Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Nasísk typpi án tilveruréttar

Nasísk typpi án tilveruréttar

Snorri segir frá því í Heimskringlu sinni þegar Danakonungur sendi kunnugan mann til Íslands, og fór sá maður hamförum í hvalslíki yfir hafið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt, segir Snorri, segir Jörmunrekur, og varð galdramaðurinn í hvalslíkinu frá að hverfa. Það þurfti að taka tillit til þessara vætta því þær eru sannarlega frumbyggjar landsins (Landvættir, 414).

 

Arnór var líklega rúmlega þriggja ára, ef ekki hreinlega orðinn fjögurra, þegar Sigga Dós fann loks upp á því að kynna hann fyrir landvættunum. Hún lét sig hverfa inn á milli hillanna á bókasafninu og sneri aftur með Heimskringlu Snorra Sturlusonar, fletti upp á Ólafs sögu Tryggvasonar og las: [...] Þá hafði Haraldur konungur sent Íslendingum flugumann í hvalslíki til að athuga stöðuna. „Er hann kom til landsins fór hann vestur fyrir norðan landið. Hann sá að fjöll öll og hólar voru fullir af landvættum, sumt stórt en sumt smátt. [...]“ (Illska, 204)


Sagan af landvættunum úr Heimskringlu skýtur upp kollinum í tveimur skáldsögum síðasta árs, Landvættum Ófeigs Sigurðssonar og Illsku Eiríks Arnar Norðdahl, sem hlýtur að gefa til kynna að saga okkar sem þjóðar, og þá sérstaklega hugmyndin um það hversu óháð við séum og vernduð gegn umheiminum, er ofarlega á baugi í bókmenntunum um þessar mundir. Þessar tvær hnausþykku skáldsögur eiga sér reyndar svo marga snertifleti að það hlýtur að vera rannsóknarefni í sjálfu sér, en hér verður aðeins bent á einn þann augljósasta: Í báðum skáldverkum kemur ungur nýnasisti við sögu og verður eins konar birtingarmynd þess að fortíðin, vítahringur ofbeldis, heldur áfram að ásækja okkur þrátt fyrir tilraunir til að bæla hana niður og þagga. Og í báðum verkum er dregið úr þeirri fjarlægð sem við viljum yfirleitt halda gagnvart nasismanum, jafnt persónulega og sem þjóð.

Í Illsku er sagan af ástum og örlögum þriggja ungra Íslendinga í upphafi 21. aldar fléttuð saman við söguna af Helförinni, og þá sérstaklega söguna af örlögum íbúa í litháíska bænum Jurbarkas. Þar birtist nýnasistinn Arnór í fyrstu aðeins í gegnum frásögn annarrar sögupersónu, Ómars, sem „„typpið“ á öðrum manni að fara inn og út úr „píkunni““ á Agnesi, konu Ómars. Með því að halda fókusnum á „[n]asíska typpinu á Arnóri“ neitar Ómar Arnóri um að vera fullgildur þátttakandi í ástarþríhyrningi, enda felur skilgreiningin „nasistadrullusokkur“ það í sér að Arnór hafi „ekkert tilkall“, „engan rétt“ (37). Lesandi er fræddur um það á öðrum stað að „öðrun“ sé „listin að láta svo líta út sem heimurinn samanstandi af fólki sem í grunninn er öðruvísi en maður sjálfur“ (56) og „aðraðir“ nýnasistar eins og Arnór fá ekki hvað síst það hlutverk í samfélagi okkar að gefa okkur hinum fjarvistarsönnun:

Sjálfskipuðu rasistarnir veita kerfisbundinni misnotkun fjarvistarsönnun (einsog því að geyma flóttamenn á Íslandi við hliðina á alþjóðaflugvellinum í Keflavík svo hægt sé að senda þá úr landi fyrirvaralaust, jafnvel í skjóli nætur, eða fresta því í áraraðir að afgreiða umsóknir um hælisvist í þeirri von að flóttamennirnir gefist bara sjálfir upp og fari, verði annarra þjóða „vandamál“ (60-61).

 

Agnes, sem á litháíska foreldra og er af gyðingaættum, reynir meira að segja sjálf að halda Arnóri áfram í öruggri fjarlægð eftir að hún byrjar að „gera það“ með honum: 

Enn sem komið var gat hún ekki einu sinni orðað það fyrir sjálfri sér öðruvísi en að þau væru að „gera það“. Ekki ríða. Ekki serða. Ekki gilja. Ekki maka sig. Ekki eðla sig. Og þaðan af síður elskuðust þau eða nutu ásta. „Gera það“ var eina hugtakið sem var nógu loðið til þess að Agnes gæti kannast við það án þess að bresta í grát (145).

 

En textinn leyfir ekki að nýnasistanum Arnóri, eða nasisma yfir höfuð, sé haldið í slíkri fjarlægð. Það er m.a. gert með því að láta sjónarhornið rása til og frá. Við fáum 1., 2. og 3. persónu frásagnir í eintölu og fleirtölu á meðan sjónarhornið flakkar milli persóna en sögumaður/höfundur/textinn sjálfur  er meðal þeirra og hefur ekki aðeins afar ágenga nærveru heldur skoðanir á því hvernig skuli skilgreina hann – þótt sú skilgreining einfaldi ekki neitt:

Þetta er textinn í bókinni. Ég er textinn, ég er bókin og ég er að skrifa textann í bókinni. Ég er ekki höfundur bókarinnar. Eiríkur er höfundur bókarinnar (þið getið hringt í hann og fengið það staðfest, ef þarf) (118).

 

Í upphafi sögunnar fær Ómar reglulega að tjá sig í 1. persónu. Lesandinn fær því mestar upplýsingar um hans upplifun og það verður auðveldast að finna til samkenndar með honum. En smám saman kemur í ljós að Ómar er í raun óttaleg lufsa; að hann er kannski ekki að ýkja þegar hann lýsir sjálfum sér svo:

Auðvitað hlaut Agnes að tryllast á því að mæta þessu tómi sem ég var, að banka, opna og stara ofan í holið. Ef hún á annað borð elskaði mig þá gat hún ekki annað en álasað sér. Skammast sín. Einsog maður skammast sín fyrir að njóta þess að lesa lélega bók, horfa á vonda sjónvarpsþætti. Ég var ekki maður. Ég var mannslíki. Eftirherma. Þunnildi (97-98).

 

Ein sterkustu skilaboð bókarinnar verða þau að það, að láta sig berast passífan með straumnum, hlaupast sífellt undan uppgjöri eða standa stjarfur sem áhorfandi, getur líka falið í sér ofbeldi gegn öðrum. Og þegar upp er staðið er Ómar kannski mun ógeðfelldari manneskja en Arnór, sem verður ekki aðeins hluti af tilfinningaþrungnum ástarþríhyrningnum sem sagan hverfist um, heldur að tragískri sögupersónu, dálítið klisjukenndum leiksoppi örlaganna í leit að föðurímynd. Agnes togast þeirra á milli og líkamnar allar þær flækjur sem bókin fléttar saman; hún er ekki aðeins með tvo menn í takinu sem hún elskar og fyrirlítur í senn, heldur litháískur Íslendingur, með ættir að rekja til gyðinga og nasista. Þessi ástarsaga  úr Reykjavík samtímans er þannig notuð til að leiða okkur gegnum þann hluta evrópskrar fortíðar sem okkur finnst hvað erfiðast að takast á við. Því skriðþunga mannkynssögunnar verður ekki miðlað með hefðbundnu „skriðdrekablæti í bland við dulda aðdáun á hreinu og tæru umfangi voðaverkanna sem framin voru í heimsstyrjöldunum tveimur að ógleymdum öllum öðrum hörmungum þessarar miklu „framsóknaraldar““ (80). Eins og Jón Ólafsson bendir á, í bókinni Appelsínur frá Abkasíu, verður erfitt að skilja hörmungar þegar umfang þeirra verður svo stórt. Þá verða sögur einstaklinga að mun sterkara tæki til að koma hryllingnum til skila.

Þetta er vel gert hjá Eiríki Erni og í augnablikinu, eftir að Illska hefur fengið hverja stjörnu gagnrýnenda á eftir annarri, trónað á listum yfir söluhæstu jólabækurnar og fengið Íslensku bókmenntaverðlaunin, hef ég það á tilfinningunni að ég sé eina manneskjan á Íslandi sem fannst Gæska, síðasta skáldsaga Eiríks Arnar, enn betri en Illska. Það er einhver óhemjuskapur í Gæsku sem höfðar til mín og vekur með mér kæti, einhver leikur með tungutak hrunsins sem mér finnst ganga fullkomlega upp. Þrátt fyrir öll sín uppbrot og tiktúrur eins og ágengan, uppáþrengjandi sögumann, þá finnst mér Illska fylgja meira forskrift hefðbundinnar skáldsögu. Þetta hefur vakið hjá mér vangaveltur um það hvort slík forskrift sé hreinlega skilyrði fyrir því að bók hljóti allt í senn; almenna náð gagnrýnenda, hylli almennings og formlega viðurkenningu í formi verðlauna. Getur verið að við ýtum þannig höfundum sífellt í átt til hins hefðbundna? En kannski er það oftúlkun. Kannski er það einfaldlega svo að í Illsku hefur höfundurinn fyrst og fremst sett sér það markmið að halda athygli lesandans til enda og notar öll ráðin í bókinni til að fá hann til að gefa sig á vald sögunni. Og það tókst honum. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.