Error loading MacroEngine script (file: OpenGraphMetadata.cshtml) Spássían.is - Þriðja bók safnaþríleiksins

Þriðja bók safnaþríleiksins

Fyrst kom Forngripasafnið (2010), þá Náttúrugripasafnið (2011) og nú Listasafnið, þriðja og síðasta bókin í safnaþríleik Sigrúnar Eldjárn. Aðalsöguhetja bókanna er Rúnar, sem í þeirri fyrstu flytur í þorpið Ásgarð þar sem einstæður faðir hans hefur fengið vinnu sem safnstjóri. Hver bók segir frá því hvernig einu safni er komið á fót með tilheyrandi vandræðum, ótrúlegustu göldrum og draugagangi og nú er komið að listasafni. Pabbi tekur hins vegar lítinn þátt í því þar sem honum býðst, með stuttum fyrirvara, spennandi starf í Svíþjóð. Hann kveður sögusviðið ansi fljótt og inn flögrar móðir Rúnars alla leið frá New York, til að hugsa um Rúnar og koma listasafninu á koppinn. Sjálf er hún listamaður og starfinu vel vaxin.

Allar bækur safnaþríleiksins tengja saman fortíð og framtíð, tækni og tól við undur og galdra og svo Ísland og umheiminn. Í Listasafninu er þetta gert með hinni fornu goðsögu um elskendurna Pýramus og Þispu sem fá ekki leyfi foreldra sinna til að eigast. Þau flýja að heiman nótt eina. Þar sem Þispa situr undir mórberjatré og bíður eftir Pýramusi sér hún ljón með alblóðugan kjaft eftir síðustu bráð. Þispa flýr í burtu og missir um leið sjalið sitt sem ljónið flækist í. Þegar Pýramus kemur finnur hann ekki Þispu en sér þess í stað blóði drifið og stundurtætt sjalið. Sannfærður um að Þispa sé dáin tekur hann fram sverð sitt og lætur sig falla á það. Svona finnur Þispa ástmann sinn og heltekin af sorg tekur hún líf sitt með sama hætti og Pýramus.

Goðsagan um Pýramus og Þispu hefur verið endursögð og endursamin á ótal vegu, t.d. nýtir Shakespeare sér efni hennar í Rómeó og Júlíu og Louisa May Alcott, höfundur Yngismeyja, skrifaði smásöguna „Gat í veggnum“ sem byggð er á goðsögninni. Hér er það Þispa, móðir Rúnars, sem tengir saman nútíð og fortíð, raunheim og heim goðsagna og galdra. Lykilhlutverki gegnir málverk af elskendunum sem hún kom fyrst auga á sem barn, eignaðist á fullorðinsárum og það ratar síðan inn í sjálft listasafnið með dularfullum hætti.

Ævintýrið í tengslum við goðsögnina og málverkið er eitt það áhugaverðasta við Listasafnið en það er alls ekki eina sagan sem sögð er. Þannig snýst Listasafnið ekki í kringum einn ákveðinn atburð eða sögu heldur eru þær margar og hver týnist svolítið inni í annarri. Sem dæmi má nefna að fjallað er um útlenda og undarlega listamenn með blátt hár, öfundsjúka og þjófótta vinkonu, foreldravandamál, eldspúandi dreka og eldfjöll í fullu fjöri, uppsetningu listasafnsins og átök við sveitungana og svona mætti halda áfram. Sögumaður er þar að auki ekki einn heldur eru þeir margir – auk þess sem sögupersónur eru einnig svo margar að erfitt er að tengjast þeim og sögu þeirra nógu vel.

Listasafnið er á heildina litið fjörlega og vel skrifuð skáldsaga, uppfull af ímyndunarafli og stuði, og myndirnar – sem eru fjölmargar – gera bókina enn skemmtilegri. Sagan er þó ögn ruglingsleg og betra væri að fjalla nánar um færri atburði. Listasafnið er þó ágætur lokahnykkur í dágóðum þríleik, en ég hvet alla til að lesa fyrst hinar bækurnar tvær, sem eru mun betri en þessi, og í raun er nauðsynlegt að lesa þær til að geta notið Listasafnsins til fulls. 

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.