Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Verður meira að ljóði en áður

Verður meira að ljóði en áður


Lengri útgáfa af viðtalinu birtist í
vetrarhefti Spássíunnar 2012

 

Gerður Kristný hefur hlotið fjölda verðlauna, bæði fyrir barnabækur sínar og fullorðinsbækur. Fyrir tveimur árum fékk hún síðan Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Blóðhófni en nú eru það Strandir sem gagnrýnendur hafa skreytt hverri stjörnunni á fætur annarri, enda er skáldið þar í fantagóðu formi. Ljóðin virðast í fyrstu láta lítið yfir sér en reynast oft geyma stóra sögu. Myndirnar sem dregnar eru upp eru fágaðar og meitlaðar. Helga Birgisdóttir ræddi við Gerði Kristnýju um hvernig hún hefur slakað á landamæravörslunni í ljóðheimi sínum.

 

EKKI HVERJUM SEM VAR HLEYPT INN
Kápan á Ströndum, nýjustu ljóðabók Gerðar Kristnýjar, minnir helst á bútasaumsteppi eða pappírslistaverk. Hönnuðurinn Alexandra Buhl virðist hafa ofið saman mjóa renninga í bláum og hvítum tónum. Þeir virðast ýmist ætla að stökkva fram eða sökkva ofan í bókina. Þarna sjást ský, himinn, ísjakar, jökull, sjór – eða jafnvel þetta allt saman. Titill bókarinnar, Strandir, stekkur líka fram, ritaður á appelsínugulan borða.  Hann er fenginn úr fyrsta ljóði bókarinnar þar sem ort er um Strandasýslu en þaðan á Gerður rætur að rekja. Í öðrum ljóðum er staðnæmst við æskuslóðir skáldsins í Safamýri í Reykjavík og hugað að vorinu í Skerjafirðinum þar sem Gerður býr nú. Í „Hólavallagarði“ er lesandinn harkalega minntur á stríðsátök úti í hinum stóra heimi. Sum ljóðin gerast í útlöndum og segja má að í Ströndum fari Gerður víðar en áður og þótt oft sé nístingskuldi í ljóðunum eru þar líka afslappaðri og hlýlegri ljóð. Gerður tekur ekki fyrir að svo sé.

„Það getur vel verið að það sé léttara yfir Ströndum en öðrum ljóðabókum mínum. Hún er ort víða um heiminn þar sem ýmislegt forvitnilegt hefur orðið á vegi mínum. Landamæragæslan í ljóðheimi mínum hefur oft verið mjög ströng en ég hef slakað á henni á undanförnum árum. Samt hentar sumt þessum heimi mínum betur en annað. Ef Skírnir hefði fengið þvottavél og þurrkara fyrir að ferðast til Jötunheima að sækja Gerði Gymisdóttur hefði ég aldrei ort Blóðhófni en þar sem hann fékk sverð og hest fannst mér sjálfsagt að yrkja bálkinn. Á þessu ári hef ég farið í 11 upplestrarferðir til útlanda og hef nýtt þær til að semja. Það er ákaflega dýrmætt að fá að kynnast erlendum ljóðskáldum og fá að hlusta á þau.

 

ANGAN MINNINGANNA 
Eitt af löndunum sem Gerður hefur ferðast til er Indland en þar hefur hún tvisvar sótt ljóðahátíðir. Sú fyrri fór fram á Kolkata og þangað hélt Gerður með Sigurði Pálssyni skáldi. Í ljóðinu „Indland“ úr Ströndum yrkir Gerður um mann sem leggst til hvílu á umferðareyju undir dagblaði. Ísland og Indland mætast síðan í ljóðinu „Skarphéðinn í Kolkata“ og enn er Gerður á Indlandi í „Silki“. Þar svífa sjölin „niður úr hillum / og setjast í“ (bls.) lófa ljóðmælanda og kaupmaður nokkur sver að þau séu úr ekta silki. Hann tekur af allan vafa með því að bregða upp eldspýtu og svíða af kögri. Samstundis liðast upp lykt af brenndu mannshári sem á að sanna mál hans. „Þetta gerðist í raun og veru,“ segir Gerður. „Sigurður var með mér í för og þessi ferð á markaðinn í Kolkata sat í honum rétt eins og mér því hann átti líka eftir að nota það sem kaupmaðurinn sagði í ljóð.“

Ljóðmælandi keypti ekkert silki af kaupmanninum en getur nú „hvenær sem er / brennt lokk“ úr hári sínu „og fundið angan af / indversku silki“ (35). Það eru fleiri minningar í Ströndum sem ilma. Þær eru íslenskar og tengjast bernskunni. Í ljóðinu Safamýri er ilmandi snjór. „Þegar ég var barn og unglingur hugsaði ég mikið um hvernig skáld ættu að vera, hvernig þau ættu að haga sér og hvar þau byggju. Það eru sumir staðir á landinu og hverfi hér í borg sem þykja bókmenntalegri en aðrir staðir og Safamýrin er örugglega ekki eitt þeirra. Mér fannst vera kominn tími til að hleypa henni inn í íslenskan bókmenntaheim.“

 

IMG_0072-lítil

 

ÆSKA OG ÆVI ANNARRA
Í Ströndum er ekki aðeins ort um æsku skáldsins heldur æsku annarra barna, íslenskra og erlendra. Og það fer ekki vel fyrir þeim öllum eins og sést í „Ljóði um börn“ þar sem ort er um börn Joseph Göbbels annars vegar og börn Nikulásar II Rússakeisara hins vegar. Það er ekki Óli lokbrá sem vitjar þessara barna heldur Þórður Kárason. „Þarna geri ég Þórð litla Kárason, sem er aukapersóna úr Njálu, að aðalpersónu í ljóði. Það var gaman að tosa hann fram á sjónarsviðið, þennan litla dreng sem kemst upp með það að ganga í eldinn með afa sínum og ömmu, þeim Njáli og Bergþóru, og finnst svo undir nautshúð. Öll þessi kvöldu börn í heiminum verða að eiga sinn dýrling.“

„Stjarna fæðist á Vestdalseyri“ er bjart og fallegt ljóð ort til Vilborgar Dagbjartsdóttur skálds. Gerður las ævisögu Vilborgar eftir Þorleif Hauksson, Úr þagnarhyl, og fannst hún bæði góð og skemmtileg. „Hún sat í mér, þessi mynd af barninu Vilborgu að klöngrast heim um nótt þegar breskur hermaður kveikir skyndilega á kastara til að lýsa henni leiðina heim. Mér fannst gaman að geta sýnt Vilborgu virðingarvott og ort henni ljóð. Ég las það fyrir hana í síma þegar það var fullort og hún benti mér á að hún hefði átt vaðstígvél sem barn en ekki strigaskó eins og ég hafði klætt hana í.“

IMG_0147-lítil IMG_0157-lítil
 
„Lesendum er ráðlagt að renna upp í háls, muna eftir vettlingunum og jafnvel líka endurskinsmerki áður en þeir byrja á „Skautaferð“,“ segir Gerður.

 

KULDI, SNJÓR OG KRAP
Ljóðin sem gerast á Íslandi, einkum Strandasýslu, einkennast af kulda og snjó en hvergi er kuldinn þó meiri en í bálkinum „Skautaferð“. Þar krafsar veturinn „með klónum / í hurðina“ og „vindar / geisa um gáttir“. „Lesendum er ráðlagt að renna upp í háls, muna eftir vettlingunum og jafnvel líka endurskinsmerki áður en þeir byrja á „Skautaferð“,“ segir Gerður, sem upphaflega hugsaði sér að bálkurinn kæmi út í sér bók. „En síðan voru bæði bálkurinn og stöku ljóðin tilbúin á sama tíma svo ákveðið var að gefa hvort tveggja út í sömu bókinni.“

Við kuldann fléttar skáldið handavinnu því útsaumur leikur stórt hlutverk í bálkinum svo úr verður listaverk; myndrænn bálkur og nístingskaldur, hraður og heillandi. Þótt í „Skautaferð“ séu saumuð blóm með „blíðgulum þræði“ (56) þvertekur Gerður fyrir að vera lunkin með nálina. „Ég er algjör rati í handavinnu. Ég hafði enga eirð í mér í handavinnutímum svo kennarinn lét mig sitja við hlið sér í tímum og snúa út í bekkinn. Mér fannst aukafög frekar leiðinleg og vildi bara læra þau bóklegu. Sem betur fer gat mamma mín dregið mig að landi í handavinnuverkefnunum.“  

 

STEMNING FYRIR LJÓÐUM
Í viðtali í Morgunblaðinu árið 2007 sagði Gerður „allt þetta tal um dauða ljóðsins“ ekki lýsa öðru en „ótta okkar við að missa það“. Henni fannst þessi ótti ástæðulaus þá og finnst það enn. „Ég fæ mikil viðbrögð við ljóðunum mínum. Íslendingar hafa áhuga á ljóðum og þeir allra hörðustu kaupa sér ljóðabækur. Sjálf finnst mér ég verða að eiga ljóðabækur uppáhaldsskáldanna minna og hef lesið sumar þeirra svo oft að blöðin hafa fyrir löngu losnað úr kilinum. Lágt muldur þrumunnar eftir Hannes Sigfússon er til dæmis býsna illa farin.“

Gerður er þegar farin að vinna að næstu bókum. „Ég er að skrifa skáldsögu þessa dagana fyrir fullorðna en síðan bíður mín bálkur. Aðalatriðið er að skrifa alltaf það sem mig langar mest til. Mig grunaði aldrei að Blóðhófnir félli jafn vel í kramið hjá lesendum og hann gerði og það var ekki nokkur maður sem bað mig um að yrkja þá bók.“

 

IMG_0056-lítil IMG_0198-lítil  
 
;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.