og matreiðslu, uppskriftir, húsráð og skrítlur. Engar greinar voru merktar og Bríet er ein skrifuð fyrir blaðinu.

Haldið er á lofti dyggðum eins og vinnusemi, hreinlæti, heilsurækt og öðru „nytsamlegu“. Áherslan er á uppfræðslu og siðaboðskap.

 

RÓTTÆK HAGSMUNABARÁTTA
Í 19. júní kemur fram að Kvennablaðið „gaf sig einkun að menningarmálum kvenna, og þá sér í lagi málefnum heimilanna“ en beitti sér „í fyrstu ekki að neinu ráði fyrir réttindamálum kvenna“.8 Það gerði hins vegar Framsókn sem hóf fyrsta tölublað sitt á því að segjast „leitast við að styðja lítilmagnann, rjetta hlut þeirra sem ofurliði eru bornir, hvetja hina óframfærnu til einurðar, ryðja braut kúguðum en frjálsbornum anda fram til starfs og menningar“. Finna má svipaða tilhneigingu og hjá Kvennablaðinu til þess að afmarka ákveðin kvenleg málefni út frá hefðbundnum viðmiðum; bindindismál eru sögð „nærtækasta baráttumál kvenna“, garðyrkjan fær sitt pláss, sem og uppeldismál og málefni barna. Aðaltilgangurinn var þó „að hlynna að menntun og sjálfstæði íslenzkra kvenna, og að undirbúa þær til að girnast og nota þau réttindi er aldirnar kunna þeim að geyma“. Konur áttu „sjálfar að frambera sínar kröfur“ en „ekki biða eptir því að karlmennirnir sjálfkrafa rjetti þeim allt upp í hendurnar“.9 Tónninn er því allt annar og herskárri en í Kvennablaðinu.

Uppsetning og skipulag blaðanna beggja fylgir hefðbundnum línum þessa tíma; byrjað er á lengri greinum sem yfirleitt eru um samfélagsleg málefni sem eru ofarlega á baugi, þar sem blaðið fylgir ákveðnum pólitískum línum. Í kjölfarið fylgja aðsendar greinar og ýmsar fréttir og í lokin er smælki; tilkynningar, brandarar og þýddar smáfréttir.

Femínísk afstaða litar hins vegar bæði efnistök og efnisval Framsóknar og hér sækja Sigríður og Ingibjörg greinilega innblástur út fyrir landsteinana. Í lok fyrsta tölublaðsins eru til dæmis tvær smáfréttir; um að tvær kínverskar prinsessur hafi tekið kristni og um þá framför að háskólinn í Heidelberg í Þýskalandi leyfi nú konum loks að sitja fyrirlestra.10

Framsókn setur fram nokkuð róttækar kröfur í nafni kvenfrelsis, jafnvel á nútíma mælikvarða. Til dæmis telja ritstýrurnar ekki aðeins að skoða verði drengi og stúlkur sem jafningja og gefa þeim „jafna fræðslu og jafnt frelsi“. Þær hika ekki við að hvetja mæður til að nota stöðu sína sem uppalendur til að móta unga drengi sem stúlkur og segja að þeir sem ala upp börnin þurfi að „reyna að uppræta úr hjörtum drengjanna“ alla kvenfyrirlitningu sem samfélagið elur á allt frá barnsaldri og „innræta stúlkunum sjálfstæðari hugsunarhátt, svo þær þurfi ekki að vera komnar uppá náð karlmannanna“.11 Í öðru blaði má finna litla, þýdda sögu úr norska kvennablaðinu Nylænde um 4 ára strák sem telur sig hafinn yfir 25 ára kvenmann. Þetta er kannski fyndið núna, segir í norsku greininni, en von bráðar kemst kannski móðirin „að raun um að hin gamla skoðun hefur gjört drenginn svo óstýrilátan og hrottalegan, að hún fær engu tauti við hann komið“. Niðurstaðan er: „Hafið því gát á börnunum frá því þau eru í reifum.“12

Einnig má finna tengingu við sósíalískar hugsjónir. Í einu blaði birtist til dæmis smágrein um konungsdóttur í Þýskalandi sem gekk í hjónaband með manni af borgaralegum ættum og lagði konungstignina á hilluna: „Hún hefur aðstoðað mann sinn á allan hátt, hjúkrað sjúklingum og látið sjer annt um fátæklinga, og nú síðast hefur hún frá ræðupalli sósíalista talað fyrir jafnrjetti og bróðurkærleika.“13

Framsókn og blaðakonur hennar hika heldur ekki við að rífa kjaft við karlablöðin, og ekki bara Fjallkonuna, þegar ritstjórinn þar, Valdimar Ásmundsson, hefur látið að því liggja að í Framsókn sé fyrst og fremst að finna bergmál af orðum eiginkonu sinnar, Bríetar.14 Framsóknarkonur bregðast líka við orðum Boga Th. Melsteðs í Eimreiðinni þar sem hann segir að aðeins Kvennablaðið hafi flutt góða grein um kvennasýninguna í Kaupmannahöfn 1895. Kemur í ljós töluvert keppnisskap milli þessara tveggja kvennablaða, sem annars forðast allar beinar deilur, þegar Framsókn minnir á sína umfjöllun sem birtist á undan grein Kvennablaðsins og biður Boga „að hafa Framsókn undanskilda, er hann talar um þau blöð, er hafi skýrt skakkt frá sýningunni.“ Framsóknarkonur virðast ekki hafa neina sérstaka minnimáttarkennd gagnvart þessu jafnaldra karlatímariti þegar þær bæta við ádrepu sína þessari almennu ábendingu: „Yfirhöfuð væri mönnum betra að hugsa sig dálítið um og rannsaka það sem um er að ræða, áður en þeir gefa út sína sleggjudóma.“15 Í næsta hefti Eimreiðarinnar er athugasemdar Framsóknar getið en engu bætt við frá hendi Eimreiðarinnar.

 

VERKASKIPTING
Þótt Valdimar hnýti í Framsókn í Fjallkonunni, að því er virðist fyrir að „stela“ hugmyndinni að kvennablaði, eru engar væringar á milli þessara tveggja blaða á síðum þeirra og þau fylgja þeirri íslensku hefð að skipta með sér verkum frekar en að vera í beinni samkeppni – hefð sem sprettur af fámenni og takmörkuðum efnum. „Mitt blað átti að fást aðallega við menntamál kvenna, uppeldismál, alþýðufræðslu, húsmæðraskóla og ýmis socialmál og yfir höfuð réttindi kvenna til sömu starfa og launa og karlar“, segir í æviágripi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. „Hitt blaðið átti aðallega að hafa meðferðis bindindismál og ýmis pólitísk mál, þar á meðal kvenréttindamál ýmis konar.“16

Bríet lætur nefnilega pólitíkina ekki alveg vera þótt hún stígi varlega til jarðar. Hún stenst til dæmis ekki mátið að blanda sér í umræðuna um það hvort búnaðarskólar séu „hagkvæmastir fyrir alþýðustúlkur“ með langri framhaldsgrein. Þrátt fyrir að Þjóðólfur hafi þegar fjallað um málefnið segir Bríet að Kvennablaðið vogi einnig „að hefja máls á þessu efni“ þar sem það sé „svo nauðsynlegt, að það verður að skoðast rækilega“. Hógværðin virðist þó aðeins dulin gagnrýni á önnur blöð er hún bætir því við að Kvennablaðið líti ekki á sig „sem það „autoritet", sem þjóð og þing sje svo bundið við, að hverja tillögu verði að taka til greina, sem það hefir meðferðis, þótt hún væri að engu leyti undirbúin eða útskýrð“. Blaðið vilji „því færa lesendum sínum sem ljósasta skýrslu af þessum skólum, til þess að menn geti sjálfir sjeð og dæmt um“.17

Bríet er líka ötul við að koma á framfæri menntuðum og framsæknum konum. Hún segir frá því að Camilla Bjarnason sé „hin fyrsta íslenzk kona, sem lokið hefir stúdentsprófi og háskólaprófi“, tvær stúlkur hafi tekið 4. bekkjar próf í latínuskólanum, Ólafía Jóhannsdóttir og Elínborg Jakobsen, og „Fröken Kristín Benediktsdóttir sýslumanns“ hafi „fengizt við bóknám í Kaupmannahöfn“.18 Stöku sinnum birtast í Kvennablaðinu myndir af merkum íslenskum konum með stuttu æviágripi. Sú fyrsta birtist 23. ágúst 1895 og er af Valgerði Þorsteinsdóttur, forstöðukonu Kvennaskólans að Laugalandi í Eyjafirði.

 

MENNTAKONUR GERAST BLAÐAKONUR
Eitt af því sem vekur mesta athygli við fyrstu kvennablöðin er að ritstýrurnar og aðrar konur sem leggja til greinar eru greinilega vel pennafærar og hljóta að hafa skrifað töluvert áður en þær réðust í útgáfu blaðanna. Greinarnar í Framsókn eru margar ómerktar eða aðeins með upphafsstöfum svo erfitt getur verið að ráða í það hver höfundurinn hefur verið. Líklegt er að Sigríður og Ingibjörg hafi skrifað mest af efninu sjálfar og þýtt framhaldssögurnar. Inn á milli eru ljóð merkt þekktum karlskáldum. Ómerkt ljóð eru líka stundum birt en erfitt að segja til um það hvort þau séu eftir konur. Efni eftir Jarþrúði Jónsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur verður þó smám saman áberandi á síðum Framsóknar og á endanum taka þær við ritstjórninni.

Meðal þeirra sem skrifa greinar í Kvennablaðið er Þóra Pétursdóttir Thoroddsen, sem hafði þegar sett á laggir teikniskóla fyrir konur og gefið út Leiðarvísi til að nema kvennlegar hannyrðir ásamt frænkum sínum Þóru og Jarþrúði Jónsdætrum. Þóra skrifar fyrst grein um kvennasýninguna í Kaupmannahöfn „þar sem hún sjálf átti verk“ og í október 1897 birtist eftir hana grein um dönsku skáldkonuna Johanne Schörring sem hún þekkti „persónulega í gegnum ýmis kvenfélagsstörf í Kaupmannahöfn“, samkvæmt nýlegri ævisögu um Þóru eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Sigrún segir að Schörring hafi þótt „höfða til hinnar lesandi alþýðu fremur en gagnrýnenda, svolítið eins og Torfhildur Hólm“. Sögurnar fjalli „um konur sem unna hlutverki sínu sem mæður og eiginkonur“ og séu „lausar við glæpi og ruddaskap“ enda sé grein Þóru „prúðmannlega skrifuð: framsetningin allt að því bæld og hinn líflegi stíll“, sem sést í bréfaskrifum hennar, víðs fjarri.19 Konurnar löguðu því skrif sín að formlegri kröfum prentmiðilsins og beittu þeim stíl sem þær töldu við hæfi á opinberum vettvangi.

 

VETTVANGUR ALLRA KVENNA
Í bók Sigrúnar kemur fram að konur á borð við Þóru Pétursdóttur og frænku hennar Jarþrúði Jónsdóttur voru ekki aðeins vel menntaðar heldur stunduðu lífleg bréfaskrif og æfðu þar pennafimi sína. Það eru þó fleiri en heldri konur og menntaðar sem tjá sig í fyrstu kvennablöðunum. Framsókn hvetur fólk, og þá sérstaklega konur, til að senda inn greinar „um þau mál er þeim þykir mestu um varða“. Þegar svo sé komið, að konur haldi út sínu eigin blaði og riti í það almennt, „þá mun varla með sanni hægt að segja að íslenzka kvennþjóðin sje „nauðalítið hugsandi"".20

Greinilegt er að konur (og karlar) nýta sér í sífellt meira mæli þennan vettvang til að skrifa og æ oftar undir réttum nöfnum. Í 1. tbl. 1898 eru til dæmis þrjár veigamiklar greinar eftir nafngreindar konur; Elínu Eggertsdóttur, Þuríði Jakobsdóttur og Ingibjörgu Skaptadóttur.Smám saman fara konur að senda bréf. Í fyrstu aðallega undir dulnefni og má stundum sjá að það hefur krafist nokkurs hugrekkis. „G.“ segist árið 1898 hafa verið „góðvina“ blaðsins frá upphafi en feimin við að senda því bréf: „enn meir dró það úr mjer kjark að jeg þekkti margar stúlkur og konur sem eru mjer miklu færari að skrifa í blað, en þær þögðu allar, svo mjer fannst þetta mundi vera fjarskalegur vandi, en eptir því sem jeg kynntist þjer betur fann jeg að þú ert svo alþjóðleg og hugljúf að einginn þarf að óttast að tala við þig“.21 Efni bréfsins er að ráðleggja konum að taka sér stutta stund til að lesa á hverjum degi, þrátt fyrir annir, það komi í veg fyrir að þær einangrist og verði þungar í sinni. „R.“ segist nokkrum árum fyrr aldrei hafa tekið sér „penna í hönd til að rita í dagblöð“ en treystir sér til að senda „þjer, kæra Framsókn, örfáar línur“ þar sem skorað er á íslenskar konur að taka alþýðumenntun og kvennaskóla til umfjöllunar „í blöðum vorum“.22 Framsókn tekur áskoruninni því barátta fyrir kvennaskóla á Austurlandi verður mjög áberandi á síðum blaðsins næstu árin.

Aðsendu bréfin eru vel skrifuð og lýsa yfirleitt vel úthugsuðum og rökstuddum skoðunum. Verið getur að ritstýrurnar hafi haft hönd í bagga en þó stendur eftir að alls konar konur um allt land höfðu hæfni til að skrifa efni í blaðagreinastíl og höfðu svo sannarlega áhuga á að tjá sig þegar tækifærið gafst. Tækifæri sem þær sköpuðu sér sjálfar.

 

KVENNAPÓLITÍKIN EKKI SÖLUVÆNLEG
Ári eftir að Kvennablaðið hóf göngu sína státar það af því að hafa „nú um 2500 kaupendur“, sem sýni „að kvenþjóðin er ekki lakari til liðveizlunnar enn karlmennirnir, því ekkert hinna blaðanna“ hafi enn „náð slíkri útbreiðslu.“23 Kvennablaðið virðist hafa verið markaðslega rétt hugsað, enda stríddi það ekki gegn viðtekinni hugmyndafræði og hélt baráttu fyrir réttindum kvenna á lofti á hógværan og „siðsamlegan“ hátt.

Olafia

Ólafía Jóhannsdóttir ritstýrði Framsókn en einnig barnablaðinu Æskunni árið 1899 og Ársriti hins íslenska kvenfélagsárin 1895 til 1897 og 1899. Efni ársritsins var frumsamdar og þýddar greinar um kröfur og réttindi kvenna hér á landi og erlendis, umræða um  menntun og stofnun háskóla, sögur og ljóð.

 

Framsókn barðist hins vegar í bökkum. Eftir fjögurra ára útgáfu seldu Sigríður og Ingibjörg blaðið til Jarþrúðar Jónsdóttur og Ólafíu Jóhannsdóttur, en báðar höfðu þær skrifað töluvert í það.24       

Af þeim tveimur virðist Jarþrúður hafa haft meiri bókmenntaáhuga, enda ljóðskáld með meiru. Hún þýðir umfjallanir um erlenda rithöfunda, ásamt útdráttum úr ritum þeirra og skrifar ritdóma um íslensk verk. Hún skrifar til dæmis langan og lofsamlegan ritdóm í október árið 1900 um Kvæði Benedikts Gröndals, með ítarlegri greiningu á því hvað einkenni skáldskap hans. Sumir ritdómarnir eru með pólitísku ívafi eins og algengt var á þessum tíma, t.d. þegar fjallað er um Kúgun kvenna, en þar segir að allir hljóti að ljúka á hana lofsorði „er lesa hana með góðri dómgreind og unna frelsi og jafnrétti mannanna.“ Hverri konu sé nauðsynlegt að kynna sér bókina, „til þess að fá réttar hugmyndir um frelsi sitt og réttindi sín skýrðar með skörpum og skynsamlegum rökum“.25

 

KONUR VERÐA SÝNILEGAR
Þótt finna megi sósíalíska undirtóna í Framsókn er pólitíkin þar fyrst og fremst kvennapólitík. Í kvennablöðunum má finna umfjallanir um merkar konur og þar fá íslenskar skáldkonur vettvang til að birta ljóð sín. Árið 1901 birtast t.d. í Framsókn kvæði eftir nafngreindar konur; Birgittu Tómasdóttur, Dýrólínu Jónsdóttur og Elínborgu Pétursdóttur, auk þess sem Jarþrúður26 skrifar grein um kvæði eftir Huldu. Sama ár er í blaðinu grein um Torfhildi Hólm, þar sem fram kemur að hún sé eina íslenska konan sem samið hafi langar skáldsögur (rómana). Hún hafi líka samið barnasögur o.fl. og sé „orðin kunn um land allt af bókum sínum“. Í lokin er sagt að hún verðskuldi meiri skáldastyrk en Alþingi veiti henni nú þegar27 og klykkt út með þessari staðhæfingu: „Ættu konur almennt að ákveða styrkinn, mundu þær ekki skera hann svona við neglur sér, því að íslenzkar konur meta svo siðgæðisanda þann, er gengur eins og rauður þráður gegnum allar hennar bækur.“28

Sama ár hóf Torfhildur útgáfu Dvalar, sem hún ritstýrði frá 1901 til 1917. Efni þess var m.a. hannyrðir, fræðandi greinar, sögur og merkilegar frásagnir. Það er greinilegt á Dvöl að Torfhildur þarf smám saman að finna út hvað virkar sem blaðaefni og hvað ekki. Hún byrjar á löngum framhaldsgreinum en viðurkennir svo að lesendur séu mishrifnir af þeim. Hafi hún því ákveðið, „til að gera sem flestum til hæfis“ að „hafa nokkuð af öllu þessu við og við, en ekki svo mikið að nokkur fái leiði á neinu sérstöku“.29 Lesendur blaðsins gátu þannig fylgst með blaðamennskunni þróast og hvernig rithöfundurinn Torfhildur aðlagaði sig að fjölmiðlum í örri þróun. Þótt blað hennar hafi lítið tekið þátt í þjóðmálaumræðunni  var það í svipuðum dúr og tvö „vinsælustu almenningsrit tímabilsins“, Almanakið og Dýravinurinn, sem Vilhjálmur Þ. Gíslason segir hafa verið „í léttum og mjúkum alþýðustíl, með fjölbreyttu fróðleikssmælki, sögulegu og hagfræðilegu, og fallegum eða hetjulegum dýrasögum“.30

Björg Einarsdóttir segir að Jarþrúður Jónsdóttir hafi skrifað töluvert í Dvöl,31 en Framsókn lagði upp laupana um áramótin 1901-1902 „og er það mál manna að pólitíkin hafi orðið því blaði að fjörtjóni“, segir í Strá í hreiðrið. Kvennablaðið hafi þá tekið upp baráttuna í réttindamálum kvenna sem reyndist því dýrkeypt: „Enda hrynja af því kaupendurnir.“32 Bríeti tókst þó að halda blaðinu úti alls í 25 ár, til ársloka 1919.

 

STIGIÐ INN Á KARLASVIÐ
Þótt kvennablöðin hafi að mestu leyti haldið sig við málefni er talin voru varða konur, má einnig sjá þar konur fikra sig inn á svið þar sem karlar höfðu áður verið einráðir og blanda sér til dæmis í menningarumræðuna. Umfjallanir um leiksýningar birtust oft í Kvennablaðinu og enn er áhugavert að fylgjast með hægfara þróun hjá Torfhildi Hólm sem færir sig smám saman upp á skaftið með ritdóma í Dvöl þar til þeir verða að föstum lið. Oft beina kvengagnrýnendur athyglinni að verkum kvenna, og þótt ekki sé algilt að umfjöllun kvenna um  kvenrithöfunda sé lofsamleg er nokkuð algengt að sjá þær taka upp hanskann fyrir þær kynsystur sínar sem þeim finnst ekki njóta sannmælis.

Í formála að þulum sínum sem birtust í Skírni árið 1914, svarar Theodora Thoroddsen til dæmis Guðmundi Finnbogasyni, sem hafði sagt í ritdómi um ljóðabók Ólafar frá Hlöðum að þulan væri kvenlegur bragarháttur „sem konur séu sjálfkjörnar til að yngja upp, fegra og fullkomna.” Theodora telur hins vegar ástæðu þess að konur velji sér þuluformið frekar liggja í samfélagslegum aðstæðum en óstöðugu eðli kvenna, eins og karlmennirnir haldi fram.33

Í karlablöðum eru kvengagnrýnendur sjaldséðir en Björg C. Þorláksson, fyrsta íslenska konan sem lauk doktorsprófi, skrifar þó ritdóm um heimspekiritið Hugur og heimur eftir Guðmund Finnbogason í Eimreiðinni í 3. tbl. 1913. Í ævisögu Bjargar eftir Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur kemur fram að með þessum dómi hafi líkt og losnað um stíflu hjá Björgu því þetta ár og næsta birti hún sjö ritsmíðar, m.a. ritdóma og greinar um merkar erlendar konur.34

 

SKÖRP SKIL
Femínískar rannsóknir hafa leitt í ljós að konur skrifa yfirleitt mikið í tímarit og dagblöð þegar uppgangur prentaðra fjölmiðla er sem mestur og á meðan hefðir eru ómótaðar; t.d. á Englandi og meginlandi Evrópu á 17. og 18. öld og í Bandaríkjunum á fyrri hluta 19. aldar.  Um leið og ramminn fer að verða skýrari, lagaumgjörð styrkist og fagfélög koma fram, þrengir hins vegar að konum og þeim er ýtt með markvissari hætti út á jaðarinn.35 Hér á Íslandi var mikil þensla á tímarita- og dagblaðamarkaði á árunum 1880 til 1920, á sama tíma og konur fara að láta að sér kveða með blaðaskrifum. Þær náðu hins vegar aldrei að komast almennilega að í karlatímaritum og dagblöðum hér á landi. Til að geta látið að sér kveða þurftu þær að skapa sér eigin vettvang í kvennablöðunum, en sá vettvangur hefur aldrei verið álitinn hluti af meginstraumi íslenskrar blaðamennsku.

 

Falkinn

 

Langt fram eftir 20. öld  þóttu blaðakonur nýstárlegt fyrirbæri. Í þessari samantekt Fálkans frá 7. febrúar 1962 segir að blaðamennska virðist vera „í tízku hjá kvenfólki um þessar mundir“, þær séu „alls orðnar sjö“ og hafi „fjölgað ört í seinni tíð“. Þeir hafa þó greinilega talið vitlaust því blaðakonurnar eru átta.

 

„Kvennaskrif” eru einangruð og aðskilin frá „almennum skrifum”, sem eru aldrei skilgreind sem karlaskrif. Skrif karla eru viðmiðið en kvennablöðin til hliðar og hafa haldist þar í íslenskri fjölmiðlasögu allt fram á okkar daga.36 Þrátt fyrir að markmiðið sé að vinna að framgangi kvenfrelsishugsjóna eiga þau sinn þátt í því að viðhalda hefðbundinni skiptingu í kvenleg og karlleg málefni, þar sem hinu kvenlega er ýtt til hliðar sem ómerkilegra framlagi en hinu karllega. Það breytir því þó ekki að konurnar sem skrifuðu í þessa fjölmiðla töldu eftir á að blaðabröltið hefði gefið lífi þeirra aukið gildi og að við sem á eftir komum fáum í þeim mikilvægar upplýsingar um skoðanir fjölbreytts hóps kvenna og framlag þeirra til samfélagsins.

  

AÐ MÓTA SAMTÍMANN
Undanfarið hefur mikil umræða skapast um stöðu kvenna innan fjölmiðla. Eins og sjá má af umfjölluninni hér að framan getur kynjaslagsíða meðal þeirra sem stýra fjölmiðlum og skrifa í þá dregið upp bjagaða mynd af samtíð okkar. Karlafjölmiðlar lýsa ekki íslenskum veruleika eins og hann er í raun, heldur fyrst og fremst veruleika og sjónarmiðum karla. Við það bætist, eins og Hrafnhildur Ragnarsdóttir bendir á, að konur á borð við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Ingu Láru Lárusdóttur, sem gaf út tímaritið 19. júní, voru ekki aðeins að skrá söguna heldur einnig að greina hana og túlka – að taka sér stöðu „sem pólitískur þjóðfélagsskýrandi“.37 Blaðamenn lýsa ekki einungis heiminum heldur taka þátt í að móta samfélagið; viðhorf okkar og gildi. Því er mikilvægt að konur hafi þar eitthvað að segja.

 

Greinin birtist fyrst í fjórða tölublaði Spássíunnar, vorið 2011.


[1] Islaandske Maaneds Tidende hóf göngu sína í Danmörku árið 1773.

[2] Skandinaven þann 12. nóvember árið 1898. Eftirmælin voru þýdd í aukablaði Heimskringlu 13. janúar 1899.

[3] Bríet Héðinsdóttir, Strá í hreiðrið. Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur byggð á bréfum hennar, Reykjavík, Svart á hvítu, 1988, 38-40.

[4] Sama rit, 43.

[5] Sama rit, 48.

[6] Björg Einarsdóttir, „Blaðaútgefendur á öldinni sem leið", Úr ævi og starfi íslenskra kvenna IIErindi flutt í Ríkisútvarpið 1984-1985, Reykjavík, Bókrún, 1986, 207 og 14.

[7] Bríet Bjarnhéðinsdóttir, „Háttvirtu kaupendur!", Kvennablaðið, 21. febrúar 1895.

[8] „Blaða- og tímaritaútgáfa íslenzkra kvenna (Útvarpserindi nokkuð stytt)", 19. júní, 1954, 23.

[9] Ingibjörg Skaptadóttir og Sigríður Þorsteinsdóttir, „Framsókn", Framsókn, 8. janúar 1895.

[10] Sama rit.

[11] „Drengir og stúlkur", Framsókn, 5. desember 1895.

[12] „Hafið gát á börnunum!", Framsókn, mars 1896.

[13] „Konungsdóttir í flokki sosialista", Framsókn, mars 1896.

[14] Í greininni „Fágætt drenglyndi“, sem birtist í Framsókn 2. maí 1895, þakka ritstýrur Framsóknar Ólafíu Jóhannsdóttur þann 2. maí 1895 fyrir að hafa „ótilkvödd borið hönd fyrir höfuð okkur í blaðinu Þjóðólfi 10. tbl. þ.á., er hún fann að virðingu okkar var misboðið með ósönnum og miður góðgjörnum tilgátum um útgáfu blaðs okkar, Framsóknar.“

[15] „Athugasemd", Framsókn, apríl 1896.

[16] Bríet Héðinsdóttir, 51.

[17] „Hússtjórnarskólar (bústýru- og vinnukonuskólar)“, Kvennablaðið, 15. júní 1895.

[18] „Fyrsti kvennkandídat á Íslandi“, Kvennablaðið, 12. ágúst. 1895.

[19] Sigrún Pálsdóttir, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar. Reykjavík, JPV, 2010, 180.

[20] Ingibjörg Skaptadóttir og Sigríður Þorsteinsdóttir, „Framsókn", Framsókn, 8. janúar 1895.

[21] G., [Aðsend grein], Framsókn ágúst 1898,

[22]  R., [Aðsent], Framsókn 1. júní 1895.

[23] Bríet Bjarnhjeðinsdóttir, „Til kaupenda", Kvennablaðið, janúar 1896.

[24] „Blaða- og tímaritaútgáfa íslenzkra kvenna (Útvarpserindi nokkuð stytt)", 23.

[25] „Kúgun kvenna", Framsókn, desember 1900.

[26]  Greinin er merkt „J.“, sem væntanlega stendur fyrir Jarþrúði Jónsdóttur.

[27] Torfhildur var fyrsta íslenska konan sem sótti um slíkan styrk og sú fyrsta sem ákvað að gerast rithöfundur að ævistarfi. Sjá Vilhjálmur Þ. Gíslason, Blöð og blaðamenn 1773-1944, Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1972, 233.

[28] „Íslenzk skáldkona", Framsókn maí 1901.

[29] Torfhildur Hólm, Dvöl, janúar 1903.

[30] Vilhjálmur Þ. Gíslason, 233-234

[31] Björg Einarsdóttir, 49.

[32] Bríet Héðinsdóttir, 68-72.

[33] Theodora Thoroddsen, „Þulur“, Skírnir (4), 1914, 415.

[34] Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Björg, Reykjavík, JPV, 2001, 143-144.

[35] Sjá t.d. Paula McDowell, The Women of Grub Street. Press, Politics, and Gender in the London Literary Marketplace 1678-1730, Oxford, 1998.

[36] Í Blöð og blaðamenn 1773-1944 er fjallað um  „Kvennablöð og barnablöð“ á einni og hálfri blaðsíðu, 185-186.

[37] Hrafnhildur Ragnarsdóttir,  „Hver var hún? : Inga Lára Lárusdóttir og tímarit hennar 19. júní“, Sagnir, 2004.

 

 

 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.