Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Að gubba sviðasultu og önnur ævintýri

Að gubba sviðasultu og önnur ævintýri

Barnabækur eru alla jafna skrifaðar, markaðssettar, gefnar út og keyptar af fullorðnu fólki sem er yfirleitt þeirrar skoðunar að bjóða skuli börnum upp á góðar barnabækur – hvað svo sem talið er felast í gæðunum hverju sinni. Gæði barnabóka hafa oft verið mæld í boðskap eða skilaboðum en sumir ganga svo langt að tala um barnabækur sem hrein og bein uppeldistæki. Randalín og Mundi, fyrsta barnabók Þórdísar Gísladóttur, kolfellur við fyrstu sýn á uppeldisprófinu en dúxar á öðrum.  

Sagan er lipurlega skrifuð og bráðfyndin en hún segir frá nokkrum vel völdum atburðum í lífi félaganna Randalínar og Munda sumarið þegar þau kynnast. Þetta er Reykjavíkursaga og sögusviðið afmarkast að mestu við hverfið þar sem krakkarnir búa, sem líklega er Norðurmýrin. Sagan byrjar þó ekki vel heldur með reykingum. Mundi kemur í fyrsta sinn auga á Randalín þar sem hún stendur og reykir fyrir utan heimili sitt. Hann varar hana við skaðsemi reykinga en stúlkan segist bara ekki geta hætt, hún reyki sjö sígarettur á dag og verði líklega steindauð um jólin. Því næst snýr hún sér undan, gubbar svo bunan stendur út úr henni og segir svo við Munda:

 

Svona er ég orðin veik af að reykja. Ég gubbaði meira að segja sviðasultunni sem ég fékk mér í morgunmat. Ég verð að reyna að hætta (bls. 12).

 

Þar með hefst fyrsta ævintýrið. Krakkarnir leita á náðir Barnalands svo Randalín steindrepist ekki úr reykingum og í kjölfarið fara þau alla leið inn á Njálsgötu í leit að „dáleiðanda“ til að hjálpa reykingakonunni. Síðan rekur hvert ævintýrið annað, eitt í hverjum kafla, og við sögu kemur skrítið og skemmtilegt fólk, t.d. Konráð Lúðvík ljóðskáld, faðir Randalínar, bóksalinn á Hverfisgötunni og gítarleikarinn Mússi sem er svo heppinn að eiga kornsnákinn Guttorm.

Randalín og Mundi er bók sem, þrátt fyrir reykingarnar og þá staðreynd að ein söguhetjan rífur blaðsíður úr bók (!!), boðar lífsgleði og fjör, jákvæðni, umburðarlyndi og fjölbreytileika.  Randalín og Mundi er krakkasaga, bæði fyrir þá sem njóta þess að láta lesa fyrir sig og vilja lesa sjálfir, og mætti flokka með klassískum prakkarasögum á borð við Gvendur Jóns og draugarnir á Duusbryggju eftir Hendrik Ottósson, sem og nýrri sögum á borð við bækurnar um Fíusól, forsetabækur Gerðar Kristnýjar og bækur Brynhildar Þórarinsdóttur um Nonna og Selmu. Þórdís er komin í lið með ört stækkandi hópi metnaðarfullra rithöfunda sem skrifa vandaðar bækur fyrir káta krakka sem njóta þess að lesa. Hún getur ekki annað en verið velkomin í þann hóp.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.